Sólin Sólin Rís 03:49 • sest 23:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 22:41 • Sest 03:14 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:38 • Síðdegis: 18:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:46 • Síðdegis: 24:13 í Reykjavík

Hver er tilgangurinn með hvalveiðum Íslendinga í rannsóknaskyni?

Gísli Víkingsson (1956-2022)

Á síðastliðnu vori kynnti Hafrannsóknastofnunin tveggja ára áætlun um veiðar þriggja hvalategunda í rannsóknaskyni. Í upphaflegri áætlun var gert ráð fyrir að rannsóknaveiðarnar stæðu í tvö ár og hvort ár yrðu veiddar 100 hrefnur á tímabilinu maí-september. Auk þess var gert ráð fyrir veiðum á 100 langreyðum og 50 sandreyðum hvort ár. Nú hefur verið ákveðið að árið 2003 verði veiddar 38 hrefnur og að veiðarnar standi yfir frá 15. ágúst til loka september.

Gert er ráð fyrir að rannsóknunum verði fram haldið á næsta ári í samræmi við fyrri áætlanir þótt ekki liggi fyrir endanleg ákvörðun stjórnvalda þar um. Meginmarkmið rannsóknanna eru mismunandi fyrir tegundirnar þrjár, enda er fyrirliggjandi þekking á hinum ýmsu sviðum líffræði þessara tegunda mismunandi. Þar sem einungis hefur verið ákveðið að hrinda í framkvæmd hrefnuveiðum að sinni er hér aðeins gerð grein fyrir tilgangi hrefnuveiðanna. Ítarlegri upplýsingar er að finna á vefsíðu Hafrannsóknastofnunarinnar.

Reglulegar hvalatalningar á Norður-Atlantshafi á undanförnum árum hafa sýnt að hrefna er ein algengasta hvalategundin hér við land. Íslenska hrefnan tilheyrir svokölluðum Mið-Atlantshafsstofni sem nær frá Austur-Grænlandi, um Ísland og austur til Jan Mayen. Samkvæmt síðustu talningum, sem fram fóru árið 2001, voru um 67 þúsund hrefnur á þessu stofnsvæði, þar af um 43 þúsund á íslenska landgrunninu.

Talninganiðurstöður sýna óyggjandi að hrefna og aðrir hvalir skipa ríkan sess í vistkerfi hafsins umhverfis Ísland. Til þess að meta nánar hlutverk hinna ýmsu hvalategunda í vistkerfinu er nauðsynlegt að fyrir liggi upplýsingar um fæðusamsetningu. Þekking á því sviði hér við land er almennt mjög takmörkuð þótt það sé nokkuð mismunandi eftir tegundum.

Árið 1997 voru birtir útreikningar á afráni þeirra 12 hvalategunda sem finnast reglulega hér við land út frá bestu fáanlegu upplýsingum um stofnstærðir, fæðusamsetningu, viðverutíma og orkuþörf. Samkvæmt þeim éta hvalir við Ísland rúmlega 6 milljónir tonna af sjávarfangi árlega, þar af tæplega 3 milljónir tonna af krabbadýrum, rúmlega 1 milljón tonn af smokkfisktegundum og rúmlega 2 milljónir tonna af fiskmeti.

Hrefnan er atkvæðamesti afræninginn bæði hvað varðar heildarmagn (2 milljónir tonna) og fiskát (1 milljón tonn), en þó er sú niðurstaða óvissu háð þar eð fyrirliggjandi þekking um fæðuval hrefnu hér við land er mjög af skornum skammti. Samkvæmt þessum takmörkuðu gögnum er ljósáta um 35% fæðunnar, loðna 23%, síli 33% og þorskfiskar um 6%.

Þorskur var meðal fæðutegundanna en ekki var unnt að meta hlutdeild tegundarinnar innan fæðuflokksins „þorskfiska“, en hvert prósent skiptir miklu máli þegar um er að ræða heildarneyslu upp á tvær milljónir tonna. Ef gert er ráð fyrir að þorskur sé 3% af fæðu hrefnu benda útreikningar með fjölstofnalíkani til þess að breytingar á stærð hrefnustofnsins geti haft veruleg áhrif á afrakstursgetu þorskstofnsins hér við land til lengri tíma litið. Stærsti óvissuþáttur þessara útreikninga varðar fæðusamsetningu hrefnu og er því sérlega mikilvægt að afla frekari gagna á því sviði hér við land.

Meginmarkmið rannsóknanna sem nú hefur verið ákveðið að ráðast í er að afla grunnvitneskju um fæðuvistfræði hrefnu hér við land. Auk rannsókna á fæðusamsetningu með greiningu magainnihalds verður aflað annarra gagna sem nauðsynleg eru til að meta afrán tegundarinnar á hinum ýmsu fæðutegundum. Þar má nefna rannsóknir á orkubúskap, á árstíðabundnum breytingum í fjölda og útbreiðslu hvalanna og á fæðuþörf. Þá verður unnið að þróun fjölstofnalíkans Hafrannsóknastofnunarinnar sem þegar tekur til þorsks, loðnu og rækju, svo að meta megi vistfræðilegt samspil hrefnu og þessara tegunda.

Auk þessa meginmarkmiðs hafa rannsóknirnar eftirfarandi markmið:
  • Að kanna stofngerð hrefnu í Norður-Atlantshafi með erfðafræðilegum aðferðum og gervitunglamerkingum.
  • Að kanna sníkjudýr og sjúkdóma í hrefnustofninum.
  • Að safna upplýsingum um aldur og viðkomu hrefnu hér við land.
  • Að kanna magn lífrænna og ólífrænna mengunarefna í hinum ýmsu líffærum.
Þá verður metin gagnsemi ýmissa nýrra rannsóknaaðferða með samanburði við hinar hefðbundnari aðferðir.

Höfundur

sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun

Útgáfudagur

14.8.2003

Spyrjandi

Sigurður Gunnarsson

Tilvísun

Gísli Víkingsson (1956-2022). „Hver er tilgangurinn með hvalveiðum Íslendinga í rannsóknaskyni?“ Vísindavefurinn, 14. ágúst 2003. Sótt 22. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=3655.

Gísli Víkingsson (1956-2022). (2003, 14. ágúst). Hver er tilgangurinn með hvalveiðum Íslendinga í rannsóknaskyni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3655

Gísli Víkingsson (1956-2022). „Hver er tilgangurinn með hvalveiðum Íslendinga í rannsóknaskyni?“ Vísindavefurinn. 14. ágú. 2003. Vefsíða. 22. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3655>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er tilgangurinn með hvalveiðum Íslendinga í rannsóknaskyni?
Á síðastliðnu vori kynnti Hafrannsóknastofnunin tveggja ára áætlun um veiðar þriggja hvalategunda í rannsóknaskyni. Í upphaflegri áætlun var gert ráð fyrir að rannsóknaveiðarnar stæðu í tvö ár og hvort ár yrðu veiddar 100 hrefnur á tímabilinu maí-september. Auk þess var gert ráð fyrir veiðum á 100 langreyðum og 50 sandreyðum hvort ár. Nú hefur verið ákveðið að árið 2003 verði veiddar 38 hrefnur og að veiðarnar standi yfir frá 15. ágúst til loka september.

Gert er ráð fyrir að rannsóknunum verði fram haldið á næsta ári í samræmi við fyrri áætlanir þótt ekki liggi fyrir endanleg ákvörðun stjórnvalda þar um. Meginmarkmið rannsóknanna eru mismunandi fyrir tegundirnar þrjár, enda er fyrirliggjandi þekking á hinum ýmsu sviðum líffræði þessara tegunda mismunandi. Þar sem einungis hefur verið ákveðið að hrinda í framkvæmd hrefnuveiðum að sinni er hér aðeins gerð grein fyrir tilgangi hrefnuveiðanna. Ítarlegri upplýsingar er að finna á vefsíðu Hafrannsóknastofnunarinnar.

Reglulegar hvalatalningar á Norður-Atlantshafi á undanförnum árum hafa sýnt að hrefna er ein algengasta hvalategundin hér við land. Íslenska hrefnan tilheyrir svokölluðum Mið-Atlantshafsstofni sem nær frá Austur-Grænlandi, um Ísland og austur til Jan Mayen. Samkvæmt síðustu talningum, sem fram fóru árið 2001, voru um 67 þúsund hrefnur á þessu stofnsvæði, þar af um 43 þúsund á íslenska landgrunninu.

Talninganiðurstöður sýna óyggjandi að hrefna og aðrir hvalir skipa ríkan sess í vistkerfi hafsins umhverfis Ísland. Til þess að meta nánar hlutverk hinna ýmsu hvalategunda í vistkerfinu er nauðsynlegt að fyrir liggi upplýsingar um fæðusamsetningu. Þekking á því sviði hér við land er almennt mjög takmörkuð þótt það sé nokkuð mismunandi eftir tegundum.

Árið 1997 voru birtir útreikningar á afráni þeirra 12 hvalategunda sem finnast reglulega hér við land út frá bestu fáanlegu upplýsingum um stofnstærðir, fæðusamsetningu, viðverutíma og orkuþörf. Samkvæmt þeim éta hvalir við Ísland rúmlega 6 milljónir tonna af sjávarfangi árlega, þar af tæplega 3 milljónir tonna af krabbadýrum, rúmlega 1 milljón tonn af smokkfisktegundum og rúmlega 2 milljónir tonna af fiskmeti.

Hrefnan er atkvæðamesti afræninginn bæði hvað varðar heildarmagn (2 milljónir tonna) og fiskát (1 milljón tonn), en þó er sú niðurstaða óvissu háð þar eð fyrirliggjandi þekking um fæðuval hrefnu hér við land er mjög af skornum skammti. Samkvæmt þessum takmörkuðu gögnum er ljósáta um 35% fæðunnar, loðna 23%, síli 33% og þorskfiskar um 6%.

Þorskur var meðal fæðutegundanna en ekki var unnt að meta hlutdeild tegundarinnar innan fæðuflokksins „þorskfiska“, en hvert prósent skiptir miklu máli þegar um er að ræða heildarneyslu upp á tvær milljónir tonna. Ef gert er ráð fyrir að þorskur sé 3% af fæðu hrefnu benda útreikningar með fjölstofnalíkani til þess að breytingar á stærð hrefnustofnsins geti haft veruleg áhrif á afrakstursgetu þorskstofnsins hér við land til lengri tíma litið. Stærsti óvissuþáttur þessara útreikninga varðar fæðusamsetningu hrefnu og er því sérlega mikilvægt að afla frekari gagna á því sviði hér við land.

Meginmarkmið rannsóknanna sem nú hefur verið ákveðið að ráðast í er að afla grunnvitneskju um fæðuvistfræði hrefnu hér við land. Auk rannsókna á fæðusamsetningu með greiningu magainnihalds verður aflað annarra gagna sem nauðsynleg eru til að meta afrán tegundarinnar á hinum ýmsu fæðutegundum. Þar má nefna rannsóknir á orkubúskap, á árstíðabundnum breytingum í fjölda og útbreiðslu hvalanna og á fæðuþörf. Þá verður unnið að þróun fjölstofnalíkans Hafrannsóknastofnunarinnar sem þegar tekur til þorsks, loðnu og rækju, svo að meta megi vistfræðilegt samspil hrefnu og þessara tegunda.

Auk þessa meginmarkmiðs hafa rannsóknirnar eftirfarandi markmið:
  • Að kanna stofngerð hrefnu í Norður-Atlantshafi með erfðafræðilegum aðferðum og gervitunglamerkingum.
  • Að kanna sníkjudýr og sjúkdóma í hrefnustofninum.
  • Að safna upplýsingum um aldur og viðkomu hrefnu hér við land.
  • Að kanna magn lífrænna og ólífrænna mengunarefna í hinum ýmsu líffærum.
Þá verður metin gagnsemi ýmissa nýrra rannsóknaaðferða með samanburði við hinar hefðbundnari aðferðir. ...