Sólin Sólin Rís 03:58 • sest 22:53 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:24 • Sest 03:47 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:47 • Síðdegis: 16:21 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:07 • Síðdegis: 22:30 í Reykjavík

Eru háhyrningar hvalategund? Eru hvalir rándýr?

Jón Már Halldórsson

Svarið við fyrri spurningunni er já, háhyrningar eru sérstök tegund hvala og nefnis á fræðimáli Orcinus orca.

Lausleg skilgreining á hugtakinu tegund er afmarkaður hópur lífvera, hvort sem um er að ræða jurtir eða dýr, sem eru í meginatriðum eins að útliti og líkamsgerð og geta átt saman frjó afkvæmi. Háhyrningar eru því sérstök tegund. Nokkrum spurningar hefur þegar verið svarað um háhyrninga á Vísindavefnum og má nálgast þau svör með því að smella á efnisorðið í lok þessa svars.

Háhyrningar eru af ætt höfrunga (Delphinidae) og eru langstærstu meðlimir þessarar ættar. Háhyrninga er að finna í öllum heimshöfunum en þó halda þeir sig mest við landgrunnið þar sem fæðu er að fá. Þeir eru algengari á svæðum með mikla framleiðni, eins og undan ströndum Íslands og á öðrum sambærilegum tempruðum hafsvæðum og í heimskautasjó. Háhyrningar eru ekki eins algengir á svæðum við miðbaug.

Þessi dýr eru miklir tækifærissinnar þegar kemur að fæðuvali. Selir og önnur hreifadýr eru vinsæl fæða en einnig fiskur og aðrir hvalir. Rannsóknir virðast benda til þess að fjölmargar hjarðir (e. pods) háhyrninga hafa sérhæft veiðimynstur; sumar hjarðirnar sérhæfa sig í síldveiðum og aðrar í kópaveiðum og beita þær síðarnefndu mikilli dirfsku en jafnframt kænsku við að ná í kópa í flæðarmálinu eins og sjá má af myndinni hér að neðan.


Háhyrningar eru ekkert sérstaklega algengir þó að þeir finnist um allan heim. Þessi dýr þurfa mikið lífsrými enda gríðarstórar kjötætur; fullorðin karldýr geta orðið rúmir 9,5 metrar á lengd og vegið 8-10 tonn. Dýrin afkasta mikilli vinnu enda fara þau hratt yfir í fæðuleit og eru kraftmestu sunddýr jarðarinnar. Öll hegðun þeirra við veiðar minnir helst á úlfa enda eru þeir oft kallaðir úlfar hafsins. Rannsóknir hafa sýnt að háhyrningar þurfi dag hvern að éta kjöt sem samsvarar frá 2,5 til 5% af líkamsþyngd þeirra og ef dýrið er um sjö tonn þarf það frá 175 til 350 kg af fæðu á dag.

Hjarðirnar eru misstórar eða oftast frá örfáum dýrum upp í 25 dýr en þó þekkjast stærri hjarðir, allt að fimmtíu dýr. Vísindamenn hafa borið kennsl á tvenns konar gerðir af hjörðum, staðbundnar hjarðir og flökkuhjarðir. Talsverður atferlismunur er á þessum tveimur gerðum af hjörðum.

Flökkuhjarðirnar lifa aðallega á spendýrum og gefa ekki eins tíð hljóðmerki sín á milli. Staðbundnu hjarðirnar eru minni, mest um 7 dýr, kafa tíðar og lengur eða að meðaltali í 15 mínútur. Heimasvæði eða óðul staðbundnu hjarðanna eru mun minni og fiskur er uppistaðan í fæðu þeirra.

Rannsóknir hafa einnig verið gerðar á "tungumálum" hjarðanna og benda þær til þess að þau séu mismunandi milli hjarða. Þessar upplýsingar byggjast á rannsóknum á háhyrningum sem halda til í kanadískri landhelgi.

Það var höfundur flokkunarkerfis líffræðinnar, sænski grasafræðingurinn Carl Linné, sem skilgreindi háhyrninginn til tegundar og þá undir fræðiheitinu Delphinus orca sem þýða mætti sem djöflahöfrungur. Það hefur sennilega verið vegna lögunar bakuggans sem stendur beint upp og er gríðarstór, eða allt að 1,8 m á hæð. Strax í upphafi skipulegrar flokkunar á lífverum flokkaði Linné háhyrninginn sem sömu tegund og höfrung, en 1860 var hann skilgreindur sem sérstök tegund í ættkvíslinni Orcinus.

Til að svara síðari spurningunni bendum við fyrst á svar við spurningunni Eru allir tannhvalir ránhvalir? En að öðru leyti er svarið við þessu undir því komið hvaða skilningur er lagður í orðið 'rándýr'.

Þannig tilheyra hvalir ekki ættbálki hinna eiginlegu rándýra (Carnivora) samkvæmt flokkunarfræði dýrafræðinga (landdýr með klær, vígtennur og svo framvegis), en fæðuval þeirra einskorðast hins vegar við önnur dýr, hvort sem um er að ræða hreinræktaðar kjötætur eins og háhyrninga, eða skíðishvali sem sía sjóinn til þess að ná í örsmá, sviflæg krabbadýr. Hvalir eru því kjötætur eða afræningjar sem herja á önnur dýr og þess vegna má vel kalla þá rándýr samkvæmt þeirri merkingu orðsins sem felst til dæmis í enska orðinu predator en hún hefur að vísu ratað illa inn í íslenskar orðabækur fram að þessu.

Mynd 1: Hér má sjá muninn á kynjunum en sá helsti er bygging bakuggans auk þess sem karldýrin eru stærri en kvendýrin.

Mynd 2: Háhyrningar undan ströndum Suður-Ameríku beita sérstæðum og áhættumiklum aðferðum við veiðar á sæljónum.

Heimildir:
  • Bonner, Nigel. 1989. Whales of the World. Facts on File Inc., New York.
  • Gormley, Gerard. 1990. Orcas of the Gulf. Sierra Club Books, San Francisco.

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

26.6.2003

Spyrjandi

Ingibjörg Björnsdóttir

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Eru háhyrningar hvalategund? Eru hvalir rándýr?“ Vísindavefurinn, 26. júní 2003. Sótt 19. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=3530.

Jón Már Halldórsson. (2003, 26. júní). Eru háhyrningar hvalategund? Eru hvalir rándýr? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3530

Jón Már Halldórsson. „Eru háhyrningar hvalategund? Eru hvalir rándýr?“ Vísindavefurinn. 26. jún. 2003. Vefsíða. 19. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3530>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Eru háhyrningar hvalategund? Eru hvalir rándýr?
Svarið við fyrri spurningunni er já, háhyrningar eru sérstök tegund hvala og nefnis á fræðimáli Orcinus orca.

Lausleg skilgreining á hugtakinu tegund er afmarkaður hópur lífvera, hvort sem um er að ræða jurtir eða dýr, sem eru í meginatriðum eins að útliti og líkamsgerð og geta átt saman frjó afkvæmi. Háhyrningar eru því sérstök tegund. Nokkrum spurningar hefur þegar verið svarað um háhyrninga á Vísindavefnum og má nálgast þau svör með því að smella á efnisorðið í lok þessa svars.

Háhyrningar eru af ætt höfrunga (Delphinidae) og eru langstærstu meðlimir þessarar ættar. Háhyrninga er að finna í öllum heimshöfunum en þó halda þeir sig mest við landgrunnið þar sem fæðu er að fá. Þeir eru algengari á svæðum með mikla framleiðni, eins og undan ströndum Íslands og á öðrum sambærilegum tempruðum hafsvæðum og í heimskautasjó. Háhyrningar eru ekki eins algengir á svæðum við miðbaug.

Þessi dýr eru miklir tækifærissinnar þegar kemur að fæðuvali. Selir og önnur hreifadýr eru vinsæl fæða en einnig fiskur og aðrir hvalir. Rannsóknir virðast benda til þess að fjölmargar hjarðir (e. pods) háhyrninga hafa sérhæft veiðimynstur; sumar hjarðirnar sérhæfa sig í síldveiðum og aðrar í kópaveiðum og beita þær síðarnefndu mikilli dirfsku en jafnframt kænsku við að ná í kópa í flæðarmálinu eins og sjá má af myndinni hér að neðan.


Háhyrningar eru ekkert sérstaklega algengir þó að þeir finnist um allan heim. Þessi dýr þurfa mikið lífsrými enda gríðarstórar kjötætur; fullorðin karldýr geta orðið rúmir 9,5 metrar á lengd og vegið 8-10 tonn. Dýrin afkasta mikilli vinnu enda fara þau hratt yfir í fæðuleit og eru kraftmestu sunddýr jarðarinnar. Öll hegðun þeirra við veiðar minnir helst á úlfa enda eru þeir oft kallaðir úlfar hafsins. Rannsóknir hafa sýnt að háhyrningar þurfi dag hvern að éta kjöt sem samsvarar frá 2,5 til 5% af líkamsþyngd þeirra og ef dýrið er um sjö tonn þarf það frá 175 til 350 kg af fæðu á dag.

Hjarðirnar eru misstórar eða oftast frá örfáum dýrum upp í 25 dýr en þó þekkjast stærri hjarðir, allt að fimmtíu dýr. Vísindamenn hafa borið kennsl á tvenns konar gerðir af hjörðum, staðbundnar hjarðir og flökkuhjarðir. Talsverður atferlismunur er á þessum tveimur gerðum af hjörðum.

Flökkuhjarðirnar lifa aðallega á spendýrum og gefa ekki eins tíð hljóðmerki sín á milli. Staðbundnu hjarðirnar eru minni, mest um 7 dýr, kafa tíðar og lengur eða að meðaltali í 15 mínútur. Heimasvæði eða óðul staðbundnu hjarðanna eru mun minni og fiskur er uppistaðan í fæðu þeirra.

Rannsóknir hafa einnig verið gerðar á "tungumálum" hjarðanna og benda þær til þess að þau séu mismunandi milli hjarða. Þessar upplýsingar byggjast á rannsóknum á háhyrningum sem halda til í kanadískri landhelgi.

Það var höfundur flokkunarkerfis líffræðinnar, sænski grasafræðingurinn Carl Linné, sem skilgreindi háhyrninginn til tegundar og þá undir fræðiheitinu Delphinus orca sem þýða mætti sem djöflahöfrungur. Það hefur sennilega verið vegna lögunar bakuggans sem stendur beint upp og er gríðarstór, eða allt að 1,8 m á hæð. Strax í upphafi skipulegrar flokkunar á lífverum flokkaði Linné háhyrninginn sem sömu tegund og höfrung, en 1860 var hann skilgreindur sem sérstök tegund í ættkvíslinni Orcinus.

Til að svara síðari spurningunni bendum við fyrst á svar við spurningunni Eru allir tannhvalir ránhvalir? En að öðru leyti er svarið við þessu undir því komið hvaða skilningur er lagður í orðið 'rándýr'.

Þannig tilheyra hvalir ekki ættbálki hinna eiginlegu rándýra (Carnivora) samkvæmt flokkunarfræði dýrafræðinga (landdýr með klær, vígtennur og svo framvegis), en fæðuval þeirra einskorðast hins vegar við önnur dýr, hvort sem um er að ræða hreinræktaðar kjötætur eins og háhyrninga, eða skíðishvali sem sía sjóinn til þess að ná í örsmá, sviflæg krabbadýr. Hvalir eru því kjötætur eða afræningjar sem herja á önnur dýr og þess vegna má vel kalla þá rándýr samkvæmt þeirri merkingu orðsins sem felst til dæmis í enska orðinu predator en hún hefur að vísu ratað illa inn í íslenskar orðabækur fram að þessu.

Mynd 1: Hér má sjá muninn á kynjunum en sá helsti er bygging bakuggans auk þess sem karldýrin eru stærri en kvendýrin.

Mynd 2: Háhyrningar undan ströndum Suður-Ameríku beita sérstæðum og áhættumiklum aðferðum við veiðar á sæljónum.

Heimildir:
  • Bonner, Nigel. 1989. Whales of the World. Facts on File Inc., New York.
  • Gormley, Gerard. 1990. Orcas of the Gulf. Sierra Club Books, San Francisco.

...