Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Félagsmálafræðingur sem starfsheiti er ekki þekkt eða formlega viðurkennt sem slíkt. Líklegast er að hér sé verið að blanda saman nokkrum viðurkenndum starfsheitum fræðigreina, til dæmis félagsfræðingi, félagsráðgjafa og stjórnmálafræðingi.
Hins vegar má hugsa sér að einhver sem hefur lært almenn samfélagsfræði (með grunnþekkingu á ákveðnum þáttum, til dæmis tölfræði, hagfræði og lögfræði) til BA-prófs (grunnháskólaprófs) og er ráðinn til aðstoðar eða til að gefa hagnýtar almennar upplýsingar um félagsleg málefni, til dæmis hjá félaga- eða hagsmunasamtökum, mundi kalla sig eða væri kallaður félagsmálafræðingur. Hann eða hún gæti líka ákveðið að kalla sig félagsmálaráðgjafa eða aðeins ráðgjafa eins og vel er þekkt hjá margvíslegum félögum og samtökum, samanber áfengisráðgjafa, uppeldisráðgjafa, upplýsingaráðgjafa og svo framvegis.
Sömuleiðis eru þeir stundum kallaðir félagsmálafulltrúar sem fengnir eru til afmarkaðra starfa hjá félagsþjónustu sveitarfélaga eða ráðnir eru til bráðabirgða þegar skortur er á félagsráðgjöfum. Í raun geta menn þá kallað sig hvað sem er en þá er ekki um formlega viðurkennt starfsheiti að ræða. Ef einhver er kallaður félagsmálafræðingur er trúlegt að hann starfi sem félagsráðgjafi en líklega án þess að hafa til þess fullgilda menntun og starfsréttindi.
Stjórnmála- eða stjórnunarfræðingar hafa sérfræðiþekkingu á sviði stjórnunar og stefnumörkunar en bæði félagsráðgjafar og sálfræðingar, og jafnvel heimspekingar, hafa líka oft aflað sér sérfræðiþekkingar og eru ráðnir til starfa á þessum sviðum. Einnig eiga þeir oft að baki sérþjálfun í samskiptafræðum, tjáskiptatækni (e. communication) og ráðgjöf (e. supervision, counselling). Þegar komið er inn á þessi sérsvið er oft erfitt að sjá hvert starfsheitið eða menntunargrunnurinn er í raun. Margir kjósa líka að skilgreina starfsvið sitt annað hvort út frá verkefnunum eða stöðu sinni á viðkomandi stofnun (til dæmis deildarstjóri, forstöðumaður, fulltrúi, kynningarstjóri eða verkefnisstjóri).
Orðið eða orðhlutinn -fræðingur vísar almennt til langskólanáms eða vísindalegrar menntunar. Félagsfræðingar hafa háskólamenntun og fá þjálfun í vísindastörfum sem beinast að því að rannsaka, greina og skoða félagsleg fyrirbæri á hlutlægan hátt, yfirleitt samfélög, hópa og aðrar stærri heildir. Nám félagsráðgjafa felur í sér fræðilegan þátt og rannsóknaþjálfun en einnig verknám og það veitir hagnýt, löggild starfsréttindi. Félagsráðgjöf er því í senn fræðigrein og þjónustugrein, eða vísinda- og starfsgrein. Starfsheitið félagsráðgjafi nær til starfa á breiðum starfsvettvangi félags- og heilbrigðisþjónustu, endurhæfingar, skóla og réttarkerfis og starfsheiti þeirra er lögverndað sem fyrr segir.
Fólk í mörgum öðrum starfsgreinum fæst einnig við ábyrgðarmikil velferðarmálefni einstaklinga og hefur jafnframt vísindalega þjálfun til sjálfstæðra rannsóknarstarfa. Má þar nefna hjúkrunarfræðinga, lækna, sálfræðinga og sjúkraþjálfara. Þeir sem nota þessi starfsheiti þurfa að öðlast löggild starfsréttindi til að mega starfa og veita þjónustu á eigin ábyrgð. Prestar og lögmenn eiga sér svipaða lögverndun.
Allir þessir faghópar eiga að baki framhaldsmenntun umfram grunnpróf í háskóla, oftast að minnsta kosti 4-6 ára háskólanám. Í lögum um þessar greinar, forsendur starfsleyfis þeim til handa, skyldur þeirra og réttindi, er meðal annars kveðið á um sérhæfða þjálfun til sérfræðiréttinda á ákveðnu sviði. Fagstéttir eiga sér einnig faglegar siðareglur. Ekki aðeins er starfsheiti þeirra lögverndað heldur er í raun starfsvettvangurinn lögverndaður ásamt ákveðnum verkefna- og fagskyldum, þannig að þeir sem ekki hafa viðeigandi menntun mega hvorki nota starfsheitið né inna störfin af hendi. Umsjón með því er á hendi fagfélaga og yfirvalda.
Sigrún Júlíusdóttir. „Hvað gerir félagsmálafræðingur?“ Vísindavefurinn, 5. ágúst 2003, sótt 9. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3636.
Sigrún Júlíusdóttir. (2003, 5. ágúst). Hvað gerir félagsmálafræðingur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3636