Sólin Sólin Rís 02:58 • sest 23:59 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 12:00 • Sest 02:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:25 • Síðdegis: 23:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:15 • Síðdegis: 17:25 í Reykjavík

Eru leðurblökur á Íslandi?

Jón Már Halldórsson

Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:
Eru leðurblökur á Íslandi? Hafa leðurblökur sést eða fundist á Íslandi?
Leðurblökur tilheyra ættbálkinum Chiroptera og skiptast í tvo undirættbálka, annars vegar flughunda eða stórblökur og hins vegar smáblökur sem eru hinar eiginlegu leðurblökur (Microchiroptera). Alls eru þekktar um 1.200 tegundir leðurblakna en það er um fimmtungur allra núlifandi spendýrategunda.

Leðurblökur eru ekki hluti af dýrafánu Íslands en þær flækjast hingað á nokkurra ára fresti, annað hvort með háloftavindum eða með skipum. Þær tegundir sem hafa komið til landsins eru af undirættbálki smáblakna og lifa á skordýrum. Því eru litlar líkur á því að þær geti fest rætur á Íslandi þar sem framboð á fæðu er takmarkað.

Fyrsta staðfesta koma leðurblöku til Íslands var árið 1817 og síðustu dýrin sem komu hingað sáust í Vestmannaeyjum 12. maí 2003. Þar tókst krökkum að handsama aðra leðurblökuna en hin komst undan.

Hér að neðan er listi yfir skráðar leðurblökuheimsóknir til Íslands. Höfundur hefur ekki upplýsingar um árin 1987-2002 en hægt er að leita nánari fregna hjá Náttúrufræðistofnun Íslands þar sem haldin er skrá yfir leðurblökuheimsóknir.

ÁrStaðsetningTegund
1817Dýrafjörður (V-Ís.)Ógreind
1936Álftarhóll (Rang.)Ógreind
1943Hvoll (V.-Skaft.)Lasiurus cinereus
1944ReykjavíkMyotis lucifugus
1957BjarnastaðirLasiurus cinereus
1957HeimaeyLasiurus cinereus
1958Meðalland (V.-Skaft.)Ógreind
1964Ragnhildarstaðir (Árn.)Lasiurus cinereus
1967EldeyjartangiÓgreind
1970SurtseyÓgreind
1971SeltjarnarnesPipistellus nathusii
1981ReykjavíkMyotis lucifugus (1)
Myotis keeni septentrionalis (1)
Ógreindar (4)
1985Garður (Gull.)Pipistellus nathusii
2003HeimaeyÓgreindar (2)
Skráðar leðurblökuheimsóknir til Íslands frá árinu 1817 til 2003, að undanskildum árunum 1987-2002.

Tegundin Lasiurus cinereus hefur oftast komið hingað. Á íslensku hefur hún verið nefnd hrímblaka vegna litar feldsins en á ensku kallast hún ‘hoary bat’. Hún á ættir að rekja til Norður-Ameríku og er algengasta tegundin í Bandaríkjunum. Útbreiðsla hrímblökunnar til norðurs nær allt inn í mitt Kanada eða þar sem barrskógarnir enda og túndran tekur við. Hún finnst einnig víða í þéttum skógum Suður-Ameríku og á pampasgraslendinu í Argentínu. Tilvist hennar hefur ekki verið staðfest í Alaska sem er nyrsta fylki Bandaríkjanna. Hún er eina leðurblakan sem finnst á Hawaii-eyjum.

Hrímblakan lifir yfirleitt í skóglendi, helst í skógarjöðrum en hún hefur einnig fundist í þéttum skógum. Hún sefur yfirleitt ein síns liðs í skjóli undir trjákrónum yfir daginn, oftast í 3-5 m hæð, en stundum finnur hún sér svefnstaði undir trjábolum fallinna trjáa eða í holum. Hrímblökurnar eru mest á ferðinni um fimmleytið á morgnana. Á veiðferðum safnast nokkrar saman á flugi og fljúga hægt yfir trjátoppa eða læki og vötn í leit að skordýrum. Líkt aðrar tegundir af undirættbálki Microchiroptera notar hrímblakan bergmálsmiðun við veiðar.

Hrímblaka (Lasiurus cinereus).

Staðfestar komur tegundarinnar Myotis lucifugus eru tvær (1944 og 1981). Þessi tegund hefur verið nefnd ljósfæla á íslensku eða ‘little brown bat’ á ensku. Þær eru að meðaltali um 85-100 mm á lengd og vega um 5,5-9,0 g. Ljósfælur lifa um alla Norður-Ameríku, frá Mexíkó til Alaska og eru afar algengar í Bandaríkjunum.

Snemma á vorin safnast fjölmörg kvendýr saman með unga sína. Karldýr eru afar sjaldgæfir gestir í þessum hópum. Eftir að ungarnir eru vandir af spena leysist sambúið upp og blökur af báðum kynjum safnast saman í hellum áður en þær halda til sumarstöðvanna. Ástæðan fyrir þessari hegðun er ekki kunn.

Kjörlendi ljósfælna á sumrin er við vötn þar sem ákveðnar tegundir skordýra finnast. Þær safnast saman á heitum stöðum þar sem hitinn fer ekki undir 38 °C á daginn. Algengt er að þær myndi slíkar nýlendur í yfirgefnum byggingum, undir brúm eða í hellum. Þær vakna um sólsetur og má þá oft heyra mikið skvaldur og skræki sem dýrin gefa frá sér áður en þau leggja af stað út í rökkrið.

Ljósfælurnar snúa úr veiðiferðum sínum við sólarupprás. Á daginn eru þær í einhvers konar móki og þannig safna þær orku fyrir vetrardvalann. Þá dvelja þær í hellum eða yfirgefnum námum. Velþekkt er að þessi dýr geta náð allt að 30 ára aldri í náttúrunni. Ljósfælurnar eru hluti af fæðukeðjunni enda tiltölulega smávaxin dýr. Helst eru það uglur, haukar, merðir, minkar og jafnvel hlébarðafroskar sem éta ljósfælur.

Þriðja leðurblökutegundin sem komið hefur hingað til lands oftar en einu sinni er svonefnd trítilblaka (Pipistellus nathusii). Ólíkt hinum tegundunum lifir hún austanhafs og aðal heimkynni hennar er austanverð Evrópa, allt austur að Úralfjöllum og Kákasus. Hún er eina evrópska tegundin sem fundist hefur hér á landi.

Trítilblökur sem lifa mjög norðarlega fara suður á bóginn á haustin líkt og farfuglar norðurhjarans. Rannsóknir hafa staðfest að þær fljúga meira en 1000 km leið á hentug svæði til að eyða vetrarmánuðunum.

Fjórða tegundin sem komið hefur hingað er Myotis keeni septentrionalis. Hún barst hingað með skipi árið 1981 ásamt fimm öðrum leðurblökum. Aldrei hafa jafn margar leðurblökur komið hingað í einu. Náttúrleg heimkynni þessarar leðurblöku eru á austurströnd Norður-Ameríku, frá Nýfundnalandi í norðri og suður til Flórída. Þetta er smávaxin tegund, vegur um 6-9 g og er um 7-8 cm á lengd með 23-26 cm vænghaf. Hún finnst í skóglendi, bæði barr- og laufskógum og er virkust við veiðarnar rétt eftir sólsetur og rétt fyrir sólarupprás. Yfirleitt flýgur hún í 1-3 metra hæð yfir tjörnum, lækjum og graslendi í leit að skordýrum.

Heimildir og mynd:
  • Barbour, R. W., og Davis, W. H. Bats of America. Lexington, Kentucky. The University Press of Kentucky. 1969. Bls. 42-54.
  • Shrump, A. og K. Shrump. “Mammalian Species”. The American Society of Mammalogists. 23 nóv. 1982: No. 185.
  • Ævar Petersen. “Leðurblökur á Íslandi”. Náttúrufræðingurinn 64 (1). bls. 3-12. 1994.
  • “Gómuðu leðurblöku í Vestmannaeyjum”. Morgunblaðið 15. maí 2003.
  • Hoary bat Lasiurus cinereus (cropped).jpg - Wikimedia Commons. Höfundur myndar: Paul Cryan, U.S. Geological Survey.

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

12.12.2003

Spyrjandi

Kristján Guðjónsson
Ásgrímur Þ., f. 1985

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Eru leðurblökur á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 12. desember 2003. Sótt 13. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=3914.

Jón Már Halldórsson. (2003, 12. desember). Eru leðurblökur á Íslandi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3914

Jón Már Halldórsson. „Eru leðurblökur á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 12. des. 2003. Vefsíða. 13. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3914>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Eru leðurblökur á Íslandi?
Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:

Eru leðurblökur á Íslandi? Hafa leðurblökur sést eða fundist á Íslandi?
Leðurblökur tilheyra ættbálkinum Chiroptera og skiptast í tvo undirættbálka, annars vegar flughunda eða stórblökur og hins vegar smáblökur sem eru hinar eiginlegu leðurblökur (Microchiroptera). Alls eru þekktar um 1.200 tegundir leðurblakna en það er um fimmtungur allra núlifandi spendýrategunda.

Leðurblökur eru ekki hluti af dýrafánu Íslands en þær flækjast hingað á nokkurra ára fresti, annað hvort með háloftavindum eða með skipum. Þær tegundir sem hafa komið til landsins eru af undirættbálki smáblakna og lifa á skordýrum. Því eru litlar líkur á því að þær geti fest rætur á Íslandi þar sem framboð á fæðu er takmarkað.

Fyrsta staðfesta koma leðurblöku til Íslands var árið 1817 og síðustu dýrin sem komu hingað sáust í Vestmannaeyjum 12. maí 2003. Þar tókst krökkum að handsama aðra leðurblökuna en hin komst undan.

Hér að neðan er listi yfir skráðar leðurblökuheimsóknir til Íslands. Höfundur hefur ekki upplýsingar um árin 1987-2002 en hægt er að leita nánari fregna hjá Náttúrufræðistofnun Íslands þar sem haldin er skrá yfir leðurblökuheimsóknir.

ÁrStaðsetningTegund
1817Dýrafjörður (V-Ís.)Ógreind
1936Álftarhóll (Rang.)Ógreind
1943Hvoll (V.-Skaft.)Lasiurus cinereus
1944ReykjavíkMyotis lucifugus
1957BjarnastaðirLasiurus cinereus
1957HeimaeyLasiurus cinereus
1958Meðalland (V.-Skaft.)Ógreind
1964Ragnhildarstaðir (Árn.)Lasiurus cinereus
1967EldeyjartangiÓgreind
1970SurtseyÓgreind
1971SeltjarnarnesPipistellus nathusii
1981ReykjavíkMyotis lucifugus (1)
Myotis keeni septentrionalis (1)
Ógreindar (4)
1985Garður (Gull.)Pipistellus nathusii
2003HeimaeyÓgreindar (2)
Skráðar leðurblökuheimsóknir til Íslands frá árinu 1817 til 2003, að undanskildum árunum 1987-2002.

Tegundin Lasiurus cinereus hefur oftast komið hingað. Á íslensku hefur hún verið nefnd hrímblaka vegna litar feldsins en á ensku kallast hún ‘hoary bat’. Hún á ættir að rekja til Norður-Ameríku og er algengasta tegundin í Bandaríkjunum. Útbreiðsla hrímblökunnar til norðurs nær allt inn í mitt Kanada eða þar sem barrskógarnir enda og túndran tekur við. Hún finnst einnig víða í þéttum skógum Suður-Ameríku og á pampasgraslendinu í Argentínu. Tilvist hennar hefur ekki verið staðfest í Alaska sem er nyrsta fylki Bandaríkjanna. Hún er eina leðurblakan sem finnst á Hawaii-eyjum.

Hrímblakan lifir yfirleitt í skóglendi, helst í skógarjöðrum en hún hefur einnig fundist í þéttum skógum. Hún sefur yfirleitt ein síns liðs í skjóli undir trjákrónum yfir daginn, oftast í 3-5 m hæð, en stundum finnur hún sér svefnstaði undir trjábolum fallinna trjáa eða í holum. Hrímblökurnar eru mest á ferðinni um fimmleytið á morgnana. Á veiðferðum safnast nokkrar saman á flugi og fljúga hægt yfir trjátoppa eða læki og vötn í leit að skordýrum. Líkt aðrar tegundir af undirættbálki Microchiroptera notar hrímblakan bergmálsmiðun við veiðar.

Hrímblaka (Lasiurus cinereus).

Staðfestar komur tegundarinnar Myotis lucifugus eru tvær (1944 og 1981). Þessi tegund hefur verið nefnd ljósfæla á íslensku eða ‘little brown bat’ á ensku. Þær eru að meðaltali um 85-100 mm á lengd og vega um 5,5-9,0 g. Ljósfælur lifa um alla Norður-Ameríku, frá Mexíkó til Alaska og eru afar algengar í Bandaríkjunum.

Snemma á vorin safnast fjölmörg kvendýr saman með unga sína. Karldýr eru afar sjaldgæfir gestir í þessum hópum. Eftir að ungarnir eru vandir af spena leysist sambúið upp og blökur af báðum kynjum safnast saman í hellum áður en þær halda til sumarstöðvanna. Ástæðan fyrir þessari hegðun er ekki kunn.

Kjörlendi ljósfælna á sumrin er við vötn þar sem ákveðnar tegundir skordýra finnast. Þær safnast saman á heitum stöðum þar sem hitinn fer ekki undir 38 °C á daginn. Algengt er að þær myndi slíkar nýlendur í yfirgefnum byggingum, undir brúm eða í hellum. Þær vakna um sólsetur og má þá oft heyra mikið skvaldur og skræki sem dýrin gefa frá sér áður en þau leggja af stað út í rökkrið.

Ljósfælurnar snúa úr veiðiferðum sínum við sólarupprás. Á daginn eru þær í einhvers konar móki og þannig safna þær orku fyrir vetrardvalann. Þá dvelja þær í hellum eða yfirgefnum námum. Velþekkt er að þessi dýr geta náð allt að 30 ára aldri í náttúrunni. Ljósfælurnar eru hluti af fæðukeðjunni enda tiltölulega smávaxin dýr. Helst eru það uglur, haukar, merðir, minkar og jafnvel hlébarðafroskar sem éta ljósfælur.

Þriðja leðurblökutegundin sem komið hefur hingað til lands oftar en einu sinni er svonefnd trítilblaka (Pipistellus nathusii). Ólíkt hinum tegundunum lifir hún austanhafs og aðal heimkynni hennar er austanverð Evrópa, allt austur að Úralfjöllum og Kákasus. Hún er eina evrópska tegundin sem fundist hefur hér á landi.

Trítilblökur sem lifa mjög norðarlega fara suður á bóginn á haustin líkt og farfuglar norðurhjarans. Rannsóknir hafa staðfest að þær fljúga meira en 1000 km leið á hentug svæði til að eyða vetrarmánuðunum.

Fjórða tegundin sem komið hefur hingað er Myotis keeni septentrionalis. Hún barst hingað með skipi árið 1981 ásamt fimm öðrum leðurblökum. Aldrei hafa jafn margar leðurblökur komið hingað í einu. Náttúrleg heimkynni þessarar leðurblöku eru á austurströnd Norður-Ameríku, frá Nýfundnalandi í norðri og suður til Flórída. Þetta er smávaxin tegund, vegur um 6-9 g og er um 7-8 cm á lengd með 23-26 cm vænghaf. Hún finnst í skóglendi, bæði barr- og laufskógum og er virkust við veiðarnar rétt eftir sólsetur og rétt fyrir sólarupprás. Yfirleitt flýgur hún í 1-3 metra hæð yfir tjörnum, lækjum og graslendi í leit að skordýrum.

Heimildir og mynd:
  • Barbour, R. W., og Davis, W. H. Bats of America. Lexington, Kentucky. The University Press of Kentucky. 1969. Bls. 42-54.
  • Shrump, A. og K. Shrump. “Mammalian Species”. The American Society of Mammalogists. 23 nóv. 1982: No. 185.
  • Ævar Petersen. “Leðurblökur á Íslandi”. Náttúrufræðingurinn 64 (1). bls. 3-12. 1994.
  • “Gómuðu leðurblöku í Vestmannaeyjum”. Morgunblaðið 15. maí 2003.
  • Hoary bat Lasiurus cinereus (cropped).jpg - Wikimedia Commons. Höfundur myndar: Paul Cryan, U.S. Geological Survey.
...