Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Af og til koma fréttir utan úr heimi af því að verið sé að reyna að aðskilja síamstvíbura. Þetta vekur greinilega forvitni margra því Vísindavefnum berast oft spurningar um síamstvíbura í kjölfar slíkra frétta. Hér er því einnig svarað spurningum um síamstvíbura frá: Klemens Ágústssyni (f. 1992), Hrefnu Þráinsdóttur (f. 1987), Svövu Kristinsdóttur, Ástu Ólafsdóttur (f. 1991) og Sigríði Evu Magnúsdóttur.
Síamstvíburar eða samtengdir tvíburar (e. conjoined twins) eru tvíburar sem eru samvaxnir við fæðingu. Þetta gerist þegar okfrumu eineggja tvíbura tekst ekki að skipta sér fullkomlega í tvennt.
Samtengdir tvíburar fæðast í einni af hverjum 200.000 fæðingum. Lífslíkur þeirra eru ekki miklar þar sem aðeins 5-25% þeirra lifa. Meiri líkur eru á að samtengdir tvíburar séu stúlkubörn (70-75%).
Skipta má samtengdum tvíburum í nokkra hópa eftir því hvar líkamar þeirra eru samgrónir:
Á efri hluta bringu (e. thoracopagus) - 35-40% tilfella.
Á neðri hluta bringu (e. omphalopagus) - 34% tilfella.
Á bakhluta, oftast rassi (e. pygopagus) - 19% tilfella.
Á höfði með aðskilda búka (e. cephalopagus) - um 5% tilfella. Í þessum hópi eru tilfelli þar sem bæði höfuð og bringur eru samvaxnar.
Á höfuðkúpu (e. craniopagus) - 2% tilfella. Í sumum þessara tilfella er önnur höfuðkúpan vanþroskuð.
Þekkt eru dæmi þess að tvíburar með samvaxin höfuð hafi einnig hluta af heilanum sameiginlegan.
Oftast eru samtengdir tvíburar samhverfir, það er spegilmynd hvor af öðrum og báðir jafn lífvænlegir. Stundum kemur þó fyrir að annar tvíburinn nær ekki að þroskast á eðlilegan hátt og verður sníkill á hinum sem þroskast eðlilega. Þá er talað um ósamhverfa samtengda tvíbura (e. parasitic twinning/asymmetric conjoined twins).
Heitið síamstvíburar (e. Siamese twins) er komið frá þekktustu samtengdu tvíburum allra tíma, Chang og Eng Bunker (1811-1874) sem fæddust í Tælandi sem þá hét Síam. Þeir voru samvaxnir á flagbrjóski (neðri hluta bringu).
Chang og Eng fluttu til Bandaríkjanna og komu þar víða fram og einnig Evrópu. Hvarvetna vöktu þeir mikla athygli.
Í kjölfar frægðar þeirra var farið að nota orðið síamstvíburar sem samheiti fyrir alla samtengda tvíbura.
Fyrsta tilfelli um samtengda tvíbura sem vitað er um eru hins vegar bresku systurnar Mary og Eliza Chulkhurst sem voru uppi á 12. öld. Þær voru líklega samvaxnar á bakhluta.
Með því að smella hér má finna grein á ensku sem segir meira frá bræðrunum frá Síam, Mary, Elizu og fleiri samtengdum tvíburum.
Heimild og mynd:
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvernig verða síamstvíburar til og hvaðan kemur þetta heiti?“ Vísindavefurinn, 2. mars 2004, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4034.
Þuríður Þorbjarnardóttir. (2004, 2. mars). Hvernig verða síamstvíburar til og hvaðan kemur þetta heiti? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4034
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvernig verða síamstvíburar til og hvaðan kemur þetta heiti?“ Vísindavefurinn. 2. mar. 2004. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4034>.