Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Rannsóknir á líffræði svefns eru enn á nokkurs konar bernskuskeiði. Þó vita visindamenn sitthvað um hvað gerist í líkama dýra í svefnástandi. Í þúsundir ára töldu menn sig vita svarið um leyndardóm svefnsins. Hann væri einfaldlega hvíld. Sumir lífeðlisfræðingar telja ennþá að það sé hið rétta svar en flestir efast um að málið sé svo einfalt.
Í svefni hægist á allri virkni líkamans, líkamshitinn fellur um nokkur brot úr gráðu, hraði efnaskipta minnkar og virkni taugakerfisins breytist, til dæmis bregst heilinn ekki við vægum skynhrifum eins og lágum hljóðum og snertingu sem hann myndi gera í vökuástandi.
Rannsóknir á lífeðlisfræðilegum þáttum í sambandi við svefninn benda til þess að hann sé á einhvern hátt hreinsandi, meðan á honum stendur losum við okkur við margs konar úrgangsefni sem myndast við efnaskipti líkamans í vökuástandi (svo sem mjólkursýru). Ennfremur hefur komið í ljós að magn vaxtarhormónsins sómatótrópíns stóreykst í blóði okkar í svefni en það stjórnar viðgerðum á vefjum okkar. Svefninn kemur einnig á ákveðnu jafnvægi í efnabúskap líkamans. Mun fleiri lífeðlisfræðilegir þættir hafa verið nefndir, sérstaklega áhrif á miðtaugakerfið.
Við þekkjum það öll, þegar við höfum ekki fengið nægan svefn, að upplifa pirring, ýmsar skynvillur og jafnvel að tapa áttum við ofsaþreytu. Þetta eru ekkert annað en lífeðlisfræðilegar breytingar í líkama okkar þegar svefninn kallar á okkur. Staðfest hefur verið í rannsóknum að líklega sofa öll spendýr og fuglar. Mælingar á heilastarfsemi annarra dýra benda til þess að þau gangi einnig í gegnum einhvers konar svefnástand. Rannsóknir á skriðdýrum sýna líkar breytingar á heilastarfsemi og fylgja þeim einnig breytingar á atferli. Eins hafa komið fram sterkar vísbendingar um svefn hjá liðfætlum (Arthropoda) og lindýrum (Mollusca).
Þess vegna má halda því fram, út frá dreifingarmynstri svefns í dýraríkinu, að þetta líffræðilega fyrirbæri hafi komið snemma fram í þróunarsögu dýra og gegni lykilhlutverki í lífeðlisfræðilegu heilbrigði þeirra, sérstaklega af rannsóknum á spendýrum að dæma.
Óhætt er að fullyrða að mörghundruð milljón ára þróun lífs hafi ekki leitt af sér „æðra“ dýr sem ekki þarf á svefni að halda. Hinsvegar eru vísindamenn að átta sig æ betur á hversu lífsnauðsynlegur svefn er öllum dýrum.
Á Vísindavefnum er að finna fjölmörg svör um svefn bæði dýra og manna. Hægt er að nálgast þau með því að smella á efnisorð neðst á síðunni.
Jón Már Halldórsson. „Hvers vegna, eftir milljóna ára þróun, þurfa flestar lífverur að sofa?“ Vísindavefurinn, 8. júlí 2003, sótt 12. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3565.
Jón Már Halldórsson. (2003, 8. júlí). Hvers vegna, eftir milljóna ára þróun, þurfa flestar lífverur að sofa? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3565
Jón Már Halldórsson. „Hvers vegna, eftir milljóna ára þróun, þurfa flestar lífverur að sofa?“ Vísindavefurinn. 8. júl. 2003. Vefsíða. 12. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3565>.