Mannfákur er goðsagnaskepna sem einnig er nefnd kentár. Kentárar eru menn að ofan en hestar að neðan eins og sést hér á myndinni. Grikkir til forna töldu þá búa í Norður-Grikklandi. Sumir kentáranna voru líka kennarar, eins og til dæmis Kíron sem átti að hafa kennt kappanum Akkilesi.
Til er fræg saga af kentárnum Nessusi, kappanum Herkúlesi og konu hans Deianöru. Eitt sinn á heimleið komu hjónin að stórri á og Nessus bauðst til að ferja Deianöru yfir. Herkúles synti fyrstur yfir en heyrði konu sína hrópa á hjálp því að Nessus ætlaði að nauðga henni. Þá skaut Herkúles eitraðri ör í hjarta kentársins.
Í dauðateygjunum sagði Nessus Deianöru að blóðið sem rynni úr sári sínu væri þeim eiginleikum gætt að geta endurnýjað ást hjónanna að eilífu. Nokkru síðar þegar Herkúles hafði leyst allar þrautir sínar frétti Deianara að hann væri ástfanginn af annarri konu. Þá sendi hún honum yfirhöfn vætta í blóði kentársins. Herkúles klæddist henni og lét þá nærri því lífið en guðirnir komu honum til bjargar og leyfðu honum að lifa að eilífu á Ólympusfjalli.
Heimildir og myndir:- Hercules
- Mythical Beasts - Centaur
- Encyclopædia Britannica
- Íslenska alfræðiorðabókin, Örn og Örlygur, Reykjavík 1990.
Þetta svar er eftir grunnskólanema á námskeiði Vísindavefsins sem haldið er í samvinnu við samtökin Heimili og skóla og Fræðslumiðstöð Reykjavíkurborgar vegna bráðgerra barna.