Sólin Sólin Rís 02:57 • sest 24:00 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:31 • Sest 02:09 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:23 • Síðdegis: 24:44 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:08 • Síðdegis: 18:28 í Reykjavík

Hvaða plöntur étur sauðfé helst og hvaða tegundir forðast það?

Anna Guðrún Þórhallsdóttir

Í svari sama höfundar við spurningunni Hvað ræður fæðuvali sauðfjár? kemur fram að lömb læra fyrst og fremst af mæðrum sínum hvaða plöntutegundir eru fýsilegar til átu. Rannsóknir hafa leitt í ljós að fæðuval sauðfjár er mjög breytilegt, bæði í tíma og rúmi og á milli einstaklinga.

Gerð hefur verið rannsókn á hegðun og fæðuvali sauðfjár hér á landi, samanber heimild sem nefnd er í lok svarsins. Plöntuval var skoðað hjá 20 einstaklingum í mismunandi gróðurlendum og á mismunandi tíma yfir sumarið. Breytileiki milli einstaklinga var mikill en nokkrar plöntur voru alltaf mikið bitnar af öllum einstaklingunum. Er þar helst að nefna grastegundir eins og sveifgrös (Poa ssp.), língresi (Agrostis ssp.), vingla (Festuca ssp.) og stinnastör (Carex bigelowii), einnig grávíði (Salix callicarpea) og kornsúru (Bistorta vivipara). Allar þessar tegundir eru mjög algengar. Einnig er hálmgresi (Calamagrostis neglecta) alltaf mikið bitið þar sem það er að finna, svo og elftingar (Equisetum ssp.) og möðrur (Galium ssp.).

Víðitegundirnar eru alltaf bitnar meira fyrri hluta sumars og starir seinni hluta. Elftingarnar eru aðeins bitnar fyrri hluta sumars en lítið sem ekkert seinni hluta. Um grösin er það að segja að vinglar, sérstaklega túnvingull, eru bitnir fyrri hluta sumars en mjög lítið seinni hluta sumars. Aftur á móti er hálmgresi lítið bitið fyrri hluta sumars en mikið í ágúst.

Af blómjurtunum hefur kornsúra algjöra sérstöðu og er mjög mikið bitin allt sumarið. Margar blómjurtir eru tímabundið áberandi og sumar eru þá töluvert bitnar. Val á blómjurtum virðist þó mun einstaklingsbundnara en valið á grastegundum og víðitegundum. Smári er alltaf bitinn og mjög eftirsóttur þar sem hann er að finna. Það sama gildir um fágætari tegundir eins og burnirót (Rhodiola rosea) og ætihvönn (Angelica archangelica), sem sauðfé tekur á sig krók til að ná í.

Aðrar blómjurtir sem eru mikið bitnar tímabundið eru túnfífill (Taraxacum ssp.), lokasjóður (Rhinanthus minor), vallhumall (Achillea millefolium), maríuvöndur (Gentianella campestris), geldingahnappur (Armeria maritima), svo og hrútaber (Rubus saxatillis). Í einstaka tilfellum hafa þessar blómjurtir verið hátt í helmingur étinnar fæðu í einni átlotu.

Það eru ákveðnar plöntutegundir sem sauðfé sækist ekki eftir að bíta og aðrar sem það beinlínis forðast að éta. Þær fyrrnefndu eru oft tegundir sem hafa lágt næringarinnihald og þær síðarnefndu eru oft eitraðar. Ekki eru margar tegundir eitraðar á Íslandi, en fjölmargar tegundir innihalda efni sem lækka meltanleika þeirra og þar með næringarinnihaldið. Þessi efni eru beisk á bragðið og aukast oft er líður á þroska plöntunnar. Dæmi um slíkar tegundir eru flestar sígrænu runnategundirnar og eru þær allar mjög lítið ef nokkuð bitnar yfir sumarið. Þær hafa þó væntanlega verið mikið bitnar á vetrum þegar ekki var annað að hafa.

Bláberjalyng inniheldur einnig beiskjuefni og eru blöð þess nær ekkert bitin ef annað er í boði. Hins vegar eru bláberin sjálf mikið étin þegar þau ná þroska. Birki inniheldur töluvert af beiskjuefni, sérstaklega þegar líður á sumarið. Þar sem sauðfé er beitt í birkiskóg bíta þær birkið fyrri hluta sumars en lítið sem ekkert er á líður, svo framarlega sem undirgróður er nægur og góður.

Af eitruðum plöntum sem ekki eru snertar má nefna bjarnabrodd eða sýkigras (Tofieldia pusilla). Þetta er smágerð tegund af liljuætt sem liggur oft ofan á sverðinum þar sem sauðfé hefur verið á beit því skepnurnar spýta henni út úr sér. Brennisóley (Ranunculus acris) er alltaf skilin eftir og eykst hlutdeild hennar mikið í túnum sem eru beitt, hvort sem sauðfé, hross eða nautgripir eiga í hlut.

Grastegundir og starir innihalda ekki beiskjuefni en sumar þessarra tegunda eru þó mjög lítið eftirsóttar af sauðfé. Klófífa (Eriophorum angustifolium) er dæmi um slíka tegund sem er alltaf mjög lítið bitin. Fúamýrar með fífu voru hins vegar mikið beittar á vetrum þegar unnt var að fara um þær og ekki mikið annað að hafa. Mælingar sýna einnig að næringargildi fífu er mjög lágt. Sama gildir um þursaskegg (Kobresia myosuroides) sem hefur mikla útbreiðslu og finnst víða. Ótilneytt étur sauðfé ekki þursaskegg, það hefur mjög lágt næringargildi og því lítil umbun í því fólgin að éta það.

Af öðrum tegundum er rétt að nefna sveppina, því margar tegundir sveppa eru mjög eftirsóttar af sauðfé. Eru það sömu tegundir og við sækjumst eftir, svo sem lerkisveppur og kúalubbi. Einnig sækist sauðfé eftir gorkúlum eða merarosti sem vex á berangri. Það eru þó mjög vandfýsið á merarostinn, því ef hann er farinn að dökkna og sporamyndun hafin (breytast yfir í kerlingareld) er honum spýtt út úr sér. Oft má sjá gorkúlur sem fallið hafa á prófinu liggja ofan á sverðinum, hálfar með tannaförum.

Fjölbreytileiki í plöntuvali er sauðfé mikilvægt. Þær krydda tilveruna með innslagi af ýmsum plöntutegundum, sem þær þá geta haldið niðri í sverðinum, ef hlutdeild þeirra er lítil. Þannig ná þær að halda lúpínu niðri ef lítið er af lúpínu, en þar sem mikið er af lúpínu éta þær hlutfallslega lítið af henni, enda plantan töluvert eitruð en þó næringarrík.

Þó nóg framboð sé af mjög næringarríkum plöntum, eins og til dæmis smára, þá étur sauðféð alltaf „grófmeti“ með, eins og grös og starir. Það er nefnilega þannig að fæðuvalið hjá okkur og sauðkindinni er á vissan hátt sambærilegt. Okkur finnst gott að fá rjómaís, en viljum helst ekki borða hann eingöngu.

Heimild: Thórhallsdóttir A. G. and I. Thorsteinsson 1993. Behaviour and plant selection. Búvísindi 7:59-77

Myndir: Floraislands.is

Höfundur

prófessor, Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri

Útgáfudagur

12.3.2004

Spyrjandi

Þórunn Kristinsdóttir

Tilvísun

Anna Guðrún Þórhallsdóttir. „Hvaða plöntur étur sauðfé helst og hvaða tegundir forðast það?“ Vísindavefurinn, 12. mars 2004. Sótt 14. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=4051.

Anna Guðrún Þórhallsdóttir. (2004, 12. mars). Hvaða plöntur étur sauðfé helst og hvaða tegundir forðast það? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4051

Anna Guðrún Þórhallsdóttir. „Hvaða plöntur étur sauðfé helst og hvaða tegundir forðast það?“ Vísindavefurinn. 12. mar. 2004. Vefsíða. 14. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4051>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða plöntur étur sauðfé helst og hvaða tegundir forðast það?
Í svari sama höfundar við spurningunni Hvað ræður fæðuvali sauðfjár? kemur fram að lömb læra fyrst og fremst af mæðrum sínum hvaða plöntutegundir eru fýsilegar til átu. Rannsóknir hafa leitt í ljós að fæðuval sauðfjár er mjög breytilegt, bæði í tíma og rúmi og á milli einstaklinga.

Gerð hefur verið rannsókn á hegðun og fæðuvali sauðfjár hér á landi, samanber heimild sem nefnd er í lok svarsins. Plöntuval var skoðað hjá 20 einstaklingum í mismunandi gróðurlendum og á mismunandi tíma yfir sumarið. Breytileiki milli einstaklinga var mikill en nokkrar plöntur voru alltaf mikið bitnar af öllum einstaklingunum. Er þar helst að nefna grastegundir eins og sveifgrös (Poa ssp.), língresi (Agrostis ssp.), vingla (Festuca ssp.) og stinnastör (Carex bigelowii), einnig grávíði (Salix callicarpea) og kornsúru (Bistorta vivipara). Allar þessar tegundir eru mjög algengar. Einnig er hálmgresi (Calamagrostis neglecta) alltaf mikið bitið þar sem það er að finna, svo og elftingar (Equisetum ssp.) og möðrur (Galium ssp.).

Víðitegundirnar eru alltaf bitnar meira fyrri hluta sumars og starir seinni hluta. Elftingarnar eru aðeins bitnar fyrri hluta sumars en lítið sem ekkert seinni hluta. Um grösin er það að segja að vinglar, sérstaklega túnvingull, eru bitnir fyrri hluta sumars en mjög lítið seinni hluta sumars. Aftur á móti er hálmgresi lítið bitið fyrri hluta sumars en mikið í ágúst.

Af blómjurtunum hefur kornsúra algjöra sérstöðu og er mjög mikið bitin allt sumarið. Margar blómjurtir eru tímabundið áberandi og sumar eru þá töluvert bitnar. Val á blómjurtum virðist þó mun einstaklingsbundnara en valið á grastegundum og víðitegundum. Smári er alltaf bitinn og mjög eftirsóttur þar sem hann er að finna. Það sama gildir um fágætari tegundir eins og burnirót (Rhodiola rosea) og ætihvönn (Angelica archangelica), sem sauðfé tekur á sig krók til að ná í.

Aðrar blómjurtir sem eru mikið bitnar tímabundið eru túnfífill (Taraxacum ssp.), lokasjóður (Rhinanthus minor), vallhumall (Achillea millefolium), maríuvöndur (Gentianella campestris), geldingahnappur (Armeria maritima), svo og hrútaber (Rubus saxatillis). Í einstaka tilfellum hafa þessar blómjurtir verið hátt í helmingur étinnar fæðu í einni átlotu.

Það eru ákveðnar plöntutegundir sem sauðfé sækist ekki eftir að bíta og aðrar sem það beinlínis forðast að éta. Þær fyrrnefndu eru oft tegundir sem hafa lágt næringarinnihald og þær síðarnefndu eru oft eitraðar. Ekki eru margar tegundir eitraðar á Íslandi, en fjölmargar tegundir innihalda efni sem lækka meltanleika þeirra og þar með næringarinnihaldið. Þessi efni eru beisk á bragðið og aukast oft er líður á þroska plöntunnar. Dæmi um slíkar tegundir eru flestar sígrænu runnategundirnar og eru þær allar mjög lítið ef nokkuð bitnar yfir sumarið. Þær hafa þó væntanlega verið mikið bitnar á vetrum þegar ekki var annað að hafa.

Bláberjalyng inniheldur einnig beiskjuefni og eru blöð þess nær ekkert bitin ef annað er í boði. Hins vegar eru bláberin sjálf mikið étin þegar þau ná þroska. Birki inniheldur töluvert af beiskjuefni, sérstaklega þegar líður á sumarið. Þar sem sauðfé er beitt í birkiskóg bíta þær birkið fyrri hluta sumars en lítið sem ekkert er á líður, svo framarlega sem undirgróður er nægur og góður.

Af eitruðum plöntum sem ekki eru snertar má nefna bjarnabrodd eða sýkigras (Tofieldia pusilla). Þetta er smágerð tegund af liljuætt sem liggur oft ofan á sverðinum þar sem sauðfé hefur verið á beit því skepnurnar spýta henni út úr sér. Brennisóley (Ranunculus acris) er alltaf skilin eftir og eykst hlutdeild hennar mikið í túnum sem eru beitt, hvort sem sauðfé, hross eða nautgripir eiga í hlut.

Grastegundir og starir innihalda ekki beiskjuefni en sumar þessarra tegunda eru þó mjög lítið eftirsóttar af sauðfé. Klófífa (Eriophorum angustifolium) er dæmi um slíka tegund sem er alltaf mjög lítið bitin. Fúamýrar með fífu voru hins vegar mikið beittar á vetrum þegar unnt var að fara um þær og ekki mikið annað að hafa. Mælingar sýna einnig að næringargildi fífu er mjög lágt. Sama gildir um þursaskegg (Kobresia myosuroides) sem hefur mikla útbreiðslu og finnst víða. Ótilneytt étur sauðfé ekki þursaskegg, það hefur mjög lágt næringargildi og því lítil umbun í því fólgin að éta það.

Af öðrum tegundum er rétt að nefna sveppina, því margar tegundir sveppa eru mjög eftirsóttar af sauðfé. Eru það sömu tegundir og við sækjumst eftir, svo sem lerkisveppur og kúalubbi. Einnig sækist sauðfé eftir gorkúlum eða merarosti sem vex á berangri. Það eru þó mjög vandfýsið á merarostinn, því ef hann er farinn að dökkna og sporamyndun hafin (breytast yfir í kerlingareld) er honum spýtt út úr sér. Oft má sjá gorkúlur sem fallið hafa á prófinu liggja ofan á sverðinum, hálfar með tannaförum.

Fjölbreytileiki í plöntuvali er sauðfé mikilvægt. Þær krydda tilveruna með innslagi af ýmsum plöntutegundum, sem þær þá geta haldið niðri í sverðinum, ef hlutdeild þeirra er lítil. Þannig ná þær að halda lúpínu niðri ef lítið er af lúpínu, en þar sem mikið er af lúpínu éta þær hlutfallslega lítið af henni, enda plantan töluvert eitruð en þó næringarrík.

Þó nóg framboð sé af mjög næringarríkum plöntum, eins og til dæmis smára, þá étur sauðféð alltaf „grófmeti“ með, eins og grös og starir. Það er nefnilega þannig að fæðuvalið hjá okkur og sauðkindinni er á vissan hátt sambærilegt. Okkur finnst gott að fá rjómaís, en viljum helst ekki borða hann eingöngu.

Heimild: Thórhallsdóttir A. G. and I. Thorsteinsson 1993. Behaviour and plant selection. Búvísindi 7:59-77

Myndir: Floraislands.is...