Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Eftir umfangsmiklar kannanir á tunglinu á sjöunda áratugnum, sem meðal annars fólu í sér nákvæma kortlagningu yfirborðsins og fimm lendingar ómannaðra geimfara, sendu Bandaríkjamenn níu mönnuð geimför til tunglsins. Fyrsta mannaða geimfarið sem fór á braut um tunglið var Apollo 8., sem flaug í desember 1968, og vakti það afrek verðskuldaða athygli. Frægasta tunglfarið var Apollo 11. sem lenti á tunglinu 20. júlí 1969, og fylgdist heimsbyggðin spennt með er geimfararnir Neil Armstrong og Edwin E. Aldrin stigu sín fyrstu spor á tunglinu. Á næstu þremur árum lentu fimm mönnuð geimför til viðbótar á mismunandi stöðum á tunglinu. Myndin hér á undan er af Aldrin á tunglinu, frá vefsetri Bandaríska flug- og geimferðasafnsins (NASM).
Ástæður tunglferðanna voru margvíslegar. Fyrst og fremst lágu þó pólitískar ástæður að baki því hve miklir peningar fengust í verkefnið, en það var svo viðamikið að árið 1965 fóru rúm 5% af heildarútgjöldum alríkisstjórnarinnar til NASA. Sovétmenn höfðu ítrekað skotið Bandaríkjamönnum ref fyrir rass í geimkapphlaupi sjötta og sjöunda áratugarins. Þeir höfðu meðal annars sent fyrsta gervitunglið á braut um jörðu árið 1957 (Spútnik) og í aprílmánuði árið 1961 varð Júrí Gagarín fyrsti maðurinn til að komast út í geiminn. Víst er talið að það hafi verið einkum verið til að vega á móti þessum sigrum Sovétmanna að John F. Kennedy Bandaríkjaforseti lýsti yfir, mánuði eftir geimför Gagarins, að stefnt skyldi að því að senda Bandaríkjamann til tunglsins fyrir lok áratugarins.
Hins vegar höfðu tunglferðirnar að sjálfsögðu einnig mikið vísindalegt gildi. Í sex lendingum frá 1969 til 1972 söfnuðu tólf geimfarar 382 kg af tunglsteinum og fluttu til jarðar. Með nákvæmum mælingum á þeim sýnum hafa meðal annars fengist upplýsingar um aldur tunglsins og uppruna. Steinarnir gefa einnig mikilvægar upplýsingar um jörðina og jafnvel um uppruna sólkerfisins. Aðalástæða þess hve tunglsteinarnir eru mikilvægir er að tunglið hefur verið óvirkt jarðfræðilega í milljarða ára og því eru þeir mun eldri en þeir steinar sem finna má á jörðu.
Auk þess sem sýnin gáfu mikilvægar upplýsingar komu geimfararnir fyrir tækjabúnaði á tunglinu sem hélt áfram að senda upplýsingar til jarðar í mörg ár. Meðal þessara tækja voru jarðskjálftamælar, en með því að skoða gögn frá þeim hefur verið hægt að áætla innri gerð tunglsins.
Gjarnan er spurt hvort ekki hefði verið hægt að senda ómannaðar geimflaugar til tunglsins sem hefðu gert sama gagn. Athuga þarf að geimfararnir komu fyrir ýmisskonar tækjabúnaði, völdu sýni, keyrðu lítinn jeppa um yfirborðið til að geta skoðað stærra svæði og voru til taks ef eitthvað kom uppá. Nú á dögum geta ómönnuð geimför gert margt af þessu en slík tækni var ekki fyrir hendi fyrir þrjátíu árum. Enn í dag er talið svara kostnaði að senda menn til að framkvæma ákveðnar rannsóknir og til marks um það má nefna að það er á stefnuskrá NASA að senda mönnuð geimför annað hvort aftur til tunglsins eða alla leið til Mars, á öðrum áratug næstu aldar.
Þar sem spurt var um mannaðar geimferðir hefur hér einkum verið fjallað um Apolloferðir Bandaríkjamanna. Fjöldi ómannaðra flauga hefur hins vegar einnig rannsakað tunglið og fluttu meðal annars þrjár sovéskar geimflaugar 300 g af sýnum til jarðar á áttunda áratugnum. Frá því að hin síðasta þeirra, Luna 24, sneri aftur í ágúst 1976 hefur engin geimflaug lent á yfirborði tunglsins.
Heimildir:
Freedman, R. A. og Kaufmann, W. J. 1998. Universe, 5. útgáfa. New York, W. H. Reeman and Company.
Almennar upplýsingar um Apollo-áætlunina er að finna á þessari síðu Bandaríska loft- og geimferðasafnsins (the National Air and Space Museum). Þar eru einnig taldar upp tíu mikilvægar uppgötvanir sem leiddu af Apollo-ferðunum.
Mjög ítarlega er fjallað um Apollo-áætlunina, meðal annars um pólitískar ástæður sem lágu að baki, á þessari síðu NASA.
Á þessum spurningasíðum NASA er að finna ýmsar upplýsingar, meðal annars um stefnu stofnunarinnar á næstu öld.
Tryggvi Þorgeirsson. „Til hvers voru menn sendir til tunglsins?“ Vísindavefurinn, 26. apríl 2000, sótt 12. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=367.
Tryggvi Þorgeirsson. (2000, 26. apríl). Til hvers voru menn sendir til tunglsins? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=367
Tryggvi Þorgeirsson. „Til hvers voru menn sendir til tunglsins?“ Vísindavefurinn. 26. apr. 2000. Vefsíða. 12. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=367>.