Fiskar geta ekki blikkað augunum af þeirri einföldu ástæðu að þeir hafa engin augnlok.
Þeir sem eiga gullfiska í búri halda kannski að fiskarnir sofi ekki þar sem þeir loka ekki augunum en allir fiskar sofa - þó að þeir hafi ekki augnlok.
Uppsjávarfiskar eru oftast hreyfingarlausir þegar þeir sofa og margar tegundir ferskvatnsfiska synda undir árbakka á daginn og hvíla sig.
Augnlok manna gegna því hlutverki að verja augun fyrir ryki og ljósi og þau halda augunum einnig rökum með því að dreifa táravökva um þau.
Ef við hefðum ekki augnlok mundu augun á okkur þorna upp á nokkrum mínútum og við gætum fengið sár á hornhimnuna eða sýkingu í augað.
Við blikkum augunum ósjálfrátt um 12 sinnum á mínútu til þess að bleyta þau og táravökvinn ver okkur gegn sýkingum. Af augljósri ástæðu þurfa fiskar ekki að blikka augunum til að bleyta þau.
Heimildir og mynd:- Af hverju blikkar maður augunum og hversu oft blikkar maður að meðaltali á mínútu? eftir Jóhannes Kára Kristinsson
- Sofa fiskar? eftir Jón Má Halldórsson
- Artificial Fish Eyes