Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:29 • Síðdegis: 18:52 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:31 • Síðdegis: 12:34 í Reykjavík

Hver er saga myndbandavæðingarinnar og hverju breytti hún?

Guðbjörg Hildur Kolbeins

Ampex-fyrirtækið setti fyrsta myndbandstækið á markað árið 1956 og byggði á þegar rúmlega hálfrar aldar gamalli uppfinningu danska vísindamannsins Valdemars Poulsens (1869-1942). Í upphafi voru myndbandstæki eingöngu notuð af sjónvarpsstöðvum og í kvikmyndaiðnaðinum en fyrir daga þeirra voru allir sjónvarpsþættir sendir út í beinni útsendingu. Vegna þess tímamunar sem er á milli austur- og vesturstrandar Bandaríkjanna þótti kostur að geta tekið efni upp á austurströndinni og sent það út seinna á vesturströndinni. Þann 30. nóvember 1956 var þátturinn Douglas Edward and the News sýndur á sjónvarpsstöðinni CBS á vesturströnd Bandaríkjanna þremur tímum eftir að hann hafði verið tekinn upp á austurströndinni. Var það í fyrsta skipti sem þáttur var sendur út á myndbandi.Fyrsta myndbandstækið sem Ampex sýndi í apríl 1956

Fyrsta myndbandstækið sem ætlað var til heimilisnota, var þróað af raftækjaframleiðandanum Philips og kom fram á sjónarsviðið í Englandi árið 1972. Fljótlega upp úr því fóru sjúkrahús og skólar að nota myndbandstæki og myndbandsupptökuvélar til að skoða atferli sjúklinga og nemenda. Nokkrum árum síðar, eða 1977, fór fyrsta VHS-tækið (Video Home System) frá JVC í sölu og sama ár setti RCA-fyrirtækið VHS-tæki á bandarískan markað. Tveimur árum fyrr hafði Sony þróað Betamax-kerfið. Með tilkomu VHS-tækninnar voru komnar tvær tegundir myndbandstækja til sögunnar og sú þriðja átti eftir að bætast við. Þó að margir séu þeirrar skoðunar að Beta-tækin hafi verið betri en VHS-tækin, er talið að það hafi gert gæfumuninn í vinsældum VHS-tækjanna að á VHS-myndböndin var hægt að taka upp átta tíma af efni en aðeins var hægt að taka upp fimm og hálfan tíma af efni á Beta-myndböndin. Philips, Grundig og B&O framleiddu síðar V2000-tæki en þau náðu aldrei verulegri fótfestu vegna þess hversu seint þau komu á markað. Myndböndum fyrir V2000-tækin var hægt að snúa við eins og hljóðsnældum.

Í fyrstu voru myndbandstæki mjög dýr og héldu sumir að þau yrðu aldrei annað en lúxusvara sem aðeins fáir hefðu efni á. Reyndin varð hins vegar önnur því árið 1982 skall á verðstríð framleiðenda Beta- og VHS-tækjanna. Á tímabili seldu Japanir myndbandstæki í Evrópu undir kostnaðarverði en í byrjun árs 1983 fóru evrópsku fyrirtækin Philips og Grundig í mál við japönsku framleiðendurna. Málaferlunum lyktaði með því að settur var kvóti á þann fjölda myndbandstækja sem Japanir máttu selja í Evrópu á næstu þremur árum.

Segja má að myndbandatæknin hafi notið talsverðra vinsælda síðustu tvo áratugina en nú hyllir undir endalok hennar þar sem DVD-tæknin (Digital Versatile Disc eða Digital Video Disc) er að ryðja gömlu myndbandstækjunum úr vegi. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands voru myndbandstæki á 91,4% íslenskra heimila árið 2002 en þess má geta að Íslendingar eru í fyrsta sæti í myndbandstækjaeign af Norðurlandaþjóðunum. Athyglisvert er að nokkur aukning varð í myndbandstækjaeign um síðustu aldamót, um sama leyti og DVD-tækin voru að ryðja sér til rúms. Má ætla að stórlækkað verð á myndbandstækjum hafi haft þar nokkur áhrif á. Einnig eru DVD-upptökutæki tiltölulega dýr og því eru myndbandstækin enn góður kostur ef taka á upp efni úr sjónvarpi.

Fullyrða má að Íslendingar hafi tekið fagnandi á móti myndbandatækninni. Hafa verður í huga að þegar myndbandstæki náðu útbreiðslu hér á landi, um miðjan níunda áratug síðustu aldar, bjuggu landsmenn enn við einokun Ríkisútvarpsins og því jókst úrvalið af afþreyingarefni gífurlega með tilkomu myndbandaleiganna, sem spruttu upp eins og gorkúlur út um allan bæ. Á myndbandaleigunum var meðal annars hægt að taka á leigu heilu sjónvarpsþáttaraðirnar, sem hvorki fyrr né síðar hafa verið sýndar í íslensku sjónvarpi.

Myndbandstækin höfðu veruleg áhrif á aðsókn fólks að kvikmyndahúsum. Árið 1980 fór hver Íslendingur að meðaltali 11 sinnum í bíó á ári en árið 2001 fór hver landsmaður að meðaltali rúmlega fimm sinnum í bíó og hafði sú tala lítið breyst í heilan áratug. Myndbandstækin gerðu fólki kleift að horfa á kvikmyndir heima í stofu í stað þess að fara í kvikmyndahús. Oft og tíðum var hægt að fá kvikmyndir á myndbandaleigunum sem enn var ekki farið að sýna í kvikmyndahúsum og enn er það svo að í hillum myndbandaleiganna eru kvikmyndir sem aldrei hafa verið sýndar í kvikmyndasölum hér á landi. Kvikmyndahúsin hafa reynt að sporna við samkeppni frá myndbandaleigunum með því að hefja sýningar á kvikmyndum tiltölulega skömmu eftir að þær eru frumsýndar erlendis og jafnvel að heimsfrumsýna þær hér á landi. Eftir sem áður er mun dýrara fyrir fjölskyldur að fara í bíó heldur en að taka myndbönd á leigu.

Myndbandavæðingin hafði mikil áhrif á sjónvarpsáhorf fólks. Í fyrsta lagi gat fólk nú tekið upp efni úr sjónvarpi sem annað hvort var sýnt þegar það var ekki heima við, eða á tíma sem var óhentugur til sjónvarpsáhorfs. Í öðru lagi þurftu áhorfendur ekki lengur að gera upp á milli uppáhaldsþáttanna sinna ef svo illa vildi til að þeir væru sýndir á sama tíma hvor á sinni rásinni - nú var hægt að taka upp efni á einni rás meðan horft var á aðra rás. Í þriðja lagi var hægt að taka á leigu kvikmyndir og annað efni sem ekki var sýnt í sjónvarpi, og í fjórða lagi gátu áhorfendur nú sleppt öllum auglýsingum með því að hraðspóla yfir þær. Í stuttu máli má segja að myndbandatæknin hafi veitt fólki frelsi til að horfa á það sem það vildi þegar því hentaði.

Notkun fólks á myndbandstækjum hefur lítið verið rannsökuð á síðustu árum en niðurstöður nýlegrar belgískrar rannsókar benda til að myndbandstæki hafi gert þeim áhorfendum sem horfa mikið á sjónvarp, kleift að horfa enn meira á það og jafnframt á fjölbreyttara efni. Niðurstöður eldri rannsókna sýndu að þeir sem horfðu mikið á sjónvarp, notuðu myndbandstækin fyrst og fremst til að taka upp sjónvarpsþætti til að horfa á síðar en þeir sem horfðu lítið á sjónvarp, notuðu tækin fremur til að taka á leigu kvikmyndir og annað útgefið efni. Enn fremur voru eigendur myndbandstækja líklegri til að skipuleggja sjónvarpsáhorf sitt, það er, að ákveða fyrirfram á hvað skyldi horft, fremur en að setjast niður fyrir framan sjónvarpstækið og horfa bara á eitthvað.Myndir og frekari fróðleikur:

Höfundur

doktor í fjölmiðlafræði

Útgáfudagur

25.7.2003

Spyrjandi

Tómas Þorgeirsson, f. 1985

Tilvísun

Guðbjörg Hildur Kolbeins. „Hver er saga myndbandavæðingarinnar og hverju breytti hún?“ Vísindavefurinn, 25. júlí 2003. Sótt 22. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=3612.

Guðbjörg Hildur Kolbeins. (2003, 25. júlí). Hver er saga myndbandavæðingarinnar og hverju breytti hún? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3612

Guðbjörg Hildur Kolbeins. „Hver er saga myndbandavæðingarinnar og hverju breytti hún?“ Vísindavefurinn. 25. júl. 2003. Vefsíða. 22. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3612>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er saga myndbandavæðingarinnar og hverju breytti hún?
Ampex-fyrirtækið setti fyrsta myndbandstækið á markað árið 1956 og byggði á þegar rúmlega hálfrar aldar gamalli uppfinningu danska vísindamannsins Valdemars Poulsens (1869-1942). Í upphafi voru myndbandstæki eingöngu notuð af sjónvarpsstöðvum og í kvikmyndaiðnaðinum en fyrir daga þeirra voru allir sjónvarpsþættir sendir út í beinni útsendingu. Vegna þess tímamunar sem er á milli austur- og vesturstrandar Bandaríkjanna þótti kostur að geta tekið efni upp á austurströndinni og sent það út seinna á vesturströndinni. Þann 30. nóvember 1956 var þátturinn Douglas Edward and the News sýndur á sjónvarpsstöðinni CBS á vesturströnd Bandaríkjanna þremur tímum eftir að hann hafði verið tekinn upp á austurströndinni. Var það í fyrsta skipti sem þáttur var sendur út á myndbandi.Fyrsta myndbandstækið sem Ampex sýndi í apríl 1956

Fyrsta myndbandstækið sem ætlað var til heimilisnota, var þróað af raftækjaframleiðandanum Philips og kom fram á sjónarsviðið í Englandi árið 1972. Fljótlega upp úr því fóru sjúkrahús og skólar að nota myndbandstæki og myndbandsupptökuvélar til að skoða atferli sjúklinga og nemenda. Nokkrum árum síðar, eða 1977, fór fyrsta VHS-tækið (Video Home System) frá JVC í sölu og sama ár setti RCA-fyrirtækið VHS-tæki á bandarískan markað. Tveimur árum fyrr hafði Sony þróað Betamax-kerfið. Með tilkomu VHS-tækninnar voru komnar tvær tegundir myndbandstækja til sögunnar og sú þriðja átti eftir að bætast við. Þó að margir séu þeirrar skoðunar að Beta-tækin hafi verið betri en VHS-tækin, er talið að það hafi gert gæfumuninn í vinsældum VHS-tækjanna að á VHS-myndböndin var hægt að taka upp átta tíma af efni en aðeins var hægt að taka upp fimm og hálfan tíma af efni á Beta-myndböndin. Philips, Grundig og B&O framleiddu síðar V2000-tæki en þau náðu aldrei verulegri fótfestu vegna þess hversu seint þau komu á markað. Myndböndum fyrir V2000-tækin var hægt að snúa við eins og hljóðsnældum.

Í fyrstu voru myndbandstæki mjög dýr og héldu sumir að þau yrðu aldrei annað en lúxusvara sem aðeins fáir hefðu efni á. Reyndin varð hins vegar önnur því árið 1982 skall á verðstríð framleiðenda Beta- og VHS-tækjanna. Á tímabili seldu Japanir myndbandstæki í Evrópu undir kostnaðarverði en í byrjun árs 1983 fóru evrópsku fyrirtækin Philips og Grundig í mál við japönsku framleiðendurna. Málaferlunum lyktaði með því að settur var kvóti á þann fjölda myndbandstækja sem Japanir máttu selja í Evrópu á næstu þremur árum.

Segja má að myndbandatæknin hafi notið talsverðra vinsælda síðustu tvo áratugina en nú hyllir undir endalok hennar þar sem DVD-tæknin (Digital Versatile Disc eða Digital Video Disc) er að ryðja gömlu myndbandstækjunum úr vegi. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands voru myndbandstæki á 91,4% íslenskra heimila árið 2002 en þess má geta að Íslendingar eru í fyrsta sæti í myndbandstækjaeign af Norðurlandaþjóðunum. Athyglisvert er að nokkur aukning varð í myndbandstækjaeign um síðustu aldamót, um sama leyti og DVD-tækin voru að ryðja sér til rúms. Má ætla að stórlækkað verð á myndbandstækjum hafi haft þar nokkur áhrif á. Einnig eru DVD-upptökutæki tiltölulega dýr og því eru myndbandstækin enn góður kostur ef taka á upp efni úr sjónvarpi.

Fullyrða má að Íslendingar hafi tekið fagnandi á móti myndbandatækninni. Hafa verður í huga að þegar myndbandstæki náðu útbreiðslu hér á landi, um miðjan níunda áratug síðustu aldar, bjuggu landsmenn enn við einokun Ríkisútvarpsins og því jókst úrvalið af afþreyingarefni gífurlega með tilkomu myndbandaleiganna, sem spruttu upp eins og gorkúlur út um allan bæ. Á myndbandaleigunum var meðal annars hægt að taka á leigu heilu sjónvarpsþáttaraðirnar, sem hvorki fyrr né síðar hafa verið sýndar í íslensku sjónvarpi.

Myndbandstækin höfðu veruleg áhrif á aðsókn fólks að kvikmyndahúsum. Árið 1980 fór hver Íslendingur að meðaltali 11 sinnum í bíó á ári en árið 2001 fór hver landsmaður að meðaltali rúmlega fimm sinnum í bíó og hafði sú tala lítið breyst í heilan áratug. Myndbandstækin gerðu fólki kleift að horfa á kvikmyndir heima í stofu í stað þess að fara í kvikmyndahús. Oft og tíðum var hægt að fá kvikmyndir á myndbandaleigunum sem enn var ekki farið að sýna í kvikmyndahúsum og enn er það svo að í hillum myndbandaleiganna eru kvikmyndir sem aldrei hafa verið sýndar í kvikmyndasölum hér á landi. Kvikmyndahúsin hafa reynt að sporna við samkeppni frá myndbandaleigunum með því að hefja sýningar á kvikmyndum tiltölulega skömmu eftir að þær eru frumsýndar erlendis og jafnvel að heimsfrumsýna þær hér á landi. Eftir sem áður er mun dýrara fyrir fjölskyldur að fara í bíó heldur en að taka myndbönd á leigu.

Myndbandavæðingin hafði mikil áhrif á sjónvarpsáhorf fólks. Í fyrsta lagi gat fólk nú tekið upp efni úr sjónvarpi sem annað hvort var sýnt þegar það var ekki heima við, eða á tíma sem var óhentugur til sjónvarpsáhorfs. Í öðru lagi þurftu áhorfendur ekki lengur að gera upp á milli uppáhaldsþáttanna sinna ef svo illa vildi til að þeir væru sýndir á sama tíma hvor á sinni rásinni - nú var hægt að taka upp efni á einni rás meðan horft var á aðra rás. Í þriðja lagi var hægt að taka á leigu kvikmyndir og annað efni sem ekki var sýnt í sjónvarpi, og í fjórða lagi gátu áhorfendur nú sleppt öllum auglýsingum með því að hraðspóla yfir þær. Í stuttu máli má segja að myndbandatæknin hafi veitt fólki frelsi til að horfa á það sem það vildi þegar því hentaði.

Notkun fólks á myndbandstækjum hefur lítið verið rannsökuð á síðustu árum en niðurstöður nýlegrar belgískrar rannsókar benda til að myndbandstæki hafi gert þeim áhorfendum sem horfa mikið á sjónvarp, kleift að horfa enn meira á það og jafnframt á fjölbreyttara efni. Niðurstöður eldri rannsókna sýndu að þeir sem horfðu mikið á sjónvarp, notuðu myndbandstækin fyrst og fremst til að taka upp sjónvarpsþætti til að horfa á síðar en þeir sem horfðu lítið á sjónvarp, notuðu tækin fremur til að taka á leigu kvikmyndir og annað útgefið efni. Enn fremur voru eigendur myndbandstækja líklegri til að skipuleggja sjónvarpsáhorf sitt, það er, að ákveða fyrirfram á hvað skyldi horft, fremur en að setjast niður fyrir framan sjónvarpstækið og horfa bara á eitthvað.Myndir og frekari fróðleikur:...