Jón skreiddist skjótt skráveifa hljótt kamarsaugað út við ærna sút.Upprunaleg merking orðsins er óviss en í síðari alda máli er merkingin 'hrekkur, grikkur; tjón' en einnig 'fuglahræða' og niðrandi 'hugleysingi, rola'. Orðtakið að gera einhverjum skráveifu er þekkt frá 17. öld. Það er notað um að 'gera e-m grikk'. Elstu dæmi benda til þess að skráveifa hafi tengst galdramáli. Til þess benda þessar hendingar úr Bellerofontisrímum frá 18. öld: „gjörði skráveif dækja dimm / djöflaganginn kunni.“ Orðið skrá merkir í fornu máli 'skinn' og veifa er sama orð og sögnin veifa 'sveifla'. Skráveifa var þá líklega upprunalega 'sá sem veifaði skinni'. Svo virðist sem skinni hafi verið veifað við galdraathafnir. Til þess bendir til dæmis orðasambandið veifa héðni um höfuð einhverjum, sem merkir það sama og að gera einhverjum skráveifu en héðinn merkti 'geitarskinn, skinnúlpa'. Galdraathafnir voru oft notaðar til þess að gera einhverjum hrekk.
Útgáfudagur
19.1.2004
Spyrjandi
Sveinn Arnarsson
Tilvísun
Guðrún Kvaran. „Hver er uppruni orðatiltækisins að "gera einhverjum skráveifu"?“ Vísindavefurinn, 19. janúar 2004, sótt 10. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3955.
Guðrún Kvaran. (2004, 19. janúar). Hver er uppruni orðatiltækisins að "gera einhverjum skráveifu"? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3955
Guðrún Kvaran. „Hver er uppruni orðatiltækisins að "gera einhverjum skráveifu"?“ Vísindavefurinn. 19. jan. 2004. Vefsíða. 10. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3955>.