Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:16 • Sest 01:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:14 • Síðdegis: 12:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:10 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:16 • Sest 01:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:14 • Síðdegis: 12:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:10 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er vitað hvers vegna svo kallað déjà vu á sér stað?

Jón Gunnar Þorsteinsson

Déjà vu er upprunalega franska og merkir bókstaflega 'þegar séð'. Í flestum sálfræðihandbókum er lítið sem ekkert fjallað um fyrirbærið og helst virðist vera byggt á bók Graham Reed, The Psychology of Anomalous Experience: A Cognitive Approach, Hutchinson University Library, London, 1972.

Déjà vu nefnist það þegar okkur finnst við hafa upplifað eða séð eitthvað áður, en um leið er eins og upplifunin sé ný. Déjà vu truflar þess vegna veruleikaskynjunina, okkur finnst að skynjun á einhverju fyrirbæri eða aðstæðum sé bæði ný og gömul.

Sumir flogaveikisjúklingar virðast upplifa déjà vu oftar en aðrir menn og stundum getur slíkt ástand varað í nokkrar klukkustundir eða sólarhringa. Hjá flestum öðrum varir þetta hins vegar aðeins í nokkrar sekúndur eða mínútur.

Skýringar Reeds á déjà vu eru eftirfarandi: Þegar við upplifum einhverjar nýjar aðstæður eins og við höfum lent í þeim áður, erum við hugsanlega að upplifa sams konar tilfinningaleg viðbrögð við ólíkum aðstæðum. Það eru þess vegna tilfinningalegu viðbrögðin sem eru af sama toga en ekki endilega aðstæðurnar. En vegna endurupprifjunar á tilfinningunni er eins og skynjunin á umhverfinu sé hin sama.

Hin skýringin á déjà vu er sú að þegar við upplifum eitthvað nýtt eins og það sé kunnuglegt sé það í raun og veru svo. Við höfum lent í sams konar aðstæðum áður en náum ekki að rifja þær nákvæmlega upp vegna þess að upplifunin er einhverra hluta vegna bæld niður, ef til vill vegna þess að hún tengist óþægilegum tilfinningum. Þess vegna finnst okkur að upplifunin sé bæði ný og kunnugleg.



Stafræn mynd af sýndarveruleikanum úr myndinni Fylkið sem minnst er á í svarinu.

Sýnt hefur verið fram á að hægt sé að ná fram áhrifum déjà vu með dáleiðslu. Ef manni í dáleiðsluástandi er sýnd mynd sem hann er síðan beðinn um að gleyma, finnst honum myndin vera einkennilega kunnugleg þegar hann sér hana aftur eftir að hann hefur verið vakinn.

Í heimsbókmenntunum eru til þekkt dæmi um eins konar déjà vu. Fyrsta bindi stórvirkisins Í leit að glötuðum tíma eftir franska rithöfundinn Marcel Proust (1871-1922) nefnist Leiðin til Swann. Þar er frægur kafli þar sem sem bragð af magdalenusmákökum veldur fyrst eins konar déjà vu og nær síðan að vekja upp horfinn heim í huga söguhetjunnar. Minningar æskunnar sem hafa glatast rifjast upp þegar söguhetjan bragðar á kökunum sem hann hafði borðað í æsku og lyktar- og bragðskynið eru þannig hornsteinar minnisins:
En þegar fortíðin er liðin undir lok með manni og mús standa lykt og bragð eftir, pastursminni en lífsseigari, loftkenndari, staðfastari, trúrri - um langa hríð halda þau áfram eins og sálir að rifja upp, bíða, vona, á rústum alls hins liðna, að bera uppi án þess að kikna, í allri sinni smæð, hina risavöxnu byggingu minnisins. (Þýð. Pétur Gunnarsson, Leiðin til Swann, bls. 61.)
Ef við setjum þetta í samhengi við kenningar Reeds þá er útfærsla á Proust á déjà vu af seinni gerðinni, það er að segja ástandið vísar til raunverulegra minninga og atburða.

Þekkt kenning gríska heimspekingsins Platons um endurminningu er af líkum toga og upprifjun Proust, nema hvað þar er því haldið fram að það sem við rifjum upp sé ekki nærri gleymdar minningar úr þessu lífi heldur úr öðru og fyrra lífi. Að lifa og læra verður þess vegna upprifjun á fyrra lífi. Kenning Platons um endurminningu nefnist á grísku anamnesis og er ein af rökum Sókratesar fyrir ódauðleika sálarinnar. Hægt er að lesa um hana í Síðustu dögum Sókratesar.

Í lokin er rétt að minna á enn eina skáldlega kenningu um déjà vu. Í myndinni Fylkið (The Matrix, 1999) verður aðalpersónan Neó fyrir déjà vu þegar hann sér sama svarta köttinn tvisvar í röð með örstuttu millibili. Í sýndarheiminum sem Neó og félagar hans eru staddir í, er déjà vu vísbending um að þeir sem skapa heiminn séu að breyta einhverju. Það koma hnökrar á kerfið sem lýsa sér í því að eitthvað gerist aftur nákvæmlega eins og áður.

Hægt er að lesa meira um minni og minningar í ítarlegu svari Jörgens Pind við spurningunni Hvernig fer heilinn í okkur að því að muna?

Heimildir og mynd:
  • Encyclopædia Britannica
  • Platón, Síðustu dagar Sókratesar (þýð. Sigurður Nordal og Þorsteinn Gylfason), Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík, 1990.
  • Proust, Marcel, Í leit að glötuðum tíma: Leiðin til Swann I (þýð. Pétur Gunnarsson), Bjartur, Reykjavík, 1997.
  • Harré, Rom og Lamb, Roger (ritstj.), The Encyclopedic Dictionary of Psychology, Blackwell, Oxford, 1983.
  • The Matrix Revolutions

Höfundur

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Útgáfudagur

13.1.2004

Spyrjandi

Einar Óli Guðmundsson, f. 1986
Þórdís Claeessen
Þorsteinn Hilmarsson og fleiri

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Er vitað hvers vegna svo kallað déjà vu á sér stað?“ Vísindavefurinn, 13. janúar 2004, sótt 9. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3947.

Jón Gunnar Þorsteinsson. (2004, 13. janúar). Er vitað hvers vegna svo kallað déjà vu á sér stað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3947

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Er vitað hvers vegna svo kallað déjà vu á sér stað?“ Vísindavefurinn. 13. jan. 2004. Vefsíða. 9. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3947>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er vitað hvers vegna svo kallað déjà vu á sér stað?
Déjà vu er upprunalega franska og merkir bókstaflega 'þegar séð'. Í flestum sálfræðihandbókum er lítið sem ekkert fjallað um fyrirbærið og helst virðist vera byggt á bók Graham Reed, The Psychology of Anomalous Experience: A Cognitive Approach, Hutchinson University Library, London, 1972.

Déjà vu nefnist það þegar okkur finnst við hafa upplifað eða séð eitthvað áður, en um leið er eins og upplifunin sé ný. Déjà vu truflar þess vegna veruleikaskynjunina, okkur finnst að skynjun á einhverju fyrirbæri eða aðstæðum sé bæði ný og gömul.

Sumir flogaveikisjúklingar virðast upplifa déjà vu oftar en aðrir menn og stundum getur slíkt ástand varað í nokkrar klukkustundir eða sólarhringa. Hjá flestum öðrum varir þetta hins vegar aðeins í nokkrar sekúndur eða mínútur.

Skýringar Reeds á déjà vu eru eftirfarandi: Þegar við upplifum einhverjar nýjar aðstæður eins og við höfum lent í þeim áður, erum við hugsanlega að upplifa sams konar tilfinningaleg viðbrögð við ólíkum aðstæðum. Það eru þess vegna tilfinningalegu viðbrögðin sem eru af sama toga en ekki endilega aðstæðurnar. En vegna endurupprifjunar á tilfinningunni er eins og skynjunin á umhverfinu sé hin sama.

Hin skýringin á déjà vu er sú að þegar við upplifum eitthvað nýtt eins og það sé kunnuglegt sé það í raun og veru svo. Við höfum lent í sams konar aðstæðum áður en náum ekki að rifja þær nákvæmlega upp vegna þess að upplifunin er einhverra hluta vegna bæld niður, ef til vill vegna þess að hún tengist óþægilegum tilfinningum. Þess vegna finnst okkur að upplifunin sé bæði ný og kunnugleg.



Stafræn mynd af sýndarveruleikanum úr myndinni Fylkið sem minnst er á í svarinu.

Sýnt hefur verið fram á að hægt sé að ná fram áhrifum déjà vu með dáleiðslu. Ef manni í dáleiðsluástandi er sýnd mynd sem hann er síðan beðinn um að gleyma, finnst honum myndin vera einkennilega kunnugleg þegar hann sér hana aftur eftir að hann hefur verið vakinn.

Í heimsbókmenntunum eru til þekkt dæmi um eins konar déjà vu. Fyrsta bindi stórvirkisins Í leit að glötuðum tíma eftir franska rithöfundinn Marcel Proust (1871-1922) nefnist Leiðin til Swann. Þar er frægur kafli þar sem sem bragð af magdalenusmákökum veldur fyrst eins konar déjà vu og nær síðan að vekja upp horfinn heim í huga söguhetjunnar. Minningar æskunnar sem hafa glatast rifjast upp þegar söguhetjan bragðar á kökunum sem hann hafði borðað í æsku og lyktar- og bragðskynið eru þannig hornsteinar minnisins:
En þegar fortíðin er liðin undir lok með manni og mús standa lykt og bragð eftir, pastursminni en lífsseigari, loftkenndari, staðfastari, trúrri - um langa hríð halda þau áfram eins og sálir að rifja upp, bíða, vona, á rústum alls hins liðna, að bera uppi án þess að kikna, í allri sinni smæð, hina risavöxnu byggingu minnisins. (Þýð. Pétur Gunnarsson, Leiðin til Swann, bls. 61.)
Ef við setjum þetta í samhengi við kenningar Reeds þá er útfærsla á Proust á déjà vu af seinni gerðinni, það er að segja ástandið vísar til raunverulegra minninga og atburða.

Þekkt kenning gríska heimspekingsins Platons um endurminningu er af líkum toga og upprifjun Proust, nema hvað þar er því haldið fram að það sem við rifjum upp sé ekki nærri gleymdar minningar úr þessu lífi heldur úr öðru og fyrra lífi. Að lifa og læra verður þess vegna upprifjun á fyrra lífi. Kenning Platons um endurminningu nefnist á grísku anamnesis og er ein af rökum Sókratesar fyrir ódauðleika sálarinnar. Hægt er að lesa um hana í Síðustu dögum Sókratesar.

Í lokin er rétt að minna á enn eina skáldlega kenningu um déjà vu. Í myndinni Fylkið (The Matrix, 1999) verður aðalpersónan Neó fyrir déjà vu þegar hann sér sama svarta köttinn tvisvar í röð með örstuttu millibili. Í sýndarheiminum sem Neó og félagar hans eru staddir í, er déjà vu vísbending um að þeir sem skapa heiminn séu að breyta einhverju. Það koma hnökrar á kerfið sem lýsa sér í því að eitthvað gerist aftur nákvæmlega eins og áður.

Hægt er að lesa meira um minni og minningar í ítarlegu svari Jörgens Pind við spurningunni Hvernig fer heilinn í okkur að því að muna?

Heimildir og mynd:
  • Encyclopædia Britannica
  • Platón, Síðustu dagar Sókratesar (þýð. Sigurður Nordal og Þorsteinn Gylfason), Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík, 1990.
  • Proust, Marcel, Í leit að glötuðum tíma: Leiðin til Swann I (þýð. Pétur Gunnarsson), Bjartur, Reykjavík, 1997.
  • Harré, Rom og Lamb, Roger (ritstj.), The Encyclopedic Dictionary of Psychology, Blackwell, Oxford, 1983.
  • The Matrix Revolutions
...