Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Eru íþróttameiðsl algeng og alvarleg meðal barna og unglinga? Ef svo er, í hvaða íþróttagreinum?
Til þess að rannsaka tíðni meiðsla hjá börnum og unglingum í íþróttum þarf stórt úrtak úr mörgum greinum íþrótta. Slíkar rannsóknir hafa ekki verið framkvæmdar hér á landi þannig að við verðum að leita til annarra þjóða til að finna svar við spurningunni.
Þegar rætt er um tíðni meiðsla í íþróttum og hve alvarleg þau eru, þarf að liggja skýrt fyrir við hvað er miðað. Ef meiðslatíðni er borin saman milli ólíkra íþróttagreina og aldurshópa þarf meðal annars að taka tillit til fjölda þátttakenda í hverri grein ásamt æfinga- og keppnisálagi.
Ungar stúlkur sem tóku þátt í víðavangshlaupi á Írlandi.
Rannsóknir á tíðni meiðsla hjá börnum og unglingum eru nokkuð misvísandi en það endurspeglar ólíkar aðferðir sem notaðar eru við söfnun gagna og skilgreiningu meiðsla. Flestar erlendar rannsóknir sýna að meiðslatíðni í íþróttum barna og unglinga eykst með hækkandi aldri, en þó finnast rannsóknir sem sýna tiltölulega lítinn mun milli aldurshópa. Einnig verða meiðslin almennt alvarlegri hjá eldri einstaklingum og taka lengri tíma að gróa.
Ástæður þessa eru meðal annars aukin stærð og þyngd sem leiða til þess að stærri kraftar verka á líkamann. Aðrar ástæður eru til dæmis breytingar í vöðvum, sinum, liðböndum, brjóski og beinum, ásamt stigvaxandi ákefð og auknu æfinga- og keppnisálagi. Einnig hefur komið fram að íþróttameiðsli eru yfirleitt algengari hjá þeim börnum og unglingum sem eru með minni færni en hjá þeim sem hafa meiri færni í íþróttum.
Í samanburði við fullorðna er tíðni íþróttameiðsla meðal barna yfirleitt lægri, meiðslin taka skemmri tíma að gróa og eru líka öðruvísi. Hjá börnum og unglingum á vaxtarskeiði eru beinin veikust fyrir á vaxtarlínum beina og þar koma stundum fram meiðsli sem ekki eru fyrir hendi hjá fullorðnum. Einnig eru álagsmeiðsli, þar sem sinar festast við bein, talin algengari meðal barna og unglinga en meðal fullorðinna. Þessi meiðsli geta valdið töluverðri fjarveru og/eða skertri hæfni til þátttöku í íþróttum.
Í svissneskri rannsókn (de Loes, 1995) þar sem athugaðar voru nokkrar algengar íþróttagreinar kom fram að meiðslatíðni hjá unglingum (14-20 ára) var hæst í ísknattleik, því næst kom handknattleikur, knattspyrna, körfubolti, svigskíði, blak, júdó og frjálsar íþróttir. Önnur rannsókn (Kingma og Duis, 1998) gefur til kynna að þrátt fyrir tiltölulega lága meiðslatíðni í fimleikum geti meiðsli orðið alvarlegri þar en í mörgum öðrum íþróttagreinum.
Almennt má ætla að nokkuð sé um íþróttameiðsli barna og unglinga hér á landi, en rannsókna er þörf svo hægt sé að meta tíðnina og bera saman meiðsli í ólíkum íþróttagreinum.
Heimildir og mynd:
de Loes, M. (1995). Epidemiology of sports injures in the Swiss organization "Youth and Sports" 1987-1989. Injuries, exposure and risks of main diagnoses. Int J Sports Med, 16: 134-138.
Kingma J. & Duis, H. J. (1998). Sports members' participation in assessment of incidence rate of injuries in five sports from records of hospital-based clinical treatment. Percept Mot Skills, 86: 675-686.
Árni Árnason. „Eru íþróttameiðsl algeng meðal barna og unglinga?“ Vísindavefurinn, 17. september 2003, sótt 6. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3738.
Árni Árnason. (2003, 17. september). Eru íþróttameiðsl algeng meðal barna og unglinga? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3738
Árni Árnason. „Eru íþróttameiðsl algeng meðal barna og unglinga?“ Vísindavefurinn. 17. sep. 2003. Vefsíða. 6. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3738>.