Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þessi spurning er ein af þeim sem kann að koma spánskt fyrir sjónir en er í rauninni afar eðlileg og tekur á grundvallaratriðum í náttúrunni sem margir gera sér ekki grein fyrir.
Það er hárrétt athugað hjá spyrjanda að hljóð berst ekki milli staða nema eitthvert efni sé þar til að bera það. Þegar við tölum saman hér á jörðu niðri er það yfirleitt loftið sem ber hljóðið frá talfærum þess sem talar og inn í eyra þess sem heyrir. Hljóð getur hins vegar líka borist um önnur efni eins og við heyrum til dæmis þegar háreysti frá íbúð nágrannans berst okkur gegnum þykka steinsteypta veggi eða gólfplötur.
Rafsegulbylgjur þurfa hins vegar ekkert burðarefni til þess að fara milli staða; þær geta borist um tómarúm sem við köllum svo. Ljósið er ein tegund rafsegulbylgna og það berst til okkar til dæmis frá sólinni þó að nánast ekkert efni sé á þeirri leið.
Útvarpsbylgjur eru önnur tegund rafsegulbylgna og þurfa heldur ekki loft til að berast milli staða. Þess vegna er það í rauninni villandi orðalag, sem er reyndar komið úr ensku, að tala um að eitthvert útvarpsefni eða útvarpsstöð sé "komin í loftið" þegar útsendingar eru hafnar, því að það þarf einmitt ekkert loft til að bera bylgjurnar og þær gætu þess vegna borist til dæmis út fyrir lofthjúp jarðar.
Þegar við notum hljóðvarp, GSM-síma eða hliðstæðan búnað byrjar sagan á því að upphaflegu hljóðmerki er breytt í rafmerki í straumrás. Það skapar síðan rafsegulbylgjur frá sendiloftneti. Viðtakandinn er síðan einnig með sérstakan búnað sem breytir rafsegulmerkinu fyrst í rafmerki í rás en síðan í hljóð í loftinu við eyrað.
Þetta er einmitt það sem gerist þegar tveir geimfarar á tunglinu tala saman: Hljóðið berst um tómarúmið milli þeirra sem rafsegulbylgja sem breytist aftur í hljóð hjá viðtakandanum. Hið sama gerist einnig í samskiptum manna á jörðu niðri við geimfara eða jafnvel tæki úti í geimnum.
Mynd:Dave Palmer's Astronomy Page
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Þar sem enginn lofthjúpur er á tunglinu, hvernig gátu tunglfararnir þá talað saman?“ Vísindavefurinn, 5. nóvember 2003, sótt 4. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3837.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2003, 5. nóvember). Þar sem enginn lofthjúpur er á tunglinu, hvernig gátu tunglfararnir þá talað saman? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3837
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Þar sem enginn lofthjúpur er á tunglinu, hvernig gátu tunglfararnir þá talað saman?“ Vísindavefurinn. 5. nóv. 2003. Vefsíða. 4. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3837>.