Sólin Sólin Rís 10:49 • sest 15:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:52 • Síðdegis: 19:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:36 • Síðdegis: 13:09 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:49 • sest 15:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:52 • Síðdegis: 19:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:36 • Síðdegis: 13:09 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju hefur ekki verið farið til Júpíters?

Sævar Helgi Bragason

Hér er einnig svarað spurningunni “Af hverju hefur ekki verið lent á Júpíter?”

Nokkur geimför hafa heimsótt Júpíter. Ekkert þeirra hefur þó lent þar því Júpíter er gasrisi og hefur þess vegna ekkert fast yfirborð.

Fyrsta geimfarið sem flaug framhjá Júpíter var Pioneer 10 árið 1973. Það var fyrsta geimfarið sem fór í gegnum smástirnabeltið og í ytra sólkerfið og jafnframt hið fyrsta sem notaði þyngdartog plánetu til að ná lausnarhraða út úr sólkerfinu. Í kjölfar Pioneer 10 fylgdi systurfarið Pioneer 11 sem einnig notaði þyngdartog Júpíters, en aðeins til að ná hraða til Satúrnusar. Hætt var að fylgjast með Pioneer 10 árið 1997 en síðast heyrðust merki frá því í janúar 2003. Það stefnir í átt að stjörnumerkinu Nautinu og kemur til stjörnunnar Aldebaran eftir um tvær milljónir ára en stjarnan er í 70 ljósára fjarlægð frá jörðu. Orka Pioneer 11 þraut árið 1995 svo við getum ekki lengur haft samskipti við það. Pioneer 11 stefnir í átt að Erninum.

Árið 1979 byltu Voyager I og II þekkingu okkar á Júpíter og ytra sólkerfinu. Samanlagt tóku þau meira en 33.000 myndir af Júpíter. Voyager II fylgdi í kjölfar Voyager I, en það var gert ef eitthvað kæmi í veg fyrir að Voyager I gæti rannsakað plánetuna eða ef geimfarið fyndi eitthvað sem verðskuldaði nánari skoðun. Frá Júpíter var báðum förunum beint til Satúrnusar en þaðan fór Voyager I út úr sólkerfinu en Voyager II hélt áfram til Úranusar og Neptúnusar. Voyager I er nú fjær jörðu en nokkurt annað geimfar sem menn hafa smíðað.

Evrópska sólkönnunarfarinu Ódysseifi var komið á loft 1990 frá Discovery-geimferjunni til að framkvæma mælingar á sólinni á braut um pólsvæði hennar. Á ferð sinni að réttri braut um sólu, fór farið framhjá Júpíter og gerði þar ýmsar mælingar í febrúar 1992.

Geimfar kennt við Galíleó var sent til Júpíters þann 18. október árið 1989 frá Atlantis-geimferjunni og bylti það þekkingu okkar á þessari risareikistjörnu og tunglakerfi hennar. Meðal þess sem það uppgötvaði er gríðarsterkt geislabelti yfir skýjatoppi Júpíters, mikla endurmyndun á yfirborði tunglsins Íós vegna eldvirkni og vísbendingar um fljótandi höf undir ísyfirborði Evrópu.

Með í förinni var lítið könnunarfar sem rannsakaði lofthjúp Júpíters, mældi hitastigið, þrýsting, efnasamsetningu, einkenni skýjanna, orkuútgeislun, sólarljós og eldingar. Farið entist í 58 mínútur og komst 200 km inn í lofthjúpinn áður en það kramdist, bráðnaði og/eða gufaði upp vegna þrýstings og hita í lofthjúpnum.

Eftir 13 ár í geimnum og 34 hringi umhverfis Júpíter var slökkt á Galíleó-geimfarinu 28. febrúar 2003. Geimfarið féll síðan inn í lofthjúp Júpíters þann 21. september 2003.

Í desember árið 2000 flaug Cassini-geimfarið framhjá Júpíter en það tók 26.000 stórkostlegar myndir af plánetunni ásamt því að framkvæma mælingar. Cassini er nú á leið til Satúrnusar og mun koma þangað seint á næsta ári, 2004.

Á teikniborði NASA er leiðangur sem kallast JIMO (Jupiter Icy Moons Orbiter) og er áætlað að hann hefjist árið 2011. Leiðangurinn á að kanna þrjú tungl Júpíters, þau Kallistó, Ganýmedes og Evrópu. Hugsanlega eru höf undir ísyfirborði tunglanna. Farið á að fylgja eftir uppgötvunum Galíleó-geimfarsins og rannsaka nákvæmlega byggingu tunglanna, sögu þeirra, hversu oft þau verða fyrir loftsteinum og hvort þar eru lífvænleg skilyrði.

Geimfarið á að byggjast á jónatækni sem fyrst var prófuð í Deep Space 1 geimfarinu og gerir JIMO kleift að komast á braut umhverfis þrjú tungl. Orka geimkönnuða í dag er einungis nægjanleg til að komast á braut um eina reikistjörnu og fljúga framhjá tunglum og öðrum fyrirbærum. Talið er að vél sem byggi á jónatækni muni geta framleitt 100 sinnum meiri orku en sambærilegar vélar í dag.

Höfundur

Sævar Helgi Bragason

stjörnufræðikennari

Útgáfudagur

15.12.2003

Spyrjandi

Jóhann Freyr Hallgrímsson, f. 1989
Auður Elín Finnbogadóttir, f. 1988

Tilvísun

Sævar Helgi Bragason. „Af hverju hefur ekki verið farið til Júpíters?“ Vísindavefurinn, 15. desember 2003, sótt 2. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3917.

Sævar Helgi Bragason. (2003, 15. desember). Af hverju hefur ekki verið farið til Júpíters? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3917

Sævar Helgi Bragason. „Af hverju hefur ekki verið farið til Júpíters?“ Vísindavefurinn. 15. des. 2003. Vefsíða. 2. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3917>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju hefur ekki verið farið til Júpíters?
Hér er einnig svarað spurningunni “Af hverju hefur ekki verið lent á Júpíter?”

Nokkur geimför hafa heimsótt Júpíter. Ekkert þeirra hefur þó lent þar því Júpíter er gasrisi og hefur þess vegna ekkert fast yfirborð.

Fyrsta geimfarið sem flaug framhjá Júpíter var Pioneer 10 árið 1973. Það var fyrsta geimfarið sem fór í gegnum smástirnabeltið og í ytra sólkerfið og jafnframt hið fyrsta sem notaði þyngdartog plánetu til að ná lausnarhraða út úr sólkerfinu. Í kjölfar Pioneer 10 fylgdi systurfarið Pioneer 11 sem einnig notaði þyngdartog Júpíters, en aðeins til að ná hraða til Satúrnusar. Hætt var að fylgjast með Pioneer 10 árið 1997 en síðast heyrðust merki frá því í janúar 2003. Það stefnir í átt að stjörnumerkinu Nautinu og kemur til stjörnunnar Aldebaran eftir um tvær milljónir ára en stjarnan er í 70 ljósára fjarlægð frá jörðu. Orka Pioneer 11 þraut árið 1995 svo við getum ekki lengur haft samskipti við það. Pioneer 11 stefnir í átt að Erninum.

Árið 1979 byltu Voyager I og II þekkingu okkar á Júpíter og ytra sólkerfinu. Samanlagt tóku þau meira en 33.000 myndir af Júpíter. Voyager II fylgdi í kjölfar Voyager I, en það var gert ef eitthvað kæmi í veg fyrir að Voyager I gæti rannsakað plánetuna eða ef geimfarið fyndi eitthvað sem verðskuldaði nánari skoðun. Frá Júpíter var báðum förunum beint til Satúrnusar en þaðan fór Voyager I út úr sólkerfinu en Voyager II hélt áfram til Úranusar og Neptúnusar. Voyager I er nú fjær jörðu en nokkurt annað geimfar sem menn hafa smíðað.

Evrópska sólkönnunarfarinu Ódysseifi var komið á loft 1990 frá Discovery-geimferjunni til að framkvæma mælingar á sólinni á braut um pólsvæði hennar. Á ferð sinni að réttri braut um sólu, fór farið framhjá Júpíter og gerði þar ýmsar mælingar í febrúar 1992.

Geimfar kennt við Galíleó var sent til Júpíters þann 18. október árið 1989 frá Atlantis-geimferjunni og bylti það þekkingu okkar á þessari risareikistjörnu og tunglakerfi hennar. Meðal þess sem það uppgötvaði er gríðarsterkt geislabelti yfir skýjatoppi Júpíters, mikla endurmyndun á yfirborði tunglsins Íós vegna eldvirkni og vísbendingar um fljótandi höf undir ísyfirborði Evrópu.

Með í förinni var lítið könnunarfar sem rannsakaði lofthjúp Júpíters, mældi hitastigið, þrýsting, efnasamsetningu, einkenni skýjanna, orkuútgeislun, sólarljós og eldingar. Farið entist í 58 mínútur og komst 200 km inn í lofthjúpinn áður en það kramdist, bráðnaði og/eða gufaði upp vegna þrýstings og hita í lofthjúpnum.

Eftir 13 ár í geimnum og 34 hringi umhverfis Júpíter var slökkt á Galíleó-geimfarinu 28. febrúar 2003. Geimfarið féll síðan inn í lofthjúp Júpíters þann 21. september 2003.

Í desember árið 2000 flaug Cassini-geimfarið framhjá Júpíter en það tók 26.000 stórkostlegar myndir af plánetunni ásamt því að framkvæma mælingar. Cassini er nú á leið til Satúrnusar og mun koma þangað seint á næsta ári, 2004.

Á teikniborði NASA er leiðangur sem kallast JIMO (Jupiter Icy Moons Orbiter) og er áætlað að hann hefjist árið 2011. Leiðangurinn á að kanna þrjú tungl Júpíters, þau Kallistó, Ganýmedes og Evrópu. Hugsanlega eru höf undir ísyfirborði tunglanna. Farið á að fylgja eftir uppgötvunum Galíleó-geimfarsins og rannsaka nákvæmlega byggingu tunglanna, sögu þeirra, hversu oft þau verða fyrir loftsteinum og hvort þar eru lífvænleg skilyrði.

Geimfarið á að byggjast á jónatækni sem fyrst var prófuð í Deep Space 1 geimfarinu og gerir JIMO kleift að komast á braut umhverfis þrjú tungl. Orka geimkönnuða í dag er einungis nægjanleg til að komast á braut um eina reikistjörnu og fljúga framhjá tunglum og öðrum fyrirbærum. Talið er að vél sem byggi á jónatækni muni geta framleitt 100 sinnum meiri orku en sambærilegar vélar í dag.

...