Orka er eiginleiki sem hlutir búa yfir. Hún kemur fyrir í ýmsum myndum eða orkuformum. Þar á meðal má nefna stöðuorku, hreyfiorku, raforku, spennuorku, varmaorku, efnaorku og kjarnorku. Sambandið á milli krafts og orku í eðlisfræði felst í hugtaki sem kallast vinna. Þegar verkað er með krafti á hlut sem færist ákveðna vegalengd þá er sagt að krafturinn framkvæmi vinnu. Með því að framkvæma vinnu er hægt að breyta orkuinnihaldi hluta.Þannig er ljóst að steinn sem staðsettur er uppi á fjalli býr yfir meiri stöðuorku en steinn sem liggur í fjörunni. Búið er að framkvæma vinnu við að koma steininum upp á fjallið (hvort sem það var í eldgosi eða á annan hátt) og sú stöðuorka sem vinnan felur steininum geymist í honum. Ef steinninn veltur svo niður af fjallinu minnkar stöðurorka hans og breytist fyrst í hreyfiorku á leiðinni en síðan í varmaorku. Ef duglegur göngugarpur tæki sig nú til flytti stein frá fjörunni og upp á fjall er ljóst að hann þyrfti að erfiða meira, framkvæma meiri vinnu, en ef hann væri án steinsins. Sú aukavinna, knúin áfram af efnaorku göngugarpsins, breytir þá stöðuorku steinsins.
Hvort býr steinn yfir meiri orku uppi á fjalli eða niðri í fjöru?
Útgáfudagur
16.4.2004
Spyrjandi
Anna Sóley
Tilvísun
EÖÞ. „Hvort býr steinn yfir meiri orku uppi á fjalli eða niðri í fjöru?“ Vísindavefurinn, 16. apríl 2004, sótt 9. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4149.
EÖÞ. (2004, 16. apríl). Hvort býr steinn yfir meiri orku uppi á fjalli eða niðri í fjöru? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4149
EÖÞ. „Hvort býr steinn yfir meiri orku uppi á fjalli eða niðri í fjöru?“ Vísindavefurinn. 16. apr. 2004. Vefsíða. 9. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4149>.