Sólin Sólin Rís 03:32 • sest 23:21 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 04:00 • Sest 07:28 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:38 • Síðdegis: 22:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:36 • Síðdegis: 15:37 í Reykjavík

Getur persónuleiki fólks gerbreyst?

Jakob Smári

Ef svara á spurningunni hvort persónuleikinn geti tekið stakkaskiptum þarf fyrst að skilgreina hugtakið persónuleiki. Almennt er með persónuleika átt við stöðugleika eða ef til vill öllu fremur samkvæmni í hegðun manna í tíma og rúmi. Hvaða viðmiðum ættum við þá að beita um það hvenær persónuleiki einhvers hefur breyst?

Eitt viðmið í þessum efnum er að frammistaða fólks á svokölluðum persónuleikaprófum hafi breyst frá einum tíma til annars. Slík próf eru af ýmsu tagi en þau sem traustust þykja byggjast yfirleitt á einhvers konar lýsingum fólks á eigin hegðun. Meðal slíkra prófa sem til eru á íslensku eru persónuleikapróf Eysencks (EPQ) og NEO-persónuleikaprófið. Því fyrrnefnda er ætlað að mæla harðlyndi, úthverfu/innhverfu og taugaveiklun eða tilhneigingu til kvíða. Hið síðarnefnda spannar önnur persónueinkenni til viðbótar. Sýnt er fram á réttmæti slíkra prófa til að mynda með könnun á tengslum prófniðurstaðna við aðrar mælingar á hegðun, við lífeðlisfræðilegar mælingar, mat annarra á viðkomandi persónu og svo framvegis.

Rannsóknir sálfræðinga á persónueinkennum benda til þess að stöðugleiki í tíma sé almennt fremur mikill þegar horft er til almennra persónueinkenna á borð við innhverfu eða úthverfu, hræðslugirni og greind, ef við lítum á greind sem eina hliðina á persónuleika manna. Ásamt greind eru það ef til vill þau persónueinkenni sem nefnd eru skapgerðareinkenni (e. temperament) sem sýna einna mestan stöðugleika í tíma. Afmarkaðri persónueinkenni eins og forvitni og íhaldsemi kunna hins vegar að sýna mun meiri breytileika.

Hér skiptir því sjónarhornið á persónuleika meginmáli, hvort um er að ræða almenn skapgerðareinkenni eða afmarkaðri einkenni manna þar sem félagsmótun virðist vera mikilvægari. Sá stöðugleiki sem menn sýna almennt í skapgerð og ýmsum öðrum persónueinkennum útilokar hins vegar ekki að einstaklingar geta sýnt mikinn breytileika frá einum tíma til annars.

Einnig er mikilvægt að átta sig á því að okkur er tamt að vanmeta hversu breytileg hegðun annarra manna er eftir aðstæðum. Jón er þannig kannski ráðríkur og stjórnsamur í vinnu en færist hins vegar undan ábyrgð heima fyrir. Þarna er ekki endilega um ósamkvæmni að ræða; kannski færist Jón undan ábyrgð á heimilishaldi og barnauppeldi af því að honum finnst hann ekki kunna nóg fyrir sér í þeim efnum.

Við gerum okkur yfirleitt vel grein fyrir því að okkar eigin hegðun fer eftir aðstæðum en gleymum stundum að hið sama gildi um aðra. Þannig finnst okkar afar eðlilegt að við séum stundum í góðu og stundum í örgu skapi, en þegar annar maður hreytir í okkur ónotum, að okkur finnst að ástæðulausu, ályktum við að hann sé almennt og yfirleitt önuglyndur. Það sem við lítum á sem grundvallarbreytingu á manneskju sem við könnumst við er þannig ef til vill bara til marks um að við hittum hana í allt öðrum aðstæðum en við erum vön.

Vitað er að ýmis konar áföll á heila geta breytt persónuleika fólks, hvort sem átt er við hversdagslegan eða vísindalegan skilning á orðinu. Eitt frægasta dæmið er af Phineas nokkrum Gage sem varð fyrir því um miðja 19. öld að málmfleinn fór af slysni í gegnum framanverðan heila hans þar sem hann var að störfum. Hann náði sér furðanlega að mörgu leyti eftir þetta áfall. Í kjölfarið virtist samt það sem við getum kallað persónuleika Phineasar breytast mjög, hann sem áður hafði verið maður fyrir sinn hatt, sem hægt var að stóla á og treysta, varð ábyrgðarlaus vindhani. Þekkt er að sköddun á heila á svipuðum stað af öðrum orsökum getur valdið áþekkum breytingum í hegðun fólks.

Þá er þekkt að hegðun fólks getur breyst í veigamiklum atriðum við heilabilun svo sem Alzheimer-sjúkdóm og Picks-sjúkdóm. Góð skáldverk sýna okkur oft líka hvernig fólk getur vaxið að þroska og innsæi við átök og erfiðleika, til dæmis aðalpersónan í Hrafnkels sögu Freysgoða og Björn í Mörk í Njálu, eða á hinn bóginn spillst eins og Dorian Gray í sögu Oscars Wilde. Að því leyti sem þessi verk endurspegla líf fólks af holdi og blóði má ef til vill segja að þau sýni okkur hversu mjög það getur breyst í tímans rás til góðs og ills.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Höfundur

fyrrverandi prófessor í sálarfræði við HÍ

Útgáfudagur

13.2.2004

Spyrjandi

Kristrún Kristinsdóttir, f. 1988

Tilvísun

Jakob Smári. „Getur persónuleiki fólks gerbreyst? “ Vísindavefurinn, 13. febrúar 2004. Sótt 28. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=4002.

Jakob Smári. (2004, 13. febrúar). Getur persónuleiki fólks gerbreyst? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4002

Jakob Smári. „Getur persónuleiki fólks gerbreyst? “ Vísindavefurinn. 13. feb. 2004. Vefsíða. 28. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4002>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Getur persónuleiki fólks gerbreyst?
Ef svara á spurningunni hvort persónuleikinn geti tekið stakkaskiptum þarf fyrst að skilgreina hugtakið persónuleiki. Almennt er með persónuleika átt við stöðugleika eða ef til vill öllu fremur samkvæmni í hegðun manna í tíma og rúmi. Hvaða viðmiðum ættum við þá að beita um það hvenær persónuleiki einhvers hefur breyst?

Eitt viðmið í þessum efnum er að frammistaða fólks á svokölluðum persónuleikaprófum hafi breyst frá einum tíma til annars. Slík próf eru af ýmsu tagi en þau sem traustust þykja byggjast yfirleitt á einhvers konar lýsingum fólks á eigin hegðun. Meðal slíkra prófa sem til eru á íslensku eru persónuleikapróf Eysencks (EPQ) og NEO-persónuleikaprófið. Því fyrrnefnda er ætlað að mæla harðlyndi, úthverfu/innhverfu og taugaveiklun eða tilhneigingu til kvíða. Hið síðarnefnda spannar önnur persónueinkenni til viðbótar. Sýnt er fram á réttmæti slíkra prófa til að mynda með könnun á tengslum prófniðurstaðna við aðrar mælingar á hegðun, við lífeðlisfræðilegar mælingar, mat annarra á viðkomandi persónu og svo framvegis.

Rannsóknir sálfræðinga á persónueinkennum benda til þess að stöðugleiki í tíma sé almennt fremur mikill þegar horft er til almennra persónueinkenna á borð við innhverfu eða úthverfu, hræðslugirni og greind, ef við lítum á greind sem eina hliðina á persónuleika manna. Ásamt greind eru það ef til vill þau persónueinkenni sem nefnd eru skapgerðareinkenni (e. temperament) sem sýna einna mestan stöðugleika í tíma. Afmarkaðri persónueinkenni eins og forvitni og íhaldsemi kunna hins vegar að sýna mun meiri breytileika.

Hér skiptir því sjónarhornið á persónuleika meginmáli, hvort um er að ræða almenn skapgerðareinkenni eða afmarkaðri einkenni manna þar sem félagsmótun virðist vera mikilvægari. Sá stöðugleiki sem menn sýna almennt í skapgerð og ýmsum öðrum persónueinkennum útilokar hins vegar ekki að einstaklingar geta sýnt mikinn breytileika frá einum tíma til annars.

Einnig er mikilvægt að átta sig á því að okkur er tamt að vanmeta hversu breytileg hegðun annarra manna er eftir aðstæðum. Jón er þannig kannski ráðríkur og stjórnsamur í vinnu en færist hins vegar undan ábyrgð heima fyrir. Þarna er ekki endilega um ósamkvæmni að ræða; kannski færist Jón undan ábyrgð á heimilishaldi og barnauppeldi af því að honum finnst hann ekki kunna nóg fyrir sér í þeim efnum.

Við gerum okkur yfirleitt vel grein fyrir því að okkar eigin hegðun fer eftir aðstæðum en gleymum stundum að hið sama gildi um aðra. Þannig finnst okkar afar eðlilegt að við séum stundum í góðu og stundum í örgu skapi, en þegar annar maður hreytir í okkur ónotum, að okkur finnst að ástæðulausu, ályktum við að hann sé almennt og yfirleitt önuglyndur. Það sem við lítum á sem grundvallarbreytingu á manneskju sem við könnumst við er þannig ef til vill bara til marks um að við hittum hana í allt öðrum aðstæðum en við erum vön.

Vitað er að ýmis konar áföll á heila geta breytt persónuleika fólks, hvort sem átt er við hversdagslegan eða vísindalegan skilning á orðinu. Eitt frægasta dæmið er af Phineas nokkrum Gage sem varð fyrir því um miðja 19. öld að málmfleinn fór af slysni í gegnum framanverðan heila hans þar sem hann var að störfum. Hann náði sér furðanlega að mörgu leyti eftir þetta áfall. Í kjölfarið virtist samt það sem við getum kallað persónuleika Phineasar breytast mjög, hann sem áður hafði verið maður fyrir sinn hatt, sem hægt var að stóla á og treysta, varð ábyrgðarlaus vindhani. Þekkt er að sköddun á heila á svipuðum stað af öðrum orsökum getur valdið áþekkum breytingum í hegðun fólks.

Þá er þekkt að hegðun fólks getur breyst í veigamiklum atriðum við heilabilun svo sem Alzheimer-sjúkdóm og Picks-sjúkdóm. Góð skáldverk sýna okkur oft líka hvernig fólk getur vaxið að þroska og innsæi við átök og erfiðleika, til dæmis aðalpersónan í Hrafnkels sögu Freysgoða og Björn í Mörk í Njálu, eða á hinn bóginn spillst eins og Dorian Gray í sögu Oscars Wilde. Að því leyti sem þessi verk endurspegla líf fólks af holdi og blóði má ef til vill segja að þau sýni okkur hversu mjög það getur breyst í tímans rás til góðs og ills.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

...