Á útmánuðum ársins 2000 sögðu vísindamenn frá West Chester University í Pennsylvaníufylki frá því að þeir hefðu fundið bakteríu í fornum saltlögum í Nýju-Mexíkó, á stað þar sem fyrir löngu hafi verið sjór. Bakterían hafði myndað gró, sem eru einhvers konar dvalastig þessara örvera og geta verndað þær fyrir ótrúlega erfiðum lífsskilyrðum. Aldursgreiningar vísindamannanna bentu til þess að baktería þessi væri um 250 milljón ára gömul! Það slær fyrra met annarrar bakteríutegundar sem hljóðaði „aðeins“ upp á 40 milljón ára aldur. Vísindamönnum hefur nokkrum sinnum tekist að vekja bakteríugró úr dvala sem þeir fundu inni í fornum skordýrum. Skordýrin höfðu drepist fyrir um 25 milljón árum síðan þegar trjákvoða, raf (e. amber), flæddi yfir þau og kæfði.
Rannsókn á erfðamengi hinnar háöldruðu bakteríu bendir til að hún tilheyri algengum hópi jarðvegsbaktería af ættkvíslinni Bacillus. Sumir vísindamenn hafa dregið niðurstöður kollega sinna frá Pennsylvaníu í efa og halda því fram að um þekkta tegund sé að ræða og möguleiki sé að hún hafi einfaldlega smitað sýnið. En því hafa vísindamennirnir sem gerðu þessa uppgötvun mótmælt harðlega, ýtrasta hreinlætis hafi verið gætt. Ef vísindamennirnir frá Pennsylvaníu hafa rétt fyrir sér, er hér um ákaflega merkilega uppgötvun að ræða sem gæti stutt þá kenningu að líf hafi borist til jarðarinnar utan úr geimnum. Bakteríur sem geta myndað utan um sig svona endingarmikil dvalagró, gætu mögulega lifað af löng ferðalög um geiminn. Eitt slíkt dvalagró hefur kannski lent á jörðinni fyrir fáeinum milljörðum ára, þar sem aðstæður voru hentugar til lífs, bakterían vaknað af dvalanum og tekið að fjölga sér. Hver veit?
Á vef CNN-sjónvarpsstöðvarinnar er að finna frétt af fundi bakteríunnar öldruðu. Þaðan er myndin einnig fengin. Varðandi lokavangaveltur höfundar er rétt að benda á svar Guðmundar Eggertssonar á Vísindavefnum við spurningunni Hvernig varð fyrsta genið til? Hefði það getað komið utan úr geimnum?