Sólin Sólin Rís 08:24 • sest 18:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:57 • Sest 09:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:55 • Síðdegis: 22:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:47 • Síðdegis: 16:07 í Reykjavík

Er búið að finna tíundu reikistjörnuna?

Sævar Helgi Bragason

Athugasemd ritstjórnar: Þegar þetta svar var upphaflega skrifað var ekki til nein formleg skilgreining á reikistjörnum. 24. ágúst árið 2006 samþykkti Alþjóðasamband stjarnfræðinga aftur á móti nýja skilgreiningu, og Sedna fellur ekki undir hana.


Þann 15. mars 2004 tilkynntu þrír stjörnufræðingar við Caltech- og Yaleháskóla að þeir hefðu fundið fjarlægasta hnött sólkerfisins sem sést hefur hingað til. Hnötturinn er núna í um 13 milljarða km fjarlægð frá sólinni, en það er næstum því þrisvar sinnum fjarlægð Neptúnusar og Plútós frá sólu og tvisvar sinnum lengra í burtu en nokkur annar þekktur hnöttur úr Kuipersbeltinu. Í þessari fjarlægð er sólin á stærð við títuprjónshaus og þar er því mjög kalt, um -240°C. Hnötturinn er þess vegna kaldasti staður sólkerfisins.Hnötturinn fannst 14. nóvember 2003 á myndum sem teknar voru úr Oschin-Schmidt-sjónaukanum á Palomarfjalli í Kaliforníu. Síðar hafa margar stjörnurannsóknarstöðvar ljósmyndað hann og gert athuganir.

Upphaflega var hnötturinn til bráðabirgða kallaður 2003 VB12 eftir dagsetningu uppgötvunarinnar. Stjörnufræðingarnir stungu fljótlega upp á að hann skyldi kallaður Sedna eftir hafgyðju inúíta sem bjó í köldum og myrkvuðum helli á botni íshafsins og skóp verur hafsins úr því. Skömmu síðar staðfesti Alþjóðasamband stjarnfræðinga þá nafngift.

Fjarlægðin til Sednu um þessar mundir er talin vera um 13 milljarðar km eða 86 stjarnfræðieiningar. Brautin er mjög ílöng, þegar hnötturinn er næst sólu er fjarlægðin til hans um 76 stjarnfræðieiningar (SE), en þegar hann er lengst frá sólu er fjarlægðin um 880 stjarnfræðieiningar, en gæti verið allt að 1000 SE sem er um 150 milljarðar km. Meðalfjarlægðin er um 480 stjarnfræðieiningar. Sedna fer einn hring um sólina á um 10.500 árum. Til þess að glöggva sig betur á fjarlægðinni er ljósið, sem ferðast á 300.000 km/s, um 12 klukkustundir að berast til Sednu þar sem hún er nú en fimm daga þegar hún er lengst frá sólinni. Til samanburðar er ljósið um 8 mínútur að berast til jarðar, um 15 mínútur til Mars og 4 klukkustundir til Plútós.

Sedna er um 1300 til 1800 km í þvermál, eða um 2/3 af stærð Plútós, sem er nærri 2300 km í þvermál, og um það bil helmingur af stærð tunglsins okkar. Nokkur óvissa ríkir enn um þessar tölur um Sednu, sem og fjarlægðartölurnar. Nánari rannsóknir verða gerðar á næstu mánuðum og árum til að varpa frekari ljósi á þetta.

Efnasamsetning hnattarins er óþekkt en vísindamenn telja að hann sé blanda íss og bergs til helminga, líkt og á við um aðra fjarlæga hnetti sólkerfisins. Sedna virðist hins vegar mjög rauðleit, næstum eins rauðleit og Mars. Ekki er vitað hvernig á því stendur. Stjörnufræðingar telja sig einnig hafa fundið vísbendingar um lítið tungl við Sednu, en það bíður staðfestingar.

Sedna er ekki tíunda reikistjarna sólkerfisins. Hnötturinn er einfaldlega of lítill til að kallast reikistjarna. Hann er hins vegar svokallað reikistirni, eitt svonefndra útstirna sem tilheyra flest Kuipersbeltinu. Kuipersbeltið er safn íshnatta utan við braut Neptúnusar, í um 50 stjarnfræðieininga fjarlægð. Sedna er líklega of langt í burtu til að teljast til Kuipersbeltisins og aðeins í tíunda hluta þeirrar fjarlægðar sem innri brún svokallaðs Oortskýs er talin vera. Þess vegna lítur út fyrir að hnötturinn sé á einskis manns landi, þar sem vísindamenn bjuggust ekki við að finna neitt þessu líkt.

Reikistjörnurnar í sólkerfinu eru því ennþá níu talsins. Uppgötvanir seinustu mánaða á álíka stórum hnöttum hafa þó enn á ný vakið upp þá umræðu hvort flokka eigi Plútó sem reikistjörnu eða sem einn af hnöttum Kuipersbeltisins. Nokkrir stjörnufræðingar hafa til dæmis bent á að menn hefðu líklega ekki talið Plútó til reikistjarna ef hann hefði fundist í dag, í kjölfar nýfundinna útstirna.

Heimildir:

Höfundur

Sævar Helgi Bragason

stjörnufræðikennari

Útgáfudagur

22.3.2004

Spyrjandi

Ingibjörg Auður Guðmundsdóttir, f. 1989
Jóhann Atli Hafliðason, f. 1992
Daniel Ármannsson, f. 1989

Efnisorð

Tilvísun

Sævar Helgi Bragason. „Er búið að finna tíundu reikistjörnuna? “ Vísindavefurinn, 22. mars 2004. Sótt 4. mars 2021. http://visindavefur.is/svar.php?id=4079.

Sævar Helgi Bragason. (2004, 22. mars). Er búið að finna tíundu reikistjörnuna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4079

Sævar Helgi Bragason. „Er búið að finna tíundu reikistjörnuna? “ Vísindavefurinn. 22. mar. 2004. Vefsíða. 4. mar. 2021. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4079>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er búið að finna tíundu reikistjörnuna?
Athugasemd ritstjórnar: Þegar þetta svar var upphaflega skrifað var ekki til nein formleg skilgreining á reikistjörnum. 24. ágúst árið 2006 samþykkti Alþjóðasamband stjarnfræðinga aftur á móti nýja skilgreiningu, og Sedna fellur ekki undir hana.


Þann 15. mars 2004 tilkynntu þrír stjörnufræðingar við Caltech- og Yaleháskóla að þeir hefðu fundið fjarlægasta hnött sólkerfisins sem sést hefur hingað til. Hnötturinn er núna í um 13 milljarða km fjarlægð frá sólinni, en það er næstum því þrisvar sinnum fjarlægð Neptúnusar og Plútós frá sólu og tvisvar sinnum lengra í burtu en nokkur annar þekktur hnöttur úr Kuipersbeltinu. Í þessari fjarlægð er sólin á stærð við títuprjónshaus og þar er því mjög kalt, um -240°C. Hnötturinn er þess vegna kaldasti staður sólkerfisins.Hnötturinn fannst 14. nóvember 2003 á myndum sem teknar voru úr Oschin-Schmidt-sjónaukanum á Palomarfjalli í Kaliforníu. Síðar hafa margar stjörnurannsóknarstöðvar ljósmyndað hann og gert athuganir.

Upphaflega var hnötturinn til bráðabirgða kallaður 2003 VB12 eftir dagsetningu uppgötvunarinnar. Stjörnufræðingarnir stungu fljótlega upp á að hann skyldi kallaður Sedna eftir hafgyðju inúíta sem bjó í köldum og myrkvuðum helli á botni íshafsins og skóp verur hafsins úr því. Skömmu síðar staðfesti Alþjóðasamband stjarnfræðinga þá nafngift.

Fjarlægðin til Sednu um þessar mundir er talin vera um 13 milljarðar km eða 86 stjarnfræðieiningar. Brautin er mjög ílöng, þegar hnötturinn er næst sólu er fjarlægðin til hans um 76 stjarnfræðieiningar (SE), en þegar hann er lengst frá sólu er fjarlægðin um 880 stjarnfræðieiningar, en gæti verið allt að 1000 SE sem er um 150 milljarðar km. Meðalfjarlægðin er um 480 stjarnfræðieiningar. Sedna fer einn hring um sólina á um 10.500 árum. Til þess að glöggva sig betur á fjarlægðinni er ljósið, sem ferðast á 300.000 km/s, um 12 klukkustundir að berast til Sednu þar sem hún er nú en fimm daga þegar hún er lengst frá sólinni. Til samanburðar er ljósið um 8 mínútur að berast til jarðar, um 15 mínútur til Mars og 4 klukkustundir til Plútós.

Sedna er um 1300 til 1800 km í þvermál, eða um 2/3 af stærð Plútós, sem er nærri 2300 km í þvermál, og um það bil helmingur af stærð tunglsins okkar. Nokkur óvissa ríkir enn um þessar tölur um Sednu, sem og fjarlægðartölurnar. Nánari rannsóknir verða gerðar á næstu mánuðum og árum til að varpa frekari ljósi á þetta.

Efnasamsetning hnattarins er óþekkt en vísindamenn telja að hann sé blanda íss og bergs til helminga, líkt og á við um aðra fjarlæga hnetti sólkerfisins. Sedna virðist hins vegar mjög rauðleit, næstum eins rauðleit og Mars. Ekki er vitað hvernig á því stendur. Stjörnufræðingar telja sig einnig hafa fundið vísbendingar um lítið tungl við Sednu, en það bíður staðfestingar.

Sedna er ekki tíunda reikistjarna sólkerfisins. Hnötturinn er einfaldlega of lítill til að kallast reikistjarna. Hann er hins vegar svokallað reikistirni, eitt svonefndra útstirna sem tilheyra flest Kuipersbeltinu. Kuipersbeltið er safn íshnatta utan við braut Neptúnusar, í um 50 stjarnfræðieininga fjarlægð. Sedna er líklega of langt í burtu til að teljast til Kuipersbeltisins og aðeins í tíunda hluta þeirrar fjarlægðar sem innri brún svokallaðs Oortskýs er talin vera. Þess vegna lítur út fyrir að hnötturinn sé á einskis manns landi, þar sem vísindamenn bjuggust ekki við að finna neitt þessu líkt.

Reikistjörnurnar í sólkerfinu eru því ennþá níu talsins. Uppgötvanir seinustu mánaða á álíka stórum hnöttum hafa þó enn á ný vakið upp þá umræðu hvort flokka eigi Plútó sem reikistjörnu eða sem einn af hnöttum Kuipersbeltisins. Nokkrir stjörnufræðingar hafa til dæmis bent á að menn hefðu líklega ekki talið Plútó til reikistjarna ef hann hefði fundist í dag, í kjölfar nýfundinna útstirna.

Heimildir: