Án þess að ég hafi gætt nánar að því í 2. Mósebók, er eins og mig minni að leiftur og neistar hafi oft sést kringum örkina, og Móse hafi fært sér í nyt fjarskiptatæki hennar þegar hann þarfnaðist leiðbeininga eða aðstoðar.Forn trúarrit eru misaðgengileg fyrir almenning, en ætla má, að það hefði verið hægur vandi fyrir hann að fletta þessum texta upp. Von Däniken er auk þess með öllu áhugalaus um fræðilega umfjöllun um texta Biblíunnar eins og fram kemur í bókinni Sýnir og vitranir, þar sem hann segir um dæmisöguna um brúðkaupsgestina í Matt. 22:1-14 á bls. 90:
En ég, einfaldur biblíulesari, fæ ekki annað séð en hér sé verið að boða andstyggilega, andfélagslega hegðun. Ég frábið mér allar ábendingar um „sanna merkingu" þessarar dæmisögu eða annarra; ég er sjálfur læs.Að sama skapi virðist það ekki hvarfla að honum, að hægt sé að leggja aðra merkingu en hina bókstaflegu í vers á borð við Matt. 5:29, þar sem segir, að tæli hægra augað mann til falls, beri að rífa það úr og kasta því frá sér. Í raun finnst von Däniken lítið til Biblíunnar koma og segir hana hvað eftir annað síðari tíma fölsun. Samt hikar hann ekki við að finna rök fyrir geimfarakenningu sinni í frásögnum hennar til dæmis um sköpunina, syndafallið og sýn Esekíels. Hann virðist jafnvel hafa meiri trú á Mormónsbók en Biblíunni, því hann tekur vitnisburð spámannsins Jósefs Smiths um fund hennar án alls fyrirvara og segir það ómögulegt, að svo ungur maður hefði getað samið hana upp á eigin spýtur. Skýring von Dänikens á tilurð Mormónsbókar er þó gjörólík þeirri, sem spámaðurinn og fylgismenn hans hafa alla tíð haldið fram. Að mati von Dänikens var það ekki engill heldur geimfari sem vitraðist Smith og vísaði honum á töflurnar með texta bókarinnar, en þær höfðu geimfararnir falið fyrir þúsundum ára. Hvers vegna þeir hefðu átt að gera það er þó á huldu, því efnislega styður Mormónsbók kenningar von Dänikens engan veginn. Ekki farnast mannfræðingum og fornleifafræðingum betur en guðfræðingum hjá von Däniken, enda leggur hann jafnan áherslu á að hann sé þeim óháður og því ekki bundinn af fordómum þeirra og hlutdrægni. Það heyrir líka til undantekninga að hann nefni hvað þeir hafi til málanna að leggja, enda virðist hann lítið hirða um sjónarmið þeirra. Þess í stað tekur hann þekktar fornminjar af handahófi og les í þær nýjar merkingar, sem jafnan eru á öndverðum meiði við allar tiltækar heimildir. Ennfremur veikir það málflutning hans, að hann viðurkenndi árið 1978 í sjónvarpsþættinum Nova, að hann hefði vísvitandi notað falsaðar fornminjar máli sínu til stuðnings í bókum sínum, en það réttlætti hann á þeirri forsendu, að stundum gæti reynst nauðsynlegt að beita brellum til að vekja athygli á mikilvægum málefnum. Það er því engin furða, að því skuli vera hampað í inngangi bókar hans Í geimfari til goðheima, að hann sé „óháður akademískum aga". Má vera að kenningar von Dänikens geti talist frumlegar, en þær eiga ekkert skylt við vönduð vinnubrögð, hvað þá vísindi. Kenningar von Dänikens hafa hvorki haft áhrif á guðfræðina né aðrar vísindagreinar. Þvert á móti hafa fjölmargir fræðimenn hrakið þær í bæði tímaritsgreinum og bókum, en dæmi um slík rit eru The Space-Gods Revealed eftir Ronald Story og Crash Go the Chariots eftir Clifford Wilson. Einnig eru dæmi um, að guðfræðingar og aðrir trúarbragðafræðingar hafi gert úttekt á kenningum von Dänikens og áhrifum þeirra í tengslum við rannsóknir á áhugamönnum um fljúgandi furðuhluti, en þar má nefna þá J. Gordon Melton og John A. Saliba. Að öðru leyti hafa guðfræðingar verið að mestu áhugalausir um kenningar hans. Heimildir Däniken, Erich von, Voru guðirnir geimfarar? Ráðgátur fortíðarinnar í ljósi nútímatækni. Örn og Örlygur, Reykjavík. 1972. Däniken, Erich von, Í geimfari til goðheima. Sannanir fyrir því ósannanlega. Örn og Örlygur, Reykjavík. 1973. Däniken, Erich von, Sýnir og vitranir. Ráðgátur, sem heillað hafa mannkynið frá örófi alda. Örn og Örlygur, Reykjavík. 1975. Ronald Story, The Space-Gods Revealed. Harper & Row, New York, 1976. Clifford Wilson, Crash Go the Chariots. Lancer, New York, 1972.