Það er einmitt halinn á halastjörnunum sem gerir þær að einstæðum fyrirbærum sem hafa vakið athygli manna frá örófi alda. Hann getur orðið milljónir og jafnvel hundruð milljóna kílómetra á lengd. Séð frá jörðinni getur hann myndað slæðu sem nær yfir mikinn hluta himinsins, en er þó svo þunn að fjarlægar stjörnur skína nær ótruflaðar gegnum hana. Myndin til hægri í svarinu sýnir þetta glöggt en hún er af halastjörnunni Hyakutake sem var á lofti á útmánuðum 1996. Myndin til vinstri sýnir á hinn bóginn hvernig halinn lengist þegar halastjarnan kemur nær sólu og geislunarþrýstingurinn frá sól eykst. Í sólkerfinu eru taldar vera meira en 100.000 halastjörnur. Hver þeirra um sig er á braut um sól og margar halastjörnur koma í grennd við hana aftur og aftur. Ýmsar þeirra hafa langan umferðartíma, jafnvel þúsundir ára, og líður sá tími þá milli þess sem þær sjást. Brautir þessara halastjarna eru afar langir og mjóir sporbaugar sem ná jafnvel út á ystu mörk sólkerfisins. Halastjörnur með stuttan umferðartíma gera hins vegar vart við sig á nokkurra ára eða áratuga fresti. Sú frægasta af þessum halastjörnum er kennd við enska stjörnufræðinginn Edmond Halley (1656–1742). Hún kemur í grennd við sól á 75–79 ára fresti. Halley var að sjálfsögðu ekki fyrstur til að sjá þessa halastjörnu því að hún fer ekki fram hjá neinum sem lítur til himins þegar hún er á ferð. Hins vegar varð hann fyrstur til að gera sér ljóst að þarna var sami gesturinn hvað eftir annað og hann sagði fyrir um að hún mundi næst verða á ferðinni árið 1759. Halastjarna Halleys hefur heimsótt okkur með reglubundnum hætti æ síðan, nú síðast árið 1986. Næst er von á henni um 2062. Ýmsar geimrannsóknarstöðvar í mörgum löndum sendu geimför til að rannsaka halastjörnu Halleys árið 1986 og þær rannsóknir hafa bætt við þekkingu okkar á þessum furðulegu fyrirbærum himinsins. Halastjarnan Hale-Bopp var næst sólu á árinu 1997 og bar þá mikið á henni á himninum. Halastjörnur sem eru sýnilegar berum augum eru ekki sjaldgæfari en svo að þær ber fyrir augu á um það bil 5 ára fresti að meðaltali. Halastjörnur hafa mjög komið við sögu hugmynda og vísinda. Þrátt fyrir fegurð sína hafa þær vakið mönnum ógn eins og svo margt annað sem var óvænt og menn skildu ekki. Samkvæmt hugmyndum fyrri alda gat ekki verið að halastjörnur tilheyrðu ríki óbreytanleikans á himnum þar sem þær komu og fóru algerlega án reglu að því er virtist. Menn drógu því þá ályktun að halastjörnur tilheyrðu jarðríki og væru nær okkur en tunglið. Menn urðu síðan að falla frá þessum hugmyndum þegar danski stjörnufræðingurinn Tycho Brahe (1546–1601) sýndi fram á með athugunum að halastjörnur væru handan tunglsins.
Hvaða halastjarna er með lengstan hala?
Það er einmitt halinn á halastjörnunum sem gerir þær að einstæðum fyrirbærum sem hafa vakið athygli manna frá örófi alda. Hann getur orðið milljónir og jafnvel hundruð milljóna kílómetra á lengd. Séð frá jörðinni getur hann myndað slæðu sem nær yfir mikinn hluta himinsins, en er þó svo þunn að fjarlægar stjörnur skína nær ótruflaðar gegnum hana. Myndin til hægri í svarinu sýnir þetta glöggt en hún er af halastjörnunni Hyakutake sem var á lofti á útmánuðum 1996. Myndin til vinstri sýnir á hinn bóginn hvernig halinn lengist þegar halastjarnan kemur nær sólu og geislunarþrýstingurinn frá sól eykst. Í sólkerfinu eru taldar vera meira en 100.000 halastjörnur. Hver þeirra um sig er á braut um sól og margar halastjörnur koma í grennd við hana aftur og aftur. Ýmsar þeirra hafa langan umferðartíma, jafnvel þúsundir ára, og líður sá tími þá milli þess sem þær sjást. Brautir þessara halastjarna eru afar langir og mjóir sporbaugar sem ná jafnvel út á ystu mörk sólkerfisins. Halastjörnur með stuttan umferðartíma gera hins vegar vart við sig á nokkurra ára eða áratuga fresti. Sú frægasta af þessum halastjörnum er kennd við enska stjörnufræðinginn Edmond Halley (1656–1742). Hún kemur í grennd við sól á 75–79 ára fresti. Halley var að sjálfsögðu ekki fyrstur til að sjá þessa halastjörnu því að hún fer ekki fram hjá neinum sem lítur til himins þegar hún er á ferð. Hins vegar varð hann fyrstur til að gera sér ljóst að þarna var sami gesturinn hvað eftir annað og hann sagði fyrir um að hún mundi næst verða á ferðinni árið 1759. Halastjarna Halleys hefur heimsótt okkur með reglubundnum hætti æ síðan, nú síðast árið 1986. Næst er von á henni um 2062. Ýmsar geimrannsóknarstöðvar í mörgum löndum sendu geimför til að rannsaka halastjörnu Halleys árið 1986 og þær rannsóknir hafa bætt við þekkingu okkar á þessum furðulegu fyrirbærum himinsins. Halastjarnan Hale-Bopp var næst sólu á árinu 1997 og bar þá mikið á henni á himninum. Halastjörnur sem eru sýnilegar berum augum eru ekki sjaldgæfari en svo að þær ber fyrir augu á um það bil 5 ára fresti að meðaltali. Halastjörnur hafa mjög komið við sögu hugmynda og vísinda. Þrátt fyrir fegurð sína hafa þær vakið mönnum ógn eins og svo margt annað sem var óvænt og menn skildu ekki. Samkvæmt hugmyndum fyrri alda gat ekki verið að halastjörnur tilheyrðu ríki óbreytanleikans á himnum þar sem þær komu og fóru algerlega án reglu að því er virtist. Menn drógu því þá ályktun að halastjörnur tilheyrðu jarðríki og væru nær okkur en tunglið. Menn urðu síðan að falla frá þessum hugmyndum þegar danski stjörnufræðingurinn Tycho Brahe (1546–1601) sýndi fram á með athugunum að halastjörnur væru handan tunglsins.
Útgáfudagur
3.5.2000
Spyrjandi
Nína Guðrún Baldursdóttir, 10 ára
Tilvísun
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvaða halastjarna er með lengstan hala?“ Vísindavefurinn, 3. maí 2000, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=393.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2000, 3. maí). Hvaða halastjarna er með lengstan hala? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=393
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvaða halastjarna er með lengstan hala?“ Vísindavefurinn. 3. maí. 2000. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=393>.