Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:49 • Sest 15:04 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:06 • Síðdegis: 23:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:41 • Síðdegis: 17:31 í Reykjavík

Get ég rökfræðilega sagt "Ég er lygari"?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Þótt einhver sé lygari er ólíklegt að viðkomandi ljúgi alltaf. Jafnvel harðsvíruðustu lygarar segja stundum satt, þó ekki væri nema vegna þess að þeir vita þá ekki betur. Þannig getur einhver sem segir oft ósatt sagt “Ég er lygari” og sagt satt í það skiptið. Viðkomandi er þá að segja okkur satt frá því að hún ljúgi stundum (jafnvel oft).

En ef við höldum okkur við þennan algengasta skilning á orðinu lygari; að það sé einhver sem segir stundum ósatt, getur setningin “Ég er lygari” hins vegar ekki verið ósönn. Ef setningin “Ég segi stundum ósatt” er ósönn hlýtur það að þýða að viðkomandi segi alltaf satt en þá stenst ekki að setningin geti verið ósönn. Því stenst setningin “Ég er lygari” eða “Ég segi stundum ósatt” rökfræðilega ef hún er sönn en veldur vandræðum ef hún er ósönn.

Kannski má líka skilja fullyrðinguna “Ég er lygari” á þann veg að viðkomandi sé að halda því fram að hún ljúgi alltaf. Setningin hefur þá sömu merkingu og “Ég segi alltaf ósatt”. Um þessa útgáfu gildir hið gagnstæða við ofangreinda útgáfu. Hún stenst ef hún er ósönn en getur ekki verið sönn.

Ef við gerum ráð fyrir að sú sem segir “Ég segi alltaf ósatt” sé að segja ósatt í það skiptið en segi hins vegar stundum satt er vandalaust að segja til um sannleiksgildi fullyrðingarinnar; hún er einfaldlega ósönn.

Ef við gerum hins vegar ráð fyrir að viðkomandi segi alltaf ósatt þá verður staðhæfingin sönn og þá stenst það ekki að hún segi alltaf ósatt. Þessi kostur leiðir því til innri mótsagnar og er rökfræðilega útilokaður.

Niðurstaðan er því sú að okkur er öllum óhætt að segjast vera lygarar svo lengi sem við segjum stundum ósatt en ekki alltaf. Og sjálfsagt komumst við ekki hjá því að segja einstöku sinnum ósatt, til dæmis þegar við vitum ekki betur.

Sjá einnig svar Ólafs Páls Jónssonar við spurningunni A: Setning B er lygi; B: Setning A er sönn. Getur þetta nokkurn tímann gengið upp?

Höfundur

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

19.6.2003

Spyrjandi

Árni Arent

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Get ég rökfræðilega sagt "Ég er lygari"?“ Vísindavefurinn, 19. júní 2003. Sótt 4. desember 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=3509.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2003, 19. júní). Get ég rökfræðilega sagt "Ég er lygari"? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3509

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Get ég rökfræðilega sagt "Ég er lygari"?“ Vísindavefurinn. 19. jún. 2003. Vefsíða. 4. des. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3509>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Get ég rökfræðilega sagt "Ég er lygari"?
Þótt einhver sé lygari er ólíklegt að viðkomandi ljúgi alltaf. Jafnvel harðsvíruðustu lygarar segja stundum satt, þó ekki væri nema vegna þess að þeir vita þá ekki betur. Þannig getur einhver sem segir oft ósatt sagt “Ég er lygari” og sagt satt í það skiptið. Viðkomandi er þá að segja okkur satt frá því að hún ljúgi stundum (jafnvel oft).

En ef við höldum okkur við þennan algengasta skilning á orðinu lygari; að það sé einhver sem segir stundum ósatt, getur setningin “Ég er lygari” hins vegar ekki verið ósönn. Ef setningin “Ég segi stundum ósatt” er ósönn hlýtur það að þýða að viðkomandi segi alltaf satt en þá stenst ekki að setningin geti verið ósönn. Því stenst setningin “Ég er lygari” eða “Ég segi stundum ósatt” rökfræðilega ef hún er sönn en veldur vandræðum ef hún er ósönn.

Kannski má líka skilja fullyrðinguna “Ég er lygari” á þann veg að viðkomandi sé að halda því fram að hún ljúgi alltaf. Setningin hefur þá sömu merkingu og “Ég segi alltaf ósatt”. Um þessa útgáfu gildir hið gagnstæða við ofangreinda útgáfu. Hún stenst ef hún er ósönn en getur ekki verið sönn.

Ef við gerum ráð fyrir að sú sem segir “Ég segi alltaf ósatt” sé að segja ósatt í það skiptið en segi hins vegar stundum satt er vandalaust að segja til um sannleiksgildi fullyrðingarinnar; hún er einfaldlega ósönn.

Ef við gerum hins vegar ráð fyrir að viðkomandi segi alltaf ósatt þá verður staðhæfingin sönn og þá stenst það ekki að hún segi alltaf ósatt. Þessi kostur leiðir því til innri mótsagnar og er rökfræðilega útilokaður.

Niðurstaðan er því sú að okkur er öllum óhætt að segjast vera lygarar svo lengi sem við segjum stundum ósatt en ekki alltaf. Og sjálfsagt komumst við ekki hjá því að segja einstöku sinnum ósatt, til dæmis þegar við vitum ekki betur.

Sjá einnig svar Ólafs Páls Jónssonar við spurningunni A: Setning B er lygi; B: Setning A er sönn. Getur þetta nokkurn tímann gengið upp?

...