Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ekki spinna allar köngulær (Araneae) vefi, föruköngulær eltast til dæmis við bráð sína. En þegar fylgst er með vefkönguló sést vel hversu auðveldlega hún ferðast um vef sinn án þess að festast í honum, ólíkt flugunum sem hún veiðir í hann. Því er von að mörgum leiki forvitni á að vita hvers vegna hún festist ekki í gildrunni sem hún hefur sjálf lagt flugum til höfuðs.
Ástæðuna er meðal annars að leita í byggingu vefsins. Ákveðnir hlutar vefsins eru gerðir úr límkenndu silki en aðrir úr ólímkenndu. Fyrstu þræðirnir (svokallaðir stoðþræðir) sem köngulóin spinnur eru úr ólímkenndum þráðum en aðrir vefir eru límkenndir. Þegar köngulóin hreyfir sig um vefinn, oftast til að ná í fórnarlamb fast í honum, ferðast hún um stoðþræðina, en þar fyrir utan heldur hún til á ákveðnum stöðum, oft í miðjum vefnum, sem gerðir eru úr ólímkenndum silkiþráðum. Þar bíður köngulóin í rólegheitum eftir því að bráð festist í vefnum en einnig eyðir hún miklum tíma í að þrífa á sér fæturna og klærnar. Er hún þá að losa sig við ýmsar agnir, svo sem silkiagnir fastar við fæturna. Einnig seytir hún efni úr munnvatnskirtlum sínum sem vinnur gegn áhrifum límþráðanna og verður henni þá ekki eins hætt við að festast í eigin gildru.
Líkamleg snerting köngulóa við eigin vefi er ákaflega lítil, en þrátt fyrir það geta þær gert mistök og fest sig í þeim. Það getur orðið þeim að fjörtjóni, sérstaklega ef þær flækjast illa, en oftast losa þær sig með ofangreindu efnasambandi úr munnvatnskirtlunum.
Heimildir og mynd:
Foelix, Rainer F. 1996. Biology of Spiders. 2. útg. Oxford University Press. New York
Jón Már Halldórsson. „Af hverju festast köngulær ekki í sínum eigin vef?“ Vísindavefurinn, 22. júlí 2003, sótt 9. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3599.
Jón Már Halldórsson. (2003, 22. júlí). Af hverju festast köngulær ekki í sínum eigin vef? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3599
Jón Már Halldórsson. „Af hverju festast köngulær ekki í sínum eigin vef?“ Vísindavefurinn. 22. júl. 2003. Vefsíða. 9. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3599>.