Sólin Sólin Rís 03:05 • sest 23:50 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 03:00 • Sest 10:08 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:31 • Síðdegis: 23:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:25 • Síðdegis: 16:32 í Reykjavík

Er rangt að tala um að opna eða loka hurð?

Jón Gunnar Þorsteinsson

Í málsfarsbanka Íslenskrar málstöðvar segir þetta um orðin dyr og hurð:
Orðið dyr merkir op eða inngangur, t.d. inn í hús, herbergi eða bíl. Hurð er hins vegar einhvers konar fleki sem nota má til að loka opinu, innganginum.
Við þetta er síðan bætt athugasemd um æskilegt málfar:
Því er eðlilegt að tala um að opna og loka dyrunum sem maður fer inn um (eins og talað er um að opna og loka gati eða opi). Síður skyldi segja: "opna hurðina, loka hurðinni."
Ástæðan fyrir þessari orðanotkun er sú að það er rökréttara að opna/loka dyrum heldur en að opna/loka hurð. Fáir flaska líklega á sambærilegri orðanotkun um líkama sinn. Við opnum til að mynda augun og lokum munninum. Enginn reynir að opna varirnar né loka augnlokunum. En af hverju eru þá margir í vandræðum með orðalag um dyr og hurð?

Sennilega er ástæðan sú að ýmislegt í orðfæri okkar um þá hluti og aðra tengda er alls ekki rökrétt og þess vegna eigum við erfitt með að sætta okkur við að ekki megi loka hurðum af þeirri ástæðu einni að það sé rökleysa.

Fyrsta dæmið um þetta er orðalag um glugga. Orðið gluggi merkir það sama og dyr, það er op á húsi, bíl eða öðru. Gluggarnir eru oftast með einhverju gagnsæju efni í eins og gleri og stundum eru þeir með opnanlegu fagi. Orðið gluggi samsvarar þess vegna dyrum, það er op sem oft er hægt að opna og loka. En stundum notum við orðið gluggi í sömu merkingu og orðið hurð, til dæmis þegar við segjumst ætla að taka gluggann af hjörunum. Þá einfaldlega fjarlægjum við umbúnaðinn sem er fyrir gluggaopinu og höldum þá á tréramma með gleri í sem við köllum sama nafni og opið sem tréramminn lokaði, það er að segja glugga.Málverk eftir belgíska súrrealistann René Magritte (1898-1967). Í gegnum opinn glugga sést í annað hús þar sem dyrnar eru lokaðar.

Ýmis föst orðasambönd um dyr sem flestir kannast við eru alls ekki rökleg ef við höfum muninn á dyrum og hurðum í huga. Ef dyr eru raunverulega inngangur eða op þá hlýtur eitthvað að vera bogið við það þegar við ‘drepum á dyr’, ‘kveðjum dyra’ eða ‘berjum að dyrum.’ Öll merkja þessi orðasambönd að slá með hendinni á hurðina, enda yrði seint opnað fyrir þeim sem drepur á dyr í merkingunni í að berja í op eða gat.

Þar sem ekki er dyrabjalla er stundum svonefndur dyrahamar en hann notum við engu að síður til að slá á hurðina. Ekki er víst að alltaf hafi verið gerður greinarmunur á hugtökunum hurð og dyr. Í 35. kafla Laxdæla sögu segir þetta: „Auður gekk að dyrum og var opin hurð.“ Í þriðju útgáfu Íslenskrar orðabókar segir við uppflettiorðið ‘hurð’ loka hurðinni.

Ef rökvísin ein réði því hvernig við tölum, myndum við ‘drepa á hurð’ og ‘berja að hurðum’ en hér hefur sitt að segja hljómfall tungumálsins, vegna stuðla er fallegra að ‘drepa á dyr’. Það er þess vegna fullkomlega eðlilegt að margir eigi erfitt með að sætta sig við að ekki eigi að loka eða opna hurðum af þeirri ástæðu að það sé ekki röklegt.

Þegar við notum þessi föstu orðasambönd erum við í raun að beita svonefndum nafnskiptum (e. metonymy) en það merkir að eitt orð er sett í stað annars orðs sem hefur skylda merkingu. Dæmi um þetta væri setningin ‘hún þýddi Halldór Laxness’ þegar við er átt að ‘hún hafi þýtt verk skáldsins’, eða ‘ hann drakk heila flösku á Mímisbar’ þegar sá hinn sami ‘drakk innihald flöskunnar á barnum’.

Þegar við opnum og lokum hurðum beitum við þess vegna nafnskiptum af sama toga og í fasta orðasambandinu ‘að drepa á dyr’. Orðið hurð kemur í stað dyra. Í sjálfu sér er þess vegna ekkert rangt við það að opna eða loka hurðum alveg eins og það er ekkert rangt við það að ‘drepa á dyr’.

Mynd: Représentations de maisons vues par des peintres de diverses époques et écoles

Höfundur

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Útgáfudagur

29.1.2004

Spyrjandi

Anton Albert, f. 1987

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Er rangt að tala um að opna eða loka hurð?“ Vísindavefurinn, 29. janúar 2004. Sótt 9. júní 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=3973.

Jón Gunnar Þorsteinsson. (2004, 29. janúar). Er rangt að tala um að opna eða loka hurð? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3973

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Er rangt að tala um að opna eða loka hurð?“ Vísindavefurinn. 29. jan. 2004. Vefsíða. 9. jún. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3973>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er rangt að tala um að opna eða loka hurð?
Í málsfarsbanka Íslenskrar málstöðvar segir þetta um orðin dyr og hurð:

Orðið dyr merkir op eða inngangur, t.d. inn í hús, herbergi eða bíl. Hurð er hins vegar einhvers konar fleki sem nota má til að loka opinu, innganginum.
Við þetta er síðan bætt athugasemd um æskilegt málfar:
Því er eðlilegt að tala um að opna og loka dyrunum sem maður fer inn um (eins og talað er um að opna og loka gati eða opi). Síður skyldi segja: "opna hurðina, loka hurðinni."
Ástæðan fyrir þessari orðanotkun er sú að það er rökréttara að opna/loka dyrum heldur en að opna/loka hurð. Fáir flaska líklega á sambærilegri orðanotkun um líkama sinn. Við opnum til að mynda augun og lokum munninum. Enginn reynir að opna varirnar né loka augnlokunum. En af hverju eru þá margir í vandræðum með orðalag um dyr og hurð?

Sennilega er ástæðan sú að ýmislegt í orðfæri okkar um þá hluti og aðra tengda er alls ekki rökrétt og þess vegna eigum við erfitt með að sætta okkur við að ekki megi loka hurðum af þeirri ástæðu einni að það sé rökleysa.

Fyrsta dæmið um þetta er orðalag um glugga. Orðið gluggi merkir það sama og dyr, það er op á húsi, bíl eða öðru. Gluggarnir eru oftast með einhverju gagnsæju efni í eins og gleri og stundum eru þeir með opnanlegu fagi. Orðið gluggi samsvarar þess vegna dyrum, það er op sem oft er hægt að opna og loka. En stundum notum við orðið gluggi í sömu merkingu og orðið hurð, til dæmis þegar við segjumst ætla að taka gluggann af hjörunum. Þá einfaldlega fjarlægjum við umbúnaðinn sem er fyrir gluggaopinu og höldum þá á tréramma með gleri í sem við köllum sama nafni og opið sem tréramminn lokaði, það er að segja glugga.Málverk eftir belgíska súrrealistann René Magritte (1898-1967). Í gegnum opinn glugga sést í annað hús þar sem dyrnar eru lokaðar.

Ýmis föst orðasambönd um dyr sem flestir kannast við eru alls ekki rökleg ef við höfum muninn á dyrum og hurðum í huga. Ef dyr eru raunverulega inngangur eða op þá hlýtur eitthvað að vera bogið við það þegar við ‘drepum á dyr’, ‘kveðjum dyra’ eða ‘berjum að dyrum.’ Öll merkja þessi orðasambönd að slá með hendinni á hurðina, enda yrði seint opnað fyrir þeim sem drepur á dyr í merkingunni í að berja í op eða gat.

Þar sem ekki er dyrabjalla er stundum svonefndur dyrahamar en hann notum við engu að síður til að slá á hurðina. Ekki er víst að alltaf hafi verið gerður greinarmunur á hugtökunum hurð og dyr. Í 35. kafla Laxdæla sögu segir þetta: „Auður gekk að dyrum og var opin hurð.“ Í þriðju útgáfu Íslenskrar orðabókar segir við uppflettiorðið ‘hurð’ loka hurðinni.

Ef rökvísin ein réði því hvernig við tölum, myndum við ‘drepa á hurð’ og ‘berja að hurðum’ en hér hefur sitt að segja hljómfall tungumálsins, vegna stuðla er fallegra að ‘drepa á dyr’. Það er þess vegna fullkomlega eðlilegt að margir eigi erfitt með að sætta sig við að ekki eigi að loka eða opna hurðum af þeirri ástæðu að það sé ekki röklegt.

Þegar við notum þessi föstu orðasambönd erum við í raun að beita svonefndum nafnskiptum (e. metonymy) en það merkir að eitt orð er sett í stað annars orðs sem hefur skylda merkingu. Dæmi um þetta væri setningin ‘hún þýddi Halldór Laxness’ þegar við er átt að ‘hún hafi þýtt verk skáldsins’, eða ‘ hann drakk heila flösku á Mímisbar’ þegar sá hinn sami ‘drakk innihald flöskunnar á barnum’.

Þegar við opnum og lokum hurðum beitum við þess vegna nafnskiptum af sama toga og í fasta orðasambandinu ‘að drepa á dyr’. Orðið hurð kemur í stað dyra. Í sjálfu sér er þess vegna ekkert rangt við það að opna eða loka hurðum alveg eins og það er ekkert rangt við það að ‘drepa á dyr’.

Mynd: Représentations de maisons vues par des peintres de diverses époques et écoles...