Sólin Sólin Rís 05:29 • sest 21:25 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:47 • Sest 05:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:41 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:54 • Síðdegis: 24:11 í Reykjavík

Hvað getið þið sagt mér um kynlitninga?

Guðmundur Eggertsson

Kynlitningar eru, eins og nafnið bendir til, litningar sem ákvarða kynferði. Strax á fyrstu árum 20. aldar, eftir að erfðalögmál Mendels höfðu verið grafin úr gleymsku og athuganir á litningum fóru í vöxt, urðu menn þess varir að að litningamengi kynjanna eru ekki alveg eins. Athuganir á skordýrum sýndu til dæmis að auk margra annarra litninga sem voru í tveimur eintökum í líkamsfrumum beggja kynja hafði kvenkynið tvo svonefnda X-litninga (XX) en karlkynið einn X-litning og einn svonefndan Y-litning (XY). X- og Y-litningar voru auðgreinanlegir hvor frá öðrum. Þannig reyndist það vera hjá ávaxtaflugunni eða bananaflugunni (Drosophila melanogaster) sem brátt varð helsta tilraunadýr erfðafræðinga. Karlkyn sumra skordýra, til dæmis engisprettna, hefur reyndar aðeins einn kynlitning, sem er X-litningur, en Y-litning vantar alveg (XO).

Síðar kom á daginn að hjá hryggdýrum er hið sama uppi á teningnum og hjá ávaxtaflugunni. Kvenkynið hefur arfgerðina XX en karlkynið XY. Reyndar skera fuglar sig úr, því að meðal þeirra er það karlkynið sem hefur tvo eins kynlitninga (ZZ) en kvenkynið tvo ólíka (ZW). Kynlitningar eru einnig þekktir hjá sérbýlisplöntum þar sem karlblóm og kvenblóm eru hvort á sínum einstaklingi.

Erfðir kynlitninga hjá mönnum, dýrum og ávaxtaflugum eru þannig að sonur fær Y-litning sinn frá föður og X-litninginn frá móður en dóttir fær annan X-litning sinn frá móður, hinn frá föður. Aðrir litningar erfast þannig að annað eintakið kemur ævinlega frá föður, hitt frá móður. Bæði hjá flugu og manni eru ýmis gen á X-litningnum en mjög fá á Y-litningnum. Mestallt erfðaefni hans er óvirkt. Genin á X-litningnum hafa flest hver engin sérstök áhrif á kynákvörðun en gegna ýmsum hlutverkum í frumustarfsemi. Þau hljóta að erfast á sama hátt og X-litningurinn og því með svolítið öðrum hætti en gen á öðrum litningum. Þau eru sögð vera kyntengd.

Með því að fylgjast með erfðum gena, til dæmis hjá manninum, má greina hvort þau eru á X-litningi eður ei. Þannig komust menn til dæmis að því að víkjandi gen sem veldur dreyrasýki er á X-litningi. Áhrif slíks gens koma ekki fram hjá konum nema það sé á báðum X-litningunum. Karlmenn hafa hins vegar aðeins einn X-litning en Y-litningur þeirra hefur engin áhrif á tjáningu gensins. Þess vegna sýna víkjandi gen á X-litningi mun oftar sitt rétta andlit hjá körlum en konum.

Sjálf kynákvörðunin er, eins og gefur að skilja, ekki einfalt mál og getur reyndar verið með mjög ólíkum hætti hjá fjarskyldum tegundum. Við rannsóknir á kynákvörðun hafa einstaklingar með afbrigðilegan fjölda kynlitninga skipt miklu máli. Meðal manna eru til dæmis þekktir einstaklingar sem hafa arfgerðirnar XO, XXX, XXY og XXXY. Tveir þeir fyrstnefndu eru konur, hinir tveir eru karlar en arfgerðirnar hafa allar í för með sér ófrjósemi eða mjög skerta frjósemi.

Ljóst er að Y-litningurinn ræður úrslitum um það hvort fram koma kyneinkenni karls eða konu. Menn hafa því spurt hvað það sé á Y-litningnum sem ræður kynferði. Fyrir nokkrum árum var staðfest að það er einungis eitt gen á Y-litningnum, svonefnt SRY-gen, sem skiptir máli og veldur því að þroskun fóstursins beinist inn á karllegar brautir. Afurð þessa gens er sennilega stjórnprótín sem virkjar eitt eða fleiri gen til starfa og setur þannig af stað keðju atburða sem móta þroskun fóstursins. Langt er þó frá því að menn skilji þessa atburðarás til fulls. En sé SRY-genið ekki til staðar, eða sé það óvirkt, þroskast einstaklingurinn sem kona. Til eru konur sem hafa arfgerðina XY en vantar SRY-genið vegna stökkbreytingar (úrfellingar). Eins eru til karlmenn sem hafa arfgerðina XX að SRY-geninu einu viðbættu. Báðar þessar arfgerðir eru mjög sjaldgæfar en þær nýttust vel í leitinni að SRY-geninu á Y-litningnum. Báðar valda þær ófrjósemi.

Eins og áður sagði er kynákvörðun ávaxtaflugunnar öðruvísi varið. Þar er Y-litningurinn ekki jafn áhrifamikill og hjá hryggdýrum. Þannig eru flugur með arfgerð XXY ekki karlflugur heldur ófrjóar kvenflugur og XO-flugur eru ófrjóar karlflugur. Ekkert kynákvarðandi gen er á Y-litningnum en hann er hins vegar nauðsynlegur fyrir frjósemi karlflugna. Flugurnar hafa greinilega valið allt aðra leið að settu marki en hryggdýrin.

Höfundur

Guðmundur Eggertsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

26.4.2000

Spyrjandi

Helga Lilja Gunnarsdóttir

Tilvísun

Guðmundur Eggertsson. „Hvað getið þið sagt mér um kynlitninga?“ Vísindavefurinn, 26. apríl 2000. Sótt 22. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=377.

Guðmundur Eggertsson. (2000, 26. apríl). Hvað getið þið sagt mér um kynlitninga? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=377

Guðmundur Eggertsson. „Hvað getið þið sagt mér um kynlitninga?“ Vísindavefurinn. 26. apr. 2000. Vefsíða. 22. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=377>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um kynlitninga?
Kynlitningar eru, eins og nafnið bendir til, litningar sem ákvarða kynferði. Strax á fyrstu árum 20. aldar, eftir að erfðalögmál Mendels höfðu verið grafin úr gleymsku og athuganir á litningum fóru í vöxt, urðu menn þess varir að að litningamengi kynjanna eru ekki alveg eins. Athuganir á skordýrum sýndu til dæmis að auk margra annarra litninga sem voru í tveimur eintökum í líkamsfrumum beggja kynja hafði kvenkynið tvo svonefnda X-litninga (XX) en karlkynið einn X-litning og einn svonefndan Y-litning (XY). X- og Y-litningar voru auðgreinanlegir hvor frá öðrum. Þannig reyndist það vera hjá ávaxtaflugunni eða bananaflugunni (Drosophila melanogaster) sem brátt varð helsta tilraunadýr erfðafræðinga. Karlkyn sumra skordýra, til dæmis engisprettna, hefur reyndar aðeins einn kynlitning, sem er X-litningur, en Y-litning vantar alveg (XO).

Síðar kom á daginn að hjá hryggdýrum er hið sama uppi á teningnum og hjá ávaxtaflugunni. Kvenkynið hefur arfgerðina XX en karlkynið XY. Reyndar skera fuglar sig úr, því að meðal þeirra er það karlkynið sem hefur tvo eins kynlitninga (ZZ) en kvenkynið tvo ólíka (ZW). Kynlitningar eru einnig þekktir hjá sérbýlisplöntum þar sem karlblóm og kvenblóm eru hvort á sínum einstaklingi.

Erfðir kynlitninga hjá mönnum, dýrum og ávaxtaflugum eru þannig að sonur fær Y-litning sinn frá föður og X-litninginn frá móður en dóttir fær annan X-litning sinn frá móður, hinn frá föður. Aðrir litningar erfast þannig að annað eintakið kemur ævinlega frá föður, hitt frá móður. Bæði hjá flugu og manni eru ýmis gen á X-litningnum en mjög fá á Y-litningnum. Mestallt erfðaefni hans er óvirkt. Genin á X-litningnum hafa flest hver engin sérstök áhrif á kynákvörðun en gegna ýmsum hlutverkum í frumustarfsemi. Þau hljóta að erfast á sama hátt og X-litningurinn og því með svolítið öðrum hætti en gen á öðrum litningum. Þau eru sögð vera kyntengd.

Með því að fylgjast með erfðum gena, til dæmis hjá manninum, má greina hvort þau eru á X-litningi eður ei. Þannig komust menn til dæmis að því að víkjandi gen sem veldur dreyrasýki er á X-litningi. Áhrif slíks gens koma ekki fram hjá konum nema það sé á báðum X-litningunum. Karlmenn hafa hins vegar aðeins einn X-litning en Y-litningur þeirra hefur engin áhrif á tjáningu gensins. Þess vegna sýna víkjandi gen á X-litningi mun oftar sitt rétta andlit hjá körlum en konum.

Sjálf kynákvörðunin er, eins og gefur að skilja, ekki einfalt mál og getur reyndar verið með mjög ólíkum hætti hjá fjarskyldum tegundum. Við rannsóknir á kynákvörðun hafa einstaklingar með afbrigðilegan fjölda kynlitninga skipt miklu máli. Meðal manna eru til dæmis þekktir einstaklingar sem hafa arfgerðirnar XO, XXX, XXY og XXXY. Tveir þeir fyrstnefndu eru konur, hinir tveir eru karlar en arfgerðirnar hafa allar í för með sér ófrjósemi eða mjög skerta frjósemi.

Ljóst er að Y-litningurinn ræður úrslitum um það hvort fram koma kyneinkenni karls eða konu. Menn hafa því spurt hvað það sé á Y-litningnum sem ræður kynferði. Fyrir nokkrum árum var staðfest að það er einungis eitt gen á Y-litningnum, svonefnt SRY-gen, sem skiptir máli og veldur því að þroskun fóstursins beinist inn á karllegar brautir. Afurð þessa gens er sennilega stjórnprótín sem virkjar eitt eða fleiri gen til starfa og setur þannig af stað keðju atburða sem móta þroskun fóstursins. Langt er þó frá því að menn skilji þessa atburðarás til fulls. En sé SRY-genið ekki til staðar, eða sé það óvirkt, þroskast einstaklingurinn sem kona. Til eru konur sem hafa arfgerðina XY en vantar SRY-genið vegna stökkbreytingar (úrfellingar). Eins eru til karlmenn sem hafa arfgerðina XX að SRY-geninu einu viðbættu. Báðar þessar arfgerðir eru mjög sjaldgæfar en þær nýttust vel í leitinni að SRY-geninu á Y-litningnum. Báðar valda þær ófrjósemi.

Eins og áður sagði er kynákvörðun ávaxtaflugunnar öðruvísi varið. Þar er Y-litningurinn ekki jafn áhrifamikill og hjá hryggdýrum. Þannig eru flugur með arfgerð XXY ekki karlflugur heldur ófrjóar kvenflugur og XO-flugur eru ófrjóar karlflugur. Ekkert kynákvarðandi gen er á Y-litningnum en hann er hins vegar nauðsynlegur fyrir frjósemi karlflugna. Flugurnar hafa greinilega valið allt aðra leið að settu marki en hryggdýrin.

...