Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Eins og fram kemur í svari Agnars Helgasonar við spurningunni Eru kynþættir ekki til? er tegundin maður (Homo sapiens) óvenju einsleit í skilningi erfðafræðinnar þrátt fyrir landfræðilega útbreiðslu sem spannar nær öll landsvæði jarðar. Það er því ekki óeðlilegt að sú spurning vakni hvers vegna tegund okkar er svona einsleit, hvort sem litið er til einstaklinga eða hópa.
Það er einkum tvennt sem skýrir þetta. Í fyrsta lagi er Homo sapiens mjög ung tegund í þróunarfræðilegum skilningi, en hún varð til í Afríku fyrir einungis um það bil 150 þúsund árum. Í öðru lagi hefur margbrotin útbreiðslusaga tegundarinnar frá upprunastaðnum í Afríku og til allra heimshorna leitt það af sér að fáir hópar hafa verið einangraðir frá öllum öðrum til lengri tíma.
Talið er að maðurinn hafi ekki verið kominn lengra en til Miðausturlanda fyrir um 100 þúsund árum. Líklega voru fyrstu landnámshópar manna komnir til Vestur- og Suður-Asíu fyrir um það bil 70 þúsund árum. Kynslóð eftir kynslóð hafa þeir fikrað sig eftir suðurströndum Asíu, um alla Suðaustur-Asíu og eyjarnar við strendur hennar og að lokum voru menn komnir til Ástralíu fyrir um 50 þúsund árum.
Aðrir hópar héldu í norður- og norðausturátt inn í norðurhluta Asíu, en fyrstu ummerki eftir tegund okkar til dæmis í Kína eru um 40 þúsund ára gamlar. Töluvert seinna, eða fyrir um 15 þúsund árum, fóru sumir afkomendur landnemanna í Norðaustur-Asíu yfir landbrú á milli Síberíu og Ameríku, þar sem nú er Beringssund. Sumir telja reyndar að landnám Ameríku hafi átt sér stað fyrir 35 þúsund árum en engar staðfestar minjar styðja þá tilgátu.
Að lokum má geta þess að fyrstu ummerki eftir Homo sapiens í Evrópu eru um 40 þúsund ára, en þessir fyrstu landnemar Evrópu voru líklega afkomendur hópa sem höfðu sest að í Miðausturlöndum nokkrum árþúsundum fyrr.
Í þessari fyrstu útbreiðslu Homo sapiens um heiminn á miðsteinöld og efri fornsteinöld voru hópar fámennir og öfluðu sér fæðu með söfnun og veiðum. Slíkir hópar voru að öllum líkindum alltaf á hreyfingu. Gen hafa því borist greiðlega milli hópa og fáir hópar hafa verið mjög einangraðir til lengri tíma. Ef slíkt ástand hefði varað til dagsins í dag og áfram er þó líklegt að erfðafræðilegur munur á hópum hefði vaxið með tímanum og þess vegni hefði fyrr eða síðar komið að því að ólíkir hópar hefðu gefið af sér aðskildar tegundir. Raunin varð hins vegar önnur.
Fyrir um 10 þúsund árum hófst nýr og gríðarlega mikilvægur kafli í útbreiðslusögu tegundarinnar með tilkomu nýsteinaldar og hinnar svonefndu landbúnaðarbyltingar. Rannsóknir á sviði fornleifafræði, málvísinda og erfðafræði sýna berlega að fólksfjöldasprenging varð hjá mörgum hópum sem tóku upp landbúnað.
Hvort sem var í Miðausturlöndum, Evrópu, Afríku, Austur-Asíu, Suðaustur-Asíu eða Ameríku, stækkuðu slíkir hópar og lögðu undir sig stór landssvæði þar sem fyrir voru aðrir hópar sem stunduðu söfnun og veiðimennsku. Þetta mikla umbrotaskeið í sögu tegundarinnar leiddi því af sér mikla erfðafræðilega blöndun hópa og erfðakokteill tegundarinnar hristist saman enn á ný.
Þær þjóðfélagsbreytingar sem hófust með landbúnaðarbyltingunni hafa haft áhrif á öll samfélög manna og leitt af sér heimsskipulag sem tryggir stöðugt og hratt flæði gena á milli hópa, nánast sama hversu langt er á milli þeirra. Það er því ólíklegt að sá litli erfðafræðilegi munur sem finnst í dag milli hópa muni aukast á næstunni. Líklegra er að hann minnki.
Agnar Helgason og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvers vegna er mannkynið svo erfðafræðilega einsleitt sem raun ber vitni?“ Vísindavefurinn, 3. október 2003, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3773.
Agnar Helgason og Þorsteinn Vilhjálmsson. (2003, 3. október). Hvers vegna er mannkynið svo erfðafræðilega einsleitt sem raun ber vitni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3773
Agnar Helgason og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvers vegna er mannkynið svo erfðafræðilega einsleitt sem raun ber vitni?“ Vísindavefurinn. 3. okt. 2003. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3773>.