Hvað er gert í járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga? Hvað er járnblendi, til hvers er það notað og hvernig er það framleitt?Í járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga er framleitt kísiljárn (e. ferrosilicon). Meginafurðin er svokallað 75% kísiljárn, táknað FeSi75, sem inniheldur um 76% kísil (Si) og 22% járn (Fe), en afgangurinn er ál (Al), kalsín (kalsíum; Ca) og ýmis snefilefni. Kísiljárn er notað í járn- og stálframleiðslu. Notkunarsviðið er tvenns konar. Í fyrsta lagi er kísiljárn notað sem afoxunarefni í stálframleiðslu, það er að segja efni sem tekur til sín súrefni, bindur það og flytur með sér burt úr hráefninu. Við stálframleiðslu er súrefni blásið í gegnum fljótandi járnbaðið til að brenna kolefni úr og breyta þannig járni í stál. Eftir þessa aðgerð er stálbaðið mettað súrefni og því súrefni þarf að ná út. Það er gert með því að setja kísiljárnmola út í baðið. Kísillinn gengur í efnasamband við súrefnið og úr verður sori sem skilinn er frá áður en lengra er haldið. Í öðru lagi er kísiljárn notað sem íblöndunarefni í járn og stál. Þá kallar kísill fram eiginleika sem sóst er eftir. Þannig eykur kísillinn hörkuna og breytir rafeiginleikum. Kísilmagnið í stálinu er frá 0% til 0,5% eftir því í hvað á að nota það. Að jafnaði er enn hærra kísiljárnhlutfall í járnsteypum (svokölluðum potti) eða allt að 1,5%. Að meðaltali eru notuð um þrjú kíló af kísiljárni á hvert tonn af stáli sem framleitt er í heiminum. Þannig má líkja notkun kísiljárns í járni og stáli við krydd í matargerð.
Hvað er járnblendi og hvernig er það framleitt?
Útgáfudagur
19.12.2003
Spyrjandi
Ragnar Bjarnason
Tilvísun
Jón Hálfdanarson. „Hvað er járnblendi og hvernig er það framleitt?“ Vísindavefurinn, 19. desember 2003, sótt 13. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3924.
Jón Hálfdanarson. (2003, 19. desember). Hvað er járnblendi og hvernig er það framleitt? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3924
Jón Hálfdanarson. „Hvað er járnblendi og hvernig er það framleitt?“ Vísindavefurinn. 19. des. 2003. Vefsíða. 13. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3924>.