Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Hvernig túlka guðfræðingar kenningar Erich von Dänikens um Biblíuna?

Bjarni Randver Sigurvinsson

Kenningar von Dänikens hafa hvorki haft áhrif á guðfræðina né aðrar fræðigreinar. Þvert á móti hafa fjölmargir fræðimenn hrakið þær í bæði tímaritsgreinum og bókum. Von Däniken tekur Biblíuna fortakslaust trúanlega í tilteknum atriðum en hafnar henni jafnafdráttarlaust í öðrum, hvorttveggja algerlega eftir eigin geðþótta.

Svisslendingurinn Erich von Däniken vakti heimsathygli á sjöunda og áttunda áratugnum fyrir þá kenningu, að fyrir mörgþúsund árum hefðu geimfarar frá fjarlægum stjörnum komið til jarðarinnar og lagt grunninn að siðmenningu okkar. Tilgreindi hann fjölda fornminja og trúarlegra sagna máli sínu til stuðnings, en þær sagði hann oftar en ekki lýsa háþróaðri tækni framandi vitsmunavera. Þannig fullyrti hann til dæmis að fornar styttur, steintöflumyndir og hellamyndir víðs vegar að úr heiminum væru í raun af geimförum og helgitákn Inkanna á Nazca-sléttunni væri flugvöllur.

Kenningar sínar sagðist von Däniken hafa byggt á fjölda fræðirita um geimvísindi og forsöguleg fornminjafræði, en frítíma sínum hefði hann til margra ára varið í ferðalög um allan heim til að heimsækja kunna tæknimenn og kynna sér þekktustu fornminjarnar. Von Däniken er þó aðeins áhugamaður um þessi fræðasvið, því að eina menntun hans er á sviði gistihúsarekstrar.

Að mati von Dänikens varpa trúarbrögðin ljósi á samskipti mannanna við geimfarana, sem þeir töldu vera guði, en við það hefðu geimfararnir orðið að sætta sig. Þannig greini elstu ritaðar heimildir einatt frá guðum „sem sigldu himneskum fleyjum" og „komu frá öðrum stjörnum, búnir ógurlegum vopnum". (Voru guðirnir geimfarar? , bls. 34.) Von Däniken telur fjölda frásagna Biblíunnar renna stoðum undir þetta, jafnvel þótt ekki sé hægt að treysta guðfræðilegum boðskap þeirra. Hann leggur því jafnan bókstaflega merkingu í þau atriði Biblíunnar, sem hann velur sér, en túlkar hana hins vegar að öðru leyti algjörlega eftir eigin geðþótta.

Von Däniken segir, að geimfararnir hafi ákveðið í fyrstu ferðum sínum að flýta fyrir framþróun mannkynsins með því að stuðla að stökkbreytingum í erfðaefni þess. Þannig hafi karlmaðurinn orðið til, en konan síðan verið búin til úr honum, sennilega með eimun. Geimfararnir hafi því í raun skapað nýtt mannkyn, en til þess að kynbæta það enn frekar, hafi þeir valið sér álitlegustu konurnar og getið með þeim börn. Mannkynið hafi engu að síður sótt í gamla farið og tafið fyrir framþróun sinni með sífelldum kynmökum við dýrin, en á það hafi geimfararnir litið sem syndafall. Þeir hafi því ákveðið að eyða öllum kynblendingunum, sem mennirnar gátu af sér með dýrunum, en hlífðu þeim sem náðu að halda kyni sínu hreinu.

Von Däniken telur syndaflóðssöguna greina frá þessum aðgerðum geimfaranna, þegar þeir komu aftur til jarðarinnar til að kynna sér árangurinn af ræktunarstarfi sínu, en jafnvel það hafi ekki nægt til að hreinsa mennina af erfðasyndinni. Því hafi þurft að halda kynhreinsuninni áfram, en von Däniken segir frásögu Mósebókanna af frelsun lýðs Guðs úr þrældóminum í Egyptalandi lýsa ákvörðun geimfaranna um að senda hina útvöldu í sóttkví út í eyðimörkina til að venja þá af kynmökum við dýrin. Borgunum Sódómu og Gomórru segir hann ennfremur hafa verið eytt með kjarnorkusprengju, en fórnaákvæðin skýrir hann sem kvaðir um vistir handa geimförunum.

Von Däniken segir, að Mósebækurnar séu náma af slíkum upplýsingum fyrir þá, sem hafi „sæmilega auðugt ímyndunarafl". (Í geimfari til goðheima, bls. 129.) Hann hafnar því hins vegar að Guð hafi átt þar nokkurn hlut að máli, því að hann geti hvorki talist almáttugur né alvitur eins og honum sé lýst í þessum ritum. Þau hafi verið stílfærð, þegar afritunum fjölgaði og því sé hvorki hægt að treysta þeim með öllu efnislega né að frásagnir þeirra hafi gerst á þeim tímum, sem fræðimenn halda fram. Von Däniken segir geimfarana ennfremur hafa yfirgefið jörðina löngu fyrir tíma Nýja testamentisins og því geri hver sá, „sem reynir að sjá geimfara að nafni Jesús í frásögnum guðspjallanna", sig „sekan um álíka dellu og dómari, sem dæmir sekt eða sýknu út frá fölsuðum öktum". (Sýnir og vitranir, bls. 107.)

Engu að síður telur hann geimfarana fylgjast enn með okkur, en það geri þeir með því að lesa hugsanir okkar. Hann afneitar hins vegar guðdómi Jesú Krists og segir hann uppreisnarmann, sem gæddur hafi verið dulrænum hæfileikum en verið tekinn af lífi fyrir undirróður gegn rómversku hernámsyfirvöldunum. Friðþægingarkenninguna skilgreinir hann jafnframt sem hættulega og segir hana siðvana heiðindóm. Kenningar von Dänikens eru í raun tilraun til að færa trúarbrögðin nær heimsmynd nútímans með því að útskýra hið yfirnáttúrulega í trúarritunum sem veraldleg fyrirbæri í tæknivæddu samfélagi.

Guðfræðilegar rannsóknir á textum trúarrita á borð við Biblíuna eru margþættar. Öllu máli skiptir þó að þeir séu ekki teknir úr menningarlegu og sögulegu samhengi sínu. Þess vegna er nauðsynlegt að lesa textana með hliðsjón af þeim ritum, sem þeir tilheyra, og bera þá saman við þær heimildir sem tengjast þeim. Þannig spyrja guðfræðingar hvernig höfundarnir og samtíðarmenn þeirra skildu textana, hvernig þeir voru túlkaðir í aldanna rás og hvaða þýðingu þeir hafa fyrir nútímann. Þetta þýðir þó ekki, að guðfræðingar séu einsleitur hópur. Fjölmargar guðfræðistefnur hafa litið dagsins ljós og nægir þar að nefna bókstafstrú, nýguðfræði og nýrétttrúnað.

Af ritverkum von Dänikens sést, að guðfræðiþekking hans er svo til engin. Hann gerir engan greinarmun á helstu guðfræðistefnum og virðist setja alla guðfræðinga undir sama hatt. Þá sjaldan hann vitnar í fræðistörf þeirra, sakar hann þá um útúrsnúninga, óheiðarleika og lygar. Hann sýnir sögulegu og menningarlegu samhengi þeirra texta Biblíunnar, sem hann vitnar til, sjaldnast nokkurn áhuga og virðist jafnvel ekki nenna að athuga hvort hann fari efnislega rétt með þá. Gott dæmi um það er að finna í bókinni Voru guðirnir geimfarar? , þar sem hann segir á bls. 49:
Án þess að ég hafi gætt nánar að því í 2. Mósebók, er eins og mig minni að leiftur og neistar hafi oft sést kringum örkina, og Móse hafi fært sér í nyt fjarskiptatæki hennar þegar hann þarfnaðist leiðbeininga eða aðstoðar.
Forn trúarrit eru misaðgengileg fyrir almenning, en ætla má, að það hefði verið hægur vandi fyrir hann að fletta þessum texta upp.

Von Däniken er auk þess með öllu áhugalaus um fræðilega umfjöllun um texta Biblíunnar eins og fram kemur í bókinni Sýnir og vitranir, þar sem hann segir um dæmisöguna um brúðkaupsgestina í Matt. 22:1-14 á bls. 90:
En ég, einfaldur biblíulesari, fæ ekki annað séð en hér sé verið að boða andstyggilega, andfélagslega hegðun. Ég frábið mér allar ábendingar um „sanna merkingu" þessarar dæmisögu eða annarra; ég er sjálfur læs.

Að sama skapi virðist það ekki hvarfla að honum, að hægt sé að leggja aðra merkingu en hina bókstaflegu í vers á borð við Matt. 5:29, þar sem segir, að tæli hægra augað mann til falls, beri að rífa það úr og kasta því frá sér.

Í raun finnst von Däniken lítið til Biblíunnar koma og segir hana hvað eftir annað síðari tíma fölsun. Samt hikar hann ekki við að finna rök fyrir geimfarakenningu sinni í frásögnum hennar til dæmis um sköpunina, syndafallið og sýn Esekíels. Hann virðist jafnvel hafa meiri trú á Mormónsbók en Biblíunni, því hann tekur vitnisburð spámannsins Jósefs Smiths um fund hennar án alls fyrirvara og segir það ómögulegt, að svo ungur maður hefði getað samið hana upp á eigin spýtur. Skýring von Dänikens á tilurð Mormónsbókar er þó gjörólík þeirri, sem spámaðurinn og fylgismenn hans hafa alla tíð haldið fram. Að mati von Dänikens var það ekki engill heldur geimfari sem vitraðist Smith og vísaði honum á töflurnar með texta bókarinnar, en þær höfðu geimfararnir falið fyrir þúsundum ára. Hvers vegna þeir hefðu átt að gera það er þó á huldu, því efnislega styður Mormónsbók kenningar von Dänikens engan veginn.

Ekki farnast mannfræðingum og fornleifafræðingum betur en guðfræðingum hjá von Däniken, enda leggur hann jafnan áherslu á að hann sé þeim óháður og því ekki bundinn af fordómum þeirra og hlutdrægni. Það heyrir líka til undantekninga að hann nefni hvað þeir hafi til málanna að leggja, enda virðist hann lítið hirða um sjónarmið þeirra. Þess í stað tekur hann þekktar fornminjar af handahófi og les í þær nýjar merkingar, sem jafnan eru á öndverðum meiði við allar tiltækar heimildir.

Ennfremur veikir það málflutning hans, að hann viðurkenndi árið 1978 í sjónvarpsþættinum Nova, að hann hefði vísvitandi notað falsaðar fornminjar máli sínu til stuðnings í bókum sínum, en það réttlætti hann á þeirri forsendu, að stundum gæti reynst nauðsynlegt að beita brellum til að vekja athygli á mikilvægum málefnum. Það er því engin furða, að því skuli vera hampað í inngangi bókar hans Í geimfari til goðheima, að hann sé „óháður akademískum aga". Má vera að kenningar von Dänikens geti talist frumlegar, en þær eiga ekkert skylt við vönduð vinnubrögð, hvað þá vísindi.

Kenningar von Dänikens hafa hvorki haft áhrif á guðfræðina né aðrar vísindagreinar. Þvert á móti hafa fjölmargir fræðimenn hrakið þær í bæði tímaritsgreinum og bókum, en dæmi um slík rit eru The Space-Gods Revealed eftir Ronald Story og Crash Go the Chariots eftir Clifford Wilson. Einnig eru dæmi um, að guðfræðingar og aðrir trúarbragðafræðingar hafi gert úttekt á kenningum von Dänikens og áhrifum þeirra í tengslum við rannsóknir á áhugamönnum um fljúgandi furðuhluti, en þar má nefna þá J. Gordon Melton og John A. Saliba. Að öðru leyti hafa guðfræðingar verið að mestu áhugalausir um kenningar hans.

Heimildir

Däniken, Erich von, Voru guðirnir geimfarar? Ráðgátur fortíðarinnar í ljósi nútímatækni. Örn og Örlygur, Reykjavík. 1972.

Däniken, Erich von, Í geimfari til goðheima. Sannanir fyrir því ósannanlega. Örn og Örlygur, Reykjavík. 1973.

Däniken, Erich von, Sýnir og vitranir. Ráðgátur, sem heillað hafa mannkynið frá örófi alda. Örn og Örlygur, Reykjavík. 1975.

Ronald Story, The Space-Gods Revealed. Harper & Row, New York, 1976.

Clifford Wilson, Crash Go the Chariots. Lancer, New York, 1972.

Höfundur

doktorsnemi í guðfræði við HÍ

Útgáfudagur

8.5.2000

Spyrjandi

Kristinn Leví Aðalbjörnsson

Efnisorð

Tilvísun

Bjarni Randver Sigurvinsson. „Hvernig túlka guðfræðingar kenningar Erich von Dänikens um Biblíuna?“ Vísindavefurinn, 8. maí 2000. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=402.

Bjarni Randver Sigurvinsson. (2000, 8. maí). Hvernig túlka guðfræðingar kenningar Erich von Dänikens um Biblíuna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=402

Bjarni Randver Sigurvinsson. „Hvernig túlka guðfræðingar kenningar Erich von Dänikens um Biblíuna?“ Vísindavefurinn. 8. maí. 2000. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=402>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig túlka guðfræðingar kenningar Erich von Dänikens um Biblíuna?
Kenningar von Dänikens hafa hvorki haft áhrif á guðfræðina né aðrar fræðigreinar. Þvert á móti hafa fjölmargir fræðimenn hrakið þær í bæði tímaritsgreinum og bókum. Von Däniken tekur Biblíuna fortakslaust trúanlega í tilteknum atriðum en hafnar henni jafnafdráttarlaust í öðrum, hvorttveggja algerlega eftir eigin geðþótta.

Svisslendingurinn Erich von Däniken vakti heimsathygli á sjöunda og áttunda áratugnum fyrir þá kenningu, að fyrir mörgþúsund árum hefðu geimfarar frá fjarlægum stjörnum komið til jarðarinnar og lagt grunninn að siðmenningu okkar. Tilgreindi hann fjölda fornminja og trúarlegra sagna máli sínu til stuðnings, en þær sagði hann oftar en ekki lýsa háþróaðri tækni framandi vitsmunavera. Þannig fullyrti hann til dæmis að fornar styttur, steintöflumyndir og hellamyndir víðs vegar að úr heiminum væru í raun af geimförum og helgitákn Inkanna á Nazca-sléttunni væri flugvöllur.

Kenningar sínar sagðist von Däniken hafa byggt á fjölda fræðirita um geimvísindi og forsöguleg fornminjafræði, en frítíma sínum hefði hann til margra ára varið í ferðalög um allan heim til að heimsækja kunna tæknimenn og kynna sér þekktustu fornminjarnar. Von Däniken er þó aðeins áhugamaður um þessi fræðasvið, því að eina menntun hans er á sviði gistihúsarekstrar.

Að mati von Dänikens varpa trúarbrögðin ljósi á samskipti mannanna við geimfarana, sem þeir töldu vera guði, en við það hefðu geimfararnir orðið að sætta sig. Þannig greini elstu ritaðar heimildir einatt frá guðum „sem sigldu himneskum fleyjum" og „komu frá öðrum stjörnum, búnir ógurlegum vopnum". (Voru guðirnir geimfarar? , bls. 34.) Von Däniken telur fjölda frásagna Biblíunnar renna stoðum undir þetta, jafnvel þótt ekki sé hægt að treysta guðfræðilegum boðskap þeirra. Hann leggur því jafnan bókstaflega merkingu í þau atriði Biblíunnar, sem hann velur sér, en túlkar hana hins vegar að öðru leyti algjörlega eftir eigin geðþótta.

Von Däniken segir, að geimfararnir hafi ákveðið í fyrstu ferðum sínum að flýta fyrir framþróun mannkynsins með því að stuðla að stökkbreytingum í erfðaefni þess. Þannig hafi karlmaðurinn orðið til, en konan síðan verið búin til úr honum, sennilega með eimun. Geimfararnir hafi því í raun skapað nýtt mannkyn, en til þess að kynbæta það enn frekar, hafi þeir valið sér álitlegustu konurnar og getið með þeim börn. Mannkynið hafi engu að síður sótt í gamla farið og tafið fyrir framþróun sinni með sífelldum kynmökum við dýrin, en á það hafi geimfararnir litið sem syndafall. Þeir hafi því ákveðið að eyða öllum kynblendingunum, sem mennirnar gátu af sér með dýrunum, en hlífðu þeim sem náðu að halda kyni sínu hreinu.

Von Däniken telur syndaflóðssöguna greina frá þessum aðgerðum geimfaranna, þegar þeir komu aftur til jarðarinnar til að kynna sér árangurinn af ræktunarstarfi sínu, en jafnvel það hafi ekki nægt til að hreinsa mennina af erfðasyndinni. Því hafi þurft að halda kynhreinsuninni áfram, en von Däniken segir frásögu Mósebókanna af frelsun lýðs Guðs úr þrældóminum í Egyptalandi lýsa ákvörðun geimfaranna um að senda hina útvöldu í sóttkví út í eyðimörkina til að venja þá af kynmökum við dýrin. Borgunum Sódómu og Gomórru segir hann ennfremur hafa verið eytt með kjarnorkusprengju, en fórnaákvæðin skýrir hann sem kvaðir um vistir handa geimförunum.

Von Däniken segir, að Mósebækurnar séu náma af slíkum upplýsingum fyrir þá, sem hafi „sæmilega auðugt ímyndunarafl". (Í geimfari til goðheima, bls. 129.) Hann hafnar því hins vegar að Guð hafi átt þar nokkurn hlut að máli, því að hann geti hvorki talist almáttugur né alvitur eins og honum sé lýst í þessum ritum. Þau hafi verið stílfærð, þegar afritunum fjölgaði og því sé hvorki hægt að treysta þeim með öllu efnislega né að frásagnir þeirra hafi gerst á þeim tímum, sem fræðimenn halda fram. Von Däniken segir geimfarana ennfremur hafa yfirgefið jörðina löngu fyrir tíma Nýja testamentisins og því geri hver sá, „sem reynir að sjá geimfara að nafni Jesús í frásögnum guðspjallanna", sig „sekan um álíka dellu og dómari, sem dæmir sekt eða sýknu út frá fölsuðum öktum". (Sýnir og vitranir, bls. 107.)

Engu að síður telur hann geimfarana fylgjast enn með okkur, en það geri þeir með því að lesa hugsanir okkar. Hann afneitar hins vegar guðdómi Jesú Krists og segir hann uppreisnarmann, sem gæddur hafi verið dulrænum hæfileikum en verið tekinn af lífi fyrir undirróður gegn rómversku hernámsyfirvöldunum. Friðþægingarkenninguna skilgreinir hann jafnframt sem hættulega og segir hana siðvana heiðindóm. Kenningar von Dänikens eru í raun tilraun til að færa trúarbrögðin nær heimsmynd nútímans með því að útskýra hið yfirnáttúrulega í trúarritunum sem veraldleg fyrirbæri í tæknivæddu samfélagi.

Guðfræðilegar rannsóknir á textum trúarrita á borð við Biblíuna eru margþættar. Öllu máli skiptir þó að þeir séu ekki teknir úr menningarlegu og sögulegu samhengi sínu. Þess vegna er nauðsynlegt að lesa textana með hliðsjón af þeim ritum, sem þeir tilheyra, og bera þá saman við þær heimildir sem tengjast þeim. Þannig spyrja guðfræðingar hvernig höfundarnir og samtíðarmenn þeirra skildu textana, hvernig þeir voru túlkaðir í aldanna rás og hvaða þýðingu þeir hafa fyrir nútímann. Þetta þýðir þó ekki, að guðfræðingar séu einsleitur hópur. Fjölmargar guðfræðistefnur hafa litið dagsins ljós og nægir þar að nefna bókstafstrú, nýguðfræði og nýrétttrúnað.

Af ritverkum von Dänikens sést, að guðfræðiþekking hans er svo til engin. Hann gerir engan greinarmun á helstu guðfræðistefnum og virðist setja alla guðfræðinga undir sama hatt. Þá sjaldan hann vitnar í fræðistörf þeirra, sakar hann þá um útúrsnúninga, óheiðarleika og lygar. Hann sýnir sögulegu og menningarlegu samhengi þeirra texta Biblíunnar, sem hann vitnar til, sjaldnast nokkurn áhuga og virðist jafnvel ekki nenna að athuga hvort hann fari efnislega rétt með þá. Gott dæmi um það er að finna í bókinni Voru guðirnir geimfarar? , þar sem hann segir á bls. 49:
Án þess að ég hafi gætt nánar að því í 2. Mósebók, er eins og mig minni að leiftur og neistar hafi oft sést kringum örkina, og Móse hafi fært sér í nyt fjarskiptatæki hennar þegar hann þarfnaðist leiðbeininga eða aðstoðar.
Forn trúarrit eru misaðgengileg fyrir almenning, en ætla má, að það hefði verið hægur vandi fyrir hann að fletta þessum texta upp.

Von Däniken er auk þess með öllu áhugalaus um fræðilega umfjöllun um texta Biblíunnar eins og fram kemur í bókinni Sýnir og vitranir, þar sem hann segir um dæmisöguna um brúðkaupsgestina í Matt. 22:1-14 á bls. 90:
En ég, einfaldur biblíulesari, fæ ekki annað séð en hér sé verið að boða andstyggilega, andfélagslega hegðun. Ég frábið mér allar ábendingar um „sanna merkingu" þessarar dæmisögu eða annarra; ég er sjálfur læs.

Að sama skapi virðist það ekki hvarfla að honum, að hægt sé að leggja aðra merkingu en hina bókstaflegu í vers á borð við Matt. 5:29, þar sem segir, að tæli hægra augað mann til falls, beri að rífa það úr og kasta því frá sér.

Í raun finnst von Däniken lítið til Biblíunnar koma og segir hana hvað eftir annað síðari tíma fölsun. Samt hikar hann ekki við að finna rök fyrir geimfarakenningu sinni í frásögnum hennar til dæmis um sköpunina, syndafallið og sýn Esekíels. Hann virðist jafnvel hafa meiri trú á Mormónsbók en Biblíunni, því hann tekur vitnisburð spámannsins Jósefs Smiths um fund hennar án alls fyrirvara og segir það ómögulegt, að svo ungur maður hefði getað samið hana upp á eigin spýtur. Skýring von Dänikens á tilurð Mormónsbókar er þó gjörólík þeirri, sem spámaðurinn og fylgismenn hans hafa alla tíð haldið fram. Að mati von Dänikens var það ekki engill heldur geimfari sem vitraðist Smith og vísaði honum á töflurnar með texta bókarinnar, en þær höfðu geimfararnir falið fyrir þúsundum ára. Hvers vegna þeir hefðu átt að gera það er þó á huldu, því efnislega styður Mormónsbók kenningar von Dänikens engan veginn.

Ekki farnast mannfræðingum og fornleifafræðingum betur en guðfræðingum hjá von Däniken, enda leggur hann jafnan áherslu á að hann sé þeim óháður og því ekki bundinn af fordómum þeirra og hlutdrægni. Það heyrir líka til undantekninga að hann nefni hvað þeir hafi til málanna að leggja, enda virðist hann lítið hirða um sjónarmið þeirra. Þess í stað tekur hann þekktar fornminjar af handahófi og les í þær nýjar merkingar, sem jafnan eru á öndverðum meiði við allar tiltækar heimildir.

Ennfremur veikir það málflutning hans, að hann viðurkenndi árið 1978 í sjónvarpsþættinum Nova, að hann hefði vísvitandi notað falsaðar fornminjar máli sínu til stuðnings í bókum sínum, en það réttlætti hann á þeirri forsendu, að stundum gæti reynst nauðsynlegt að beita brellum til að vekja athygli á mikilvægum málefnum. Það er því engin furða, að því skuli vera hampað í inngangi bókar hans Í geimfari til goðheima, að hann sé „óháður akademískum aga". Má vera að kenningar von Dänikens geti talist frumlegar, en þær eiga ekkert skylt við vönduð vinnubrögð, hvað þá vísindi.

Kenningar von Dänikens hafa hvorki haft áhrif á guðfræðina né aðrar vísindagreinar. Þvert á móti hafa fjölmargir fræðimenn hrakið þær í bæði tímaritsgreinum og bókum, en dæmi um slík rit eru The Space-Gods Revealed eftir Ronald Story og Crash Go the Chariots eftir Clifford Wilson. Einnig eru dæmi um, að guðfræðingar og aðrir trúarbragðafræðingar hafi gert úttekt á kenningum von Dänikens og áhrifum þeirra í tengslum við rannsóknir á áhugamönnum um fljúgandi furðuhluti, en þar má nefna þá J. Gordon Melton og John A. Saliba. Að öðru leyti hafa guðfræðingar verið að mestu áhugalausir um kenningar hans.

Heimildir

Däniken, Erich von, Voru guðirnir geimfarar? Ráðgátur fortíðarinnar í ljósi nútímatækni. Örn og Örlygur, Reykjavík. 1972.

Däniken, Erich von, Í geimfari til goðheima. Sannanir fyrir því ósannanlega. Örn og Örlygur, Reykjavík. 1973.

Däniken, Erich von, Sýnir og vitranir. Ráðgátur, sem heillað hafa mannkynið frá örófi alda. Örn og Örlygur, Reykjavík. 1975.

Ronald Story, The Space-Gods Revealed. Harper & Row, New York, 1976.

Clifford Wilson, Crash Go the Chariots. Lancer, New York, 1972....