Sólin Sólin Rís 09:41 • sest 16:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:23 • Sest 25:51 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:47 • Síðdegis: 13:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:55 • Síðdegis: 19:57 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:41 • sest 16:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:23 • Sest 25:51 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:47 • Síðdegis: 13:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:55 • Síðdegis: 19:57 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getið þið sagt mér um Staðardagskrá 21?

Arnheiður Hjörleifsdóttir og Stefán Gíslason

Staðardagskrá 21 (e. Local Agenda 21) er áætlun sem öllum sveitarstjórnum heimsins er ætlað að gera í samræmi við ályktun Heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun, í Rio de Janeiro 1992. Sem alþjóðleg ályktun er hún ekki þjóðréttarlega bindandi, eins og ef um staðfestan alþjóðlegan sáttmála væri að ræða. Hún felur því ekki í sér lagalegar kvaðir, heldur ber sveitarstjórnum, jafnt sem öðrum aðilum sem ályktunin tekur til, pólitísk og siðferðileg skylda til að fylgja henni eftir.

Um er að ræða áætlun um þau verk sem vinna þarf í hverju samfélagi um sig til að nálgast markmiðið um sjálfbæra þróun (e. sustainable development) á 21. öldinni, það er að segja þróun sem tryggir komandi kynslóðum viðunandi lífsskilyrði. Þannig er Staðardagskrá 21 heildaráætlun um þróun hvers samfélags um sig fram á 21. öldina. Áætlunin snýst ekki eingöngu um umhverfismál í venjulegum skilningi, heldur er henni ætlað að taka jafnframt tillit til efnahagslegra og félagslegra þátta.

Staðardagskrá 21 á ekki að vera einangrað fyrirbæri heldur er henni ætlað að vera áætlun alls samfélagsins. Því eiga sveitarstjórnir að vinna verkið í samráði við íbúana á hverjum stað og með þátttöku atvinnulífs og félagasamtaka.

Þá ber einnig að hafa í huga að vinnu við gerð Staðardagskrár 21 lýkur aldrei, þó að stórum áfanga sé náð þegar fyrsta útgáfa hennar hefur verið lögð fram og samþykkt í sveitarstjórn. Með samþykkt sveitarstjórnar er Staðardagskráin orðin að formlegu stefnumótunarplaggi og þar með er kominn tími til að hrinda henni í framkvæmd. Auk heldur þarf Staðardagskráin að vera í stöðugri endurskoðun í takt við breytta tíma og nýjar áherslur. Staðardagskrá 21 er með öðrum orðum ekki bara skjal og ekki bara umhverfisáætlun, heldur fyrst og fremst ferli.

Hagur sveitarstjórna og íbúa með þátttöku í Staðardagskrárverkefninu hefur ýmis birtingarform. Má til dæmis nefna að um langtímaáætlun er að ræða sem nær til allra þátta í rekstri sveitarfélagsins. Kjarninn í því starfi er að skilgreina framtíðarsýn hvers samfélags um sig. Þess vegna er Staðardagskráin öflugt stjórntæki sem til langs tíma leiðir til sparnaðar og bættrar nýtingar fjárfestinga ef rétt er á málum haldið.




Upphaf Staðardagskrárstarfsins hér á landi má rekja til ársins 1996 þegar Egilsstaðabær tók þátt í norrænu verkefni, sem hafði það að markmiði að búa til fyrirmynd að „umhverfisáætlun“ fyrir fámenn sveitarfélög. Í lok þessa verkefnis efndu Norræna ráðherranefndin, Umhverfisráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga til umhverfisráðstefnu á Egilsstöðum 9.-10. júní 1997. Þar kom fram sterkur vilji hjá sveitarfélögum til að hefjast handa við að uppfylla ákvæði Ríósamþykktarinnar, og var því beint til Umhverfisráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga að bjóða fram aðstoð til að auðvelda sveitarfélögunum þetta starf. Í mars 1998 gengu sambandið og ráðuneytið síðan frá samningi um sameiginlegt átak til að aðstoða íslensk sveitarfélög við að koma sér upp Staðardagskrá 21. Verkefnið hófst formlega í byrjun október sama ár með ráðningu Stefáns Gíslasonar, umhverfisstjórnunarfræðings, sem verkefnisstjóra. Þá hafði 31 sveitarfélag sótt um þátttöku í verkefninu.

Í dag hafa rúmlega 50 íslensk sveitarfélög hafist handa við gerð Staðardagskrár, og í þessum sveitarfélögum búa rúmlega 90% þjóðarinnar. Þar af hafa 16 sveitarfélög, með um 200.000 íbúa, samþykkt fyrstu útgáfu Staðardagskrár 21 fyrir sitt sveitarfélag og 32 hafa samþykkt svokallaða Ólafsvíkuryfirlýsingu. Með samþykkt hennar skuldbinda sveitarfélög sig til að leggja sitt af mörkum til sjálfbærrar þróunar, meðal annars með því að virkja íbúa, félagasamtök og aðila atvinnulífsins til öflugrar þátttöku í verkefnum sem tengjast Staðardagskrá 21 og með því að hafa markmiðið um sjálfbæra þróun að leiðarljósi við gerð skipulagsáætlana, sem og við aðra ákvarðanatöku um málefni sveitarfélagsins.

Fagleg aðstoð verður áfram veitt sveitarfélögum á Íslandi við gerð og eftirfylgni Staðardagskrár, að minnsta kosti til ársloka 2005.

Að lokum má benda á að velferð komandi kynslóða verður aldrei tryggð nema með sameiginlegu átaki allra. Vissulega gegna stjórnvöld þar mikilvægu hlutverki, bæði landsstjórnir og sveitarstjórnir, en aðrir hópar bera líka ábyrgð í þessu sambandi, þar á meðal almenningur og frjáls félagasamtök, einstök fyrirtæki, einstakar atvinnugreinar og samtök atvinnulífsins, jafnt innanlands sem á fjölþjóðlegum vettvangi. Frumkvæði margra og nýting þeirrar þekkingar sem fyrir er, eru forsendur framfara og þar með forsendur velferðar. Allir hópar samfélagsins geta stuðlað að sjálfbærri þróun. Framtíð þeirra veltur á að vel takist til.



Hlekkir:


Á Vísindavefnum:

Höfundar

umhverfisfræðingur og starfsmaður Staðardagskrár 21 á Íslandi

Stefán Gíslason

umhverfisstjórnunarfræðingur MSc

Útgáfudagur

14.7.2003

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Arnheiður Hjörleifsdóttir og Stefán Gíslason. „Hvað getið þið sagt mér um Staðardagskrá 21?“ Vísindavefurinn, 14. júlí 2003, sótt 10. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3580.

Arnheiður Hjörleifsdóttir og Stefán Gíslason. (2003, 14. júlí). Hvað getið þið sagt mér um Staðardagskrá 21? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3580

Arnheiður Hjörleifsdóttir og Stefán Gíslason. „Hvað getið þið sagt mér um Staðardagskrá 21?“ Vísindavefurinn. 14. júl. 2003. Vefsíða. 10. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3580>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um Staðardagskrá 21?
Staðardagskrá 21 (e. Local Agenda 21) er áætlun sem öllum sveitarstjórnum heimsins er ætlað að gera í samræmi við ályktun Heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun, í Rio de Janeiro 1992. Sem alþjóðleg ályktun er hún ekki þjóðréttarlega bindandi, eins og ef um staðfestan alþjóðlegan sáttmála væri að ræða. Hún felur því ekki í sér lagalegar kvaðir, heldur ber sveitarstjórnum, jafnt sem öðrum aðilum sem ályktunin tekur til, pólitísk og siðferðileg skylda til að fylgja henni eftir.

Um er að ræða áætlun um þau verk sem vinna þarf í hverju samfélagi um sig til að nálgast markmiðið um sjálfbæra þróun (e. sustainable development) á 21. öldinni, það er að segja þróun sem tryggir komandi kynslóðum viðunandi lífsskilyrði. Þannig er Staðardagskrá 21 heildaráætlun um þróun hvers samfélags um sig fram á 21. öldina. Áætlunin snýst ekki eingöngu um umhverfismál í venjulegum skilningi, heldur er henni ætlað að taka jafnframt tillit til efnahagslegra og félagslegra þátta.

Staðardagskrá 21 á ekki að vera einangrað fyrirbæri heldur er henni ætlað að vera áætlun alls samfélagsins. Því eiga sveitarstjórnir að vinna verkið í samráði við íbúana á hverjum stað og með þátttöku atvinnulífs og félagasamtaka.

Þá ber einnig að hafa í huga að vinnu við gerð Staðardagskrár 21 lýkur aldrei, þó að stórum áfanga sé náð þegar fyrsta útgáfa hennar hefur verið lögð fram og samþykkt í sveitarstjórn. Með samþykkt sveitarstjórnar er Staðardagskráin orðin að formlegu stefnumótunarplaggi og þar með er kominn tími til að hrinda henni í framkvæmd. Auk heldur þarf Staðardagskráin að vera í stöðugri endurskoðun í takt við breytta tíma og nýjar áherslur. Staðardagskrá 21 er með öðrum orðum ekki bara skjal og ekki bara umhverfisáætlun, heldur fyrst og fremst ferli.

Hagur sveitarstjórna og íbúa með þátttöku í Staðardagskrárverkefninu hefur ýmis birtingarform. Má til dæmis nefna að um langtímaáætlun er að ræða sem nær til allra þátta í rekstri sveitarfélagsins. Kjarninn í því starfi er að skilgreina framtíðarsýn hvers samfélags um sig. Þess vegna er Staðardagskráin öflugt stjórntæki sem til langs tíma leiðir til sparnaðar og bættrar nýtingar fjárfestinga ef rétt er á málum haldið.




Upphaf Staðardagskrárstarfsins hér á landi má rekja til ársins 1996 þegar Egilsstaðabær tók þátt í norrænu verkefni, sem hafði það að markmiði að búa til fyrirmynd að „umhverfisáætlun“ fyrir fámenn sveitarfélög. Í lok þessa verkefnis efndu Norræna ráðherranefndin, Umhverfisráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga til umhverfisráðstefnu á Egilsstöðum 9.-10. júní 1997. Þar kom fram sterkur vilji hjá sveitarfélögum til að hefjast handa við að uppfylla ákvæði Ríósamþykktarinnar, og var því beint til Umhverfisráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga að bjóða fram aðstoð til að auðvelda sveitarfélögunum þetta starf. Í mars 1998 gengu sambandið og ráðuneytið síðan frá samningi um sameiginlegt átak til að aðstoða íslensk sveitarfélög við að koma sér upp Staðardagskrá 21. Verkefnið hófst formlega í byrjun október sama ár með ráðningu Stefáns Gíslasonar, umhverfisstjórnunarfræðings, sem verkefnisstjóra. Þá hafði 31 sveitarfélag sótt um þátttöku í verkefninu.

Í dag hafa rúmlega 50 íslensk sveitarfélög hafist handa við gerð Staðardagskrár, og í þessum sveitarfélögum búa rúmlega 90% þjóðarinnar. Þar af hafa 16 sveitarfélög, með um 200.000 íbúa, samþykkt fyrstu útgáfu Staðardagskrár 21 fyrir sitt sveitarfélag og 32 hafa samþykkt svokallaða Ólafsvíkuryfirlýsingu. Með samþykkt hennar skuldbinda sveitarfélög sig til að leggja sitt af mörkum til sjálfbærrar þróunar, meðal annars með því að virkja íbúa, félagasamtök og aðila atvinnulífsins til öflugrar þátttöku í verkefnum sem tengjast Staðardagskrá 21 og með því að hafa markmiðið um sjálfbæra þróun að leiðarljósi við gerð skipulagsáætlana, sem og við aðra ákvarðanatöku um málefni sveitarfélagsins.

Fagleg aðstoð verður áfram veitt sveitarfélögum á Íslandi við gerð og eftirfylgni Staðardagskrár, að minnsta kosti til ársloka 2005.

Að lokum má benda á að velferð komandi kynslóða verður aldrei tryggð nema með sameiginlegu átaki allra. Vissulega gegna stjórnvöld þar mikilvægu hlutverki, bæði landsstjórnir og sveitarstjórnir, en aðrir hópar bera líka ábyrgð í þessu sambandi, þar á meðal almenningur og frjáls félagasamtök, einstök fyrirtæki, einstakar atvinnugreinar og samtök atvinnulífsins, jafnt innanlands sem á fjölþjóðlegum vettvangi. Frumkvæði margra og nýting þeirrar þekkingar sem fyrir er, eru forsendur framfara og þar með forsendur velferðar. Allir hópar samfélagsins geta stuðlað að sjálfbærri þróun. Framtíð þeirra veltur á að vel takist til.



Hlekkir:


Á Vísindavefnum:...