
Fyrsti olíuborinn í Titusville, Pennsylvaníufylki í Bandaríkjunum

Olíubor í austanverðri Sádí-Arabíu
Flestum er ljóst að olíubirgðir í jörðu eru takmarkaðar því að olía er ekki endurnýjanleg orkulind. Samkvæmt upplýsingum frá OPEC, er talið að olíubirgðir í jörðu séu nú alls um 1.000 milljarðar tunna. Þar á Sádi-Arabía mest, um 260 milljarða tunna, Írak um 110 milljarða, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Kúveit 95 milljarða tunna hvort um sig, Íran 92 milljarða, Venesúela 66 milljarða, Rússland 49 milljarða, Mexíkó 27 milljarða, Kína 24 milljarða, Bandaríkin 23 milljarða, Kasakstan 14 milljarða og Noregur 10 milljarða tunna. Önnur ríki eiga minni birgðir í jörðu. Hefð er fyrir því að mæla jarðolíumagn í tunnum en hver olíutunna tekur 159 lítra. Ef upplýsingar OPEC standast, eru því um 159.000 milljarðar lítra til af olíu í jörðu. Samkvæmt mati OPEC ættu þessar birgðir að endast í um 80 ár miðað við núverandi notkun. Hins vegar má benda á að hér er um álit seljanda að ræða, en ýmis umhverfissamtök eru ekki eins bjartsýn og telja að olía í jörðu muni aðeins endast í 40-50 ár, sem er vissulega mun styttri tími. Á síðustu árum hafa nýfundin olíusvæði gefið af sér um það bil fjórðung af olíuframleiðslunni. Allt virðist því benda til þess að á næstu áratugum verði reynt að finna nýja orkugjafa sem geta komið í stað olíunnar. Meðan hún er ódýrasti kosturinn verður það þó líklega ekki gert af fullum krafti fyrr en verðið hefur hækkað talsvert vegna þverrandi birgða í jörðu og þar af leiðandi minna framboðs. Myndir:
- The History of Oil af vef bandaríska Orkumálaráðuneytisins
- Brooklyn College History Dept
Skyld svör og frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Sigurður Steinþórsson: Hvernig myndast jarðolía?
- UA og ÞV: Hvað er olíutunnan margir lítrar?
- Ulrika Andersen: Hvað er talið að olíubirgðir jarðar endist lengi?
- EÖÞ: Hversu marga lítra af olíu þarf til að framleiða einn lítra af bensíni?
Hér er einnig svarað spurningum:
- Hvenær klárast olían eða bensínið á jörðinni?
- Af hverju mengast sjórinn ekki af olíulindunum sem eru í sjónum á sama hátt og þegar olíuskip sekkur?