Hvers vegna er það að að ég get horft á dulstirni sem eru í sitt hvora áttina frá jörðinni, það er að segja að jörðin og dulstirnin tvö mynda "beina" sjónlínu. Það sem ég á við er að þá erum við að horfa langt út í geim og að sama skapi langt aftur í tímann þegar heimurinn var lítill samkvæmt Miklahvelli Hvernig má það vera að manni virðst maður vera að horfa það langt út og það langt aftur að vegalengdin milli dulstirnanna er lengri en radíus alheimsins á þeim tíma sem að þau eru þegar að maður sér þau?Svarið er að dulstirnin sýnast einmitt vera í þeirri fjarlægð frá okkur og hvort frá öðru sem við átti þegar ljósið frá þeim lagði af stað til okkar. Þetta leiðir ekki til neinna mótsagna eða erfiðleika ef þess er gætt að hafa útþenslu alheimsins ríkt í huga. Lykillinn að þessu er sem sé útþensla alheimsins, en hennar varð fyrst vart í mælingum árið 1929. Útþenslan og afleiðingar hennar hafa verið kortlagðar gaumgæfilega síðan, nú síðast með ítarlegum mælingum úr sérhönnuðum gervitunglum á liðnum áratug. Útþensla alheimsins er með þeim hætti að sérhver tvö dulstirni eru að fjarlægjast hvort annað og þeim mun hraðar sem fjarlægðin milli þeirra er meiri. Mælingar hafa nefnilega sýnt að tvöfaldist fjarlægðin á milli þeirra þá tvöfaldast einnig hraðinn sem þau fjarlægjast hvort annað með. Ef hraðinn nálgast ljóshraðann getur þó þurft að taka tillit til þess, hvernig hraðar leggjast saman samkvæmt afstæðiskenningunni, samanber svar Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Er ekki hægt að komast hraðar en ljósið með því að leggja einn hraða við annan? Þó svo að dulstirnin hafi kannski verið tiltölega nærri hvort öðru í árdaga, þá hefur fjarlægðin á milli þeirra aukist mikið síðan. Þá er einnig þess að geta að þó hraði ljóssins sé mikill þá er hann endanlegur og ljósið er jafnvel marga milljarða ára að berast til okkar frá fjarlægum dulstirnum. Þetta þýðir jafnframt að sú mynd sem við fáum af dulstirnum í dag er orðin milljarða ára gömul og dulstirnin hafa raunar fjarlægst hvort annað enn meira en það sem við skynjum nú. Það má því segja að raunveruleg fjarlægð á milli dulstirnanna nú sé mun meiri en sú sem við mælum, og jafnvel meiri en þvermál hins sýnilega heims eins og hann birtist okkur nú. Þvermál hins raunverulega alheims er mun meira en þvermál hins sýnilega alheims, en eins og nú ætti að vera ljóst þá ákvarðast þvermál hins sýnilega heims af ljóshraðanum og aldri alheimsins. Þessar stærðir hafa hins vegar lítið með raunverulega stærð alheimsins að gera. Tenglar: http://www.astro.ucla.edu/~wright/cosmolog.htm http://www.damtp.cam.ac.uk/user/gr/public/cos_home.html " target="_blank">http://hubble.stsci.edu/sci.d.tech/discoveries/10th/
Hvers vegna sýnast gagnstæð dulstirni langt í burtu þótt þau hafi verið nálægt hvort öðru skömmu eftir Miklahvell þegar þau sendu ljós til mín?
Útgáfudagur
4.5.2000
Spyrjandi
ritstjórn, Gulli
Tilvísun
Gunnlaugur Björnsson. „Hvers vegna sýnast gagnstæð dulstirni langt í burtu þótt þau hafi verið nálægt hvort öðru skömmu eftir Miklahvell þegar þau sendu ljós til mín?“ Vísindavefurinn, 4. maí 2000, sótt 14. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=395.
Gunnlaugur Björnsson. (2000, 4. maí). Hvers vegna sýnast gagnstæð dulstirni langt í burtu þótt þau hafi verið nálægt hvort öðru skömmu eftir Miklahvell þegar þau sendu ljós til mín? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=395
Gunnlaugur Björnsson. „Hvers vegna sýnast gagnstæð dulstirni langt í burtu þótt þau hafi verið nálægt hvort öðru skömmu eftir Miklahvell þegar þau sendu ljós til mín?“ Vísindavefurinn. 4. maí. 2000. Vefsíða. 14. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=395>.