Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Hverjir ástunda vúdú og hvaða hlutir eru notaðir við trúarathafnir?

Dagur Þorleifsson

Vúdú (voodoo, vodou, voudou) er algengasta heitið á trúarbrögðum sem mikill meirihluti íbúa á Haítí aðhyllist að einhverju marki. Hlutfallið er 80-90% samkvæmt sumum heimildum. Haítímenn sem hafa sest að í Norður-Ameríku og afkomendur þeirra ástunda einnig vúdú. Sumir fræðimenn meta það svo að vúdú hafi hnignað á Haítí á síðustu áratugum. Sem ástæður nefna menn vaxandi útbreiðslu hvítasunnuhreyfingarinnar þar í landi, minnkandi vægi stórfjölskyldunnar og áhrif erlendis frá, ekki síst með ferðamönnum. Vúdú heldur ef til vill betur velli meðal Haítímanna utan heimalandsins, sennilega vegna þess að þeir eru þar fámennir og áhrifalitlir minnihlutar og því verður átrúnaðurinn frá ættlandinu þeim hughreystandi uppistaða í sjálfsmynd.

Fræðimenn hafa ekki allir sömu afstöðu til vúdú, einn þeirra kallar það til dæmis "djöfladýrkun" (devil-worship) en aðrir fara um túrarbrögð þessi öllu vinsamlegri orðum. Þetta mismunandi mat stafar ef til vill af því að þessi trú, ásamt meðfylgjandi trúariðkun, getur verið mjög mismunandi frá einum söfnuði til annars. Verulegur munur er til dæmis á vúdúiðkun í borg og í sveit.


Vúdú-athöfn á Haítí.

Drýgsti þátturinn í vúdú er frá trúarbrögðum Vestur-Afríku á svæðinu frá núverandi Ghana í vestri til landsvæðanna kringum neðsta hluta Kongófljóts í suðri. Heitið er talið vera dregið af "vodu" sem þýðir "andi" eða "goð" á máli Fon-þjóðarinar sem býr þar sem nú er ríkið Benin. Einhverjir fræðimenn telja heitið þó komið frá annarri vestur-afrískri þjóð, Ewe, sem býr í Tógó og Ghana.

Hinn afríski átrúnaður sem varð uppistaðan í vúdú barst til Haítí með afrískum þrælum sem þangað voru fluttir, og blandaðist þar kaþólsku sem hefur verið opinber trúarbrögð þar í landi síðustu 500 árin eða svo. Mun vúdú hafa mótast nokkurn veginn á 18. öld. Samkvæmt sumum heimildum er svo að sjá sem vúdú hafi borist til baka til "upphafs" síns, að minnsta kosti hefur frést af því í ríkinu Benin.

Lengi vel var það einkum lágstéttarfólk á Haítí sem aðhylltist þennan átrúnað, en efri stéttir fyrirlitu hann. Á því varð breyting á fjórða áratug 20. aldar er menntamenn tóku að hylla vúdú sem þjóðartrú Haítímanna. Francois Duvalier, illræmdur einræðisherra sem ríkti á Haítí 1957-1971, studdi vúdú, bæði til mótvægis við kaþólsku kirkjuna sem hann hafði illan bifur á og sökum þess að hann taldi stuðning við vúdú líklegan til alþýðuvinsælda. Aðalástæða þess hve mikið af afrískum átrúnaði hélt velli á Haítí er að landsmenn þar eru að mestu leyti af afrískum ættum.

Þess skal getið að víðar á þessum slóðum er mikið um átrúnað sem svipar meira eða minna til vúdú og er einnig afrískur í uppruna. Þetta á einnig við annars staðar í Vestur-Indíum og í Brasilíu, þar sem íbúar eru að miklu eða talsverðu leyti af afrískum uppruna, og jafnvel víðar. Þekktust af þessum trúarbrögðum eru líklega "Santería" á Kúbu sem hafa eflst verulega í stjórnartíð Castros, kannski sumpart vegna þess að stjórnvöld hafa skeytt minna um þau en kaþólsku kirkjuna þar. Santería hefur og mikið fylgi í Bandaríkjunum en þangað hafa þau borist með Kúbverjum sem hafa flúið Castro.

Prestar, bæði karlar og konur, þjóna í vúdú en skipulag þeirrar prestastéttar er lauslegt. Andar og goð sem dýrkuð eru í vúdú munu flest vera afrísk að uppruna og bera það með sér, en sum þeirra hafa verið samsömuð kaþólskum dýrlingum og þá fengið nöfn þeirra. "Dambala" heitir einn af guðum Fon-þjóðarinnar sem tengdur er slöngum og birtist stundum í slöngulíki. Hann er tilbeðinn í vúdú, stundum undir þessu heiti en stundum er látið svo heita að hann og heilagur Patrekur séu einn og sami guðinn. "Ogun", járnsmíðaguð í trúarbrögðum Jorúba í Nígeríu og stríðsguð í vúdú, hefur í síðarnefndu trúarbrögðunum runnið saman við heilagan Jakob, einn af postulunum tólf, bróður Jóhannesar guðspjallamanns.

Það er ekki sjálfgefið, hvað skuli telja til "hluta" sem notaðir eru við trúarathafnir, en í vúdú er trumban líklega mikilvægust. Algengt er við vúdúathafnir að trumbur séu barðar ákaflega og sungið og dansað eftir trumbuslættinum. Þannig "hitar söfnuðurinn sig upp" eins og vúdúsinnar orða það sjálfir, en það er nauðsynlegt til þess að andi eða guð, sem ákallaður er, geti tekið sér bólfestu um stundarsakir í einhverjum sem tekur þátt í athöfninni.

Hver og einn andi er ákallaður með rytma og dönsum sem hann einn gegnir, og fórnir eru einnig mismunandi eftir smekk andanna. Þegar andinn er kominn í einhvern viðstaddan heitir svo að sá sé "chwal" (hestur) andans. Þar með er söfnuðurinn kominn í beint samband við heim anda og goða. Andinn notar líkama og rödd mannsins, sem er setinn af honum, syngur, dansar og borðar með söfnuðinum, gefur fólki ráð og ávítar það.

Krossar gegna hlutverki við helgiathafnir, einkum við dýrkun á öndum framliðinna, sem er mikill þáttur í vúdú eins og í afrískum trúarbrögðum. Við krossa, sem reistir eru við hlið kirkjugarða eða í garðinum miðjum, er hinum látnu fórnað kertum og mat. Ýmiskonar hlutir eru dýrkaðir í þeirri trú að þeir séu þrungnir krafti frá verndaröndum einstaklinga. Alþjóðaorðið fyrir þesskonar hluti er "fetish" sem hefur verið kallað "blæti" á íslensku.

Talsvert er um dýrafórnir í vúdú. Er þá slátrað dýrum, einna helst hænsnum, geitum og kúm, handa verum annars heims til neyslu. Að sumra sögn var framan af siður í vúdú að fórna meybörnum við helgiathafnir, en nú sé í staðinn fórnað hvítum kiðlingum. Mikið er um galdra í vúdú, meðal annars kváðu vera að því einhver brögð að látnir séu vaktir upp til þess að veita lifendum þjónustu ("zombies").

Mynd:

Höfundur

stundakennari í trúarbragðafræði við HÍ

Útgáfudagur

20.4.2000

Spyrjandi

Bríet Guðmundsdóttir, f. 1989

Tilvísun

Dagur Þorleifsson. „Hverjir ástunda vúdú og hvaða hlutir eru notaðir við trúarathafnir?“ Vísindavefurinn, 20. apríl 2000. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=356.

Dagur Þorleifsson. (2000, 20. apríl). Hverjir ástunda vúdú og hvaða hlutir eru notaðir við trúarathafnir? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=356

Dagur Þorleifsson. „Hverjir ástunda vúdú og hvaða hlutir eru notaðir við trúarathafnir?“ Vísindavefurinn. 20. apr. 2000. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=356>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hverjir ástunda vúdú og hvaða hlutir eru notaðir við trúarathafnir?
Vúdú (voodoo, vodou, voudou) er algengasta heitið á trúarbrögðum sem mikill meirihluti íbúa á Haítí aðhyllist að einhverju marki. Hlutfallið er 80-90% samkvæmt sumum heimildum. Haítímenn sem hafa sest að í Norður-Ameríku og afkomendur þeirra ástunda einnig vúdú. Sumir fræðimenn meta það svo að vúdú hafi hnignað á Haítí á síðustu áratugum. Sem ástæður nefna menn vaxandi útbreiðslu hvítasunnuhreyfingarinnar þar í landi, minnkandi vægi stórfjölskyldunnar og áhrif erlendis frá, ekki síst með ferðamönnum. Vúdú heldur ef til vill betur velli meðal Haítímanna utan heimalandsins, sennilega vegna þess að þeir eru þar fámennir og áhrifalitlir minnihlutar og því verður átrúnaðurinn frá ættlandinu þeim hughreystandi uppistaða í sjálfsmynd.

Fræðimenn hafa ekki allir sömu afstöðu til vúdú, einn þeirra kallar það til dæmis "djöfladýrkun" (devil-worship) en aðrir fara um túrarbrögð þessi öllu vinsamlegri orðum. Þetta mismunandi mat stafar ef til vill af því að þessi trú, ásamt meðfylgjandi trúariðkun, getur verið mjög mismunandi frá einum söfnuði til annars. Verulegur munur er til dæmis á vúdúiðkun í borg og í sveit.


Vúdú-athöfn á Haítí.

Drýgsti þátturinn í vúdú er frá trúarbrögðum Vestur-Afríku á svæðinu frá núverandi Ghana í vestri til landsvæðanna kringum neðsta hluta Kongófljóts í suðri. Heitið er talið vera dregið af "vodu" sem þýðir "andi" eða "goð" á máli Fon-þjóðarinar sem býr þar sem nú er ríkið Benin. Einhverjir fræðimenn telja heitið þó komið frá annarri vestur-afrískri þjóð, Ewe, sem býr í Tógó og Ghana.

Hinn afríski átrúnaður sem varð uppistaðan í vúdú barst til Haítí með afrískum þrælum sem þangað voru fluttir, og blandaðist þar kaþólsku sem hefur verið opinber trúarbrögð þar í landi síðustu 500 árin eða svo. Mun vúdú hafa mótast nokkurn veginn á 18. öld. Samkvæmt sumum heimildum er svo að sjá sem vúdú hafi borist til baka til "upphafs" síns, að minnsta kosti hefur frést af því í ríkinu Benin.

Lengi vel var það einkum lágstéttarfólk á Haítí sem aðhylltist þennan átrúnað, en efri stéttir fyrirlitu hann. Á því varð breyting á fjórða áratug 20. aldar er menntamenn tóku að hylla vúdú sem þjóðartrú Haítímanna. Francois Duvalier, illræmdur einræðisherra sem ríkti á Haítí 1957-1971, studdi vúdú, bæði til mótvægis við kaþólsku kirkjuna sem hann hafði illan bifur á og sökum þess að hann taldi stuðning við vúdú líklegan til alþýðuvinsælda. Aðalástæða þess hve mikið af afrískum átrúnaði hélt velli á Haítí er að landsmenn þar eru að mestu leyti af afrískum ættum.

Þess skal getið að víðar á þessum slóðum er mikið um átrúnað sem svipar meira eða minna til vúdú og er einnig afrískur í uppruna. Þetta á einnig við annars staðar í Vestur-Indíum og í Brasilíu, þar sem íbúar eru að miklu eða talsverðu leyti af afrískum uppruna, og jafnvel víðar. Þekktust af þessum trúarbrögðum eru líklega "Santería" á Kúbu sem hafa eflst verulega í stjórnartíð Castros, kannski sumpart vegna þess að stjórnvöld hafa skeytt minna um þau en kaþólsku kirkjuna þar. Santería hefur og mikið fylgi í Bandaríkjunum en þangað hafa þau borist með Kúbverjum sem hafa flúið Castro.

Prestar, bæði karlar og konur, þjóna í vúdú en skipulag þeirrar prestastéttar er lauslegt. Andar og goð sem dýrkuð eru í vúdú munu flest vera afrísk að uppruna og bera það með sér, en sum þeirra hafa verið samsömuð kaþólskum dýrlingum og þá fengið nöfn þeirra. "Dambala" heitir einn af guðum Fon-þjóðarinnar sem tengdur er slöngum og birtist stundum í slöngulíki. Hann er tilbeðinn í vúdú, stundum undir þessu heiti en stundum er látið svo heita að hann og heilagur Patrekur séu einn og sami guðinn. "Ogun", járnsmíðaguð í trúarbrögðum Jorúba í Nígeríu og stríðsguð í vúdú, hefur í síðarnefndu trúarbrögðunum runnið saman við heilagan Jakob, einn af postulunum tólf, bróður Jóhannesar guðspjallamanns.

Það er ekki sjálfgefið, hvað skuli telja til "hluta" sem notaðir eru við trúarathafnir, en í vúdú er trumban líklega mikilvægust. Algengt er við vúdúathafnir að trumbur séu barðar ákaflega og sungið og dansað eftir trumbuslættinum. Þannig "hitar söfnuðurinn sig upp" eins og vúdúsinnar orða það sjálfir, en það er nauðsynlegt til þess að andi eða guð, sem ákallaður er, geti tekið sér bólfestu um stundarsakir í einhverjum sem tekur þátt í athöfninni.

Hver og einn andi er ákallaður með rytma og dönsum sem hann einn gegnir, og fórnir eru einnig mismunandi eftir smekk andanna. Þegar andinn er kominn í einhvern viðstaddan heitir svo að sá sé "chwal" (hestur) andans. Þar með er söfnuðurinn kominn í beint samband við heim anda og goða. Andinn notar líkama og rödd mannsins, sem er setinn af honum, syngur, dansar og borðar með söfnuðinum, gefur fólki ráð og ávítar það.

Krossar gegna hlutverki við helgiathafnir, einkum við dýrkun á öndum framliðinna, sem er mikill þáttur í vúdú eins og í afrískum trúarbrögðum. Við krossa, sem reistir eru við hlið kirkjugarða eða í garðinum miðjum, er hinum látnu fórnað kertum og mat. Ýmiskonar hlutir eru dýrkaðir í þeirri trú að þeir séu þrungnir krafti frá verndaröndum einstaklinga. Alþjóðaorðið fyrir þesskonar hluti er "fetish" sem hefur verið kallað "blæti" á íslensku.

Talsvert er um dýrafórnir í vúdú. Er þá slátrað dýrum, einna helst hænsnum, geitum og kúm, handa verum annars heims til neyslu. Að sumra sögn var framan af siður í vúdú að fórna meybörnum við helgiathafnir, en nú sé í staðinn fórnað hvítum kiðlingum. Mikið er um galdra í vúdú, meðal annars kváðu vera að því einhver brögð að látnir séu vaktir upp til þess að veita lifendum þjónustu ("zombies").

Mynd:...