Sólin Sólin Rís 02:57 • sest 24:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:51 • Sest 07:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:40 • Síðdegis: 21:03 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:39 • Síðdegis: 14:42 í Reykjavík

Hvað er dómsdagur kristinna manna?

Hjalti Hugason

Kenning kirkjunnar um dómsdag kallast á erlendum málum (þýsku í þessu tilviki) Eschatologie sem þýða mætti sem kenninguna eða orðræðuna um hina hinstu atburði eða endalok tímanna.

Á latínu er ekki rætt um hina hinstu heldur hina nýjustu (de novissimis) atburði. Það undirstrikar að ekki er reiknað með endalokum allra hluta heldur endurnýjun þeirra. Inntak þessara fræða kemur fram í báðum helstu trúarjátningum kirkjunnar. Í lok Postullegu trúarjátningarinnar segir þannig: „Ég trúi á ... fyrirgefningu syndannna, upprisu holdsins (mannsins í nýrri þýðingu) og eilíft líf.“ Í lok Níkeujátningarinnar segir aftur á móti: „Ég ... vænti upprisu dauðra og lífs hinnar komandi aldar.“

Hvernig er dómsdegi spáð í kristinni trú?

Á málfari Nýja testamentisins er dómsdagsspáin sett fram almennt með þeim hætti að upp muni renna lokadægur þessa heims, hinn efsti dagur eða dómsdagur. Þá muni Kristur stíga aftur niður til jarðarinnar, ekki í gervi líðandi þjóns eins og áður fyrr, heldur sem allsherjardómari er dæmi menn eftir verkum þeirra.

Benda má á ýmsa ritningarstaði í þessu sambandi. Matteusarguðspjalli lýkur til dæmis á orðunum: „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Matt. 28: 20) Þarna er greinilega reiknað með endalokum tímanna. Dómsstefið kemur hins vegar skýrt fram í 25. kap. (v. 33-46) sama guðspjalls þar sem rætt er um að hafrarnir (hinir illu) verði skyldir fá sauðunum (hinum góðu) og hvorum um sig goldið að makleikum.

Það rit Nýja testamentisins sem öllum öðrum fremur fjallar þó um þessa hluti er þó Opinberunarbók Jóhannesar, síðasta rit Nýja testamentisins sem lýsir á nákvæman en táknrænan hátt hvernig þessi heimur muni líða undir lok og nýr heimur, Guðs ríki, ganga í garð. Lengst af hefur verið litið svo á að hér sé um hreina framtíðarsýn að ræða.

Þó eru ýmsir ritningarstaðir sem láta annan skilning í ljós eins og þann að ríki Guðs sé þegar orðið að veruleika og hinir síðustu dagar því upp runnir. Er þá vísað til þess ástands sem Kristur kom á hér í heimi með fæðingu sinni, lífi, starfi, boðun, dauða og upprisu. Er þá gjarna vísað til þess að um innri veruleika sé að ræða (sjá til dæmis Lúk. 17.21). Þá má benda á orð Jesú í Matteusarguðspjalli (12: 28) þar sem hann segir að svo fremi sem hann berjist gegn hinu illa i Guð nafni sé „guðsríki komið yfir“ áheyrendur sína og mannkyn allt.

Hugmyndir manna um dómsdag eru samslungnar hugmyndum okkar um dauðann. Margir líta svo á að þegar á dauðastundinni mæti einstaklingurinn dómara sínum og framtíð hans ráðist þá af gjörðum hans í lífinu. Aðrir líta svo á að eftir dauðann „sofi“ allir þar til þeir mæta dómara sínum sameiginlega á efsta degi eða dómsdeginum. Með kenningunni um hreinsunareldinn lítur kaþólska kirkjan með vissum hætti svo á að hvort tveggja þetta eigi sér stað. Þá má benda á að í Gamla testamentisinu merkir sál lífvera almennt en ekki einhver sérstakur andlegur þáttur hennar. Því má líta svo á að enginn veruþáttur mannsins lifi af dauðann heldur deyi maður allur en rísi síðan upp til nýs lífs í Guði og þá á dómsdegi, samanber orð trúarjátninganna.

Í upphafi væntu menn að Kristur mundi snúa aftur til jarðarinnar að skömmum tíma liðnum og setja dóm sinn. Þeir sneru því baki við veraldlegu lífi, til dæmis vinnu, og væntu guðsríkisins. Síðar varð ljóst að nýrrar túlkunar væri þörf. Á ýmsum tímum hafa þó komið fram einstaklingar eða vakningarhópar sem spáð hafa fyrir um dómsdag – annað tveggja í náinni framtíð eða að einhverjum tíma liðnum, sem oft er tiltekinn nákvæmlega. Á síðari öldum er upphaf Aðventistakirkjunnar dæmi um slíka vakningu þótt áherslur hennar hafi breyst síðan.

Veit páfinn hvenær dómsdagur kemur?

Fullyrða má að páfi veit ekki hvenær né hvernig dómsdagur muni verða og ber að gjalda varhug við öllum sem nefna séstakar tímasetningar í því efni eða telja sig hafa glögga vitneskju um hvað muni bíða okkar í framtíðinni. Textar Biblíunnar um þessi efni eru allt of óljósir til að sagt verði fyrir um það með nokkurri vissu.

Á nútímamáli má ef til vill segja að „eskatólógían“ feli í sér þá staðhæfingu að eitt sinn muni sérhver einstaklingur gerður ábyrgur fyrir lífi sínu og breytni. Hin siðræna afleiðing þess er síðan sú að hverjum og einum beri að lifa þannig á hverjum tíma að hann eða hún geti mætt þessum „dómi“ með hreinni samvisku. Þessi vitneskja ætti raunar að nægja okkur og draga úr gildi spurninganna um hvernig eða hvenær dómsdagur muni verða.

Víddirnar „hér“ og „nú“ eru þær sem máli skipta varðandi samband okkar við Guð, sem og hamingju og heill í jarðnesku lífi. Það „innihald“, hugsanir, orð og gjörðir, mun síðan fylgja okkur inn í hina óræðu framtíð.

Höfundur

Hjalti Hugason

prófessor emeritus í guðfræði við HÍ

Útgáfudagur

6.5.2004

Spyrjandi

Margrét Jónsdóttir
Jón Daði, f. 1992
Ingimar Bjarni Sveinsson, f. 1990

Tilvísun

Hjalti Hugason. „Hvað er dómsdagur kristinna manna?“ Vísindavefurinn, 6. maí 2004. Sótt 25. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=4233.

Hjalti Hugason. (2004, 6. maí). Hvað er dómsdagur kristinna manna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4233

Hjalti Hugason. „Hvað er dómsdagur kristinna manna?“ Vísindavefurinn. 6. maí. 2004. Vefsíða. 25. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4233>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er dómsdagur kristinna manna?
Kenning kirkjunnar um dómsdag kallast á erlendum málum (þýsku í þessu tilviki) Eschatologie sem þýða mætti sem kenninguna eða orðræðuna um hina hinstu atburði eða endalok tímanna.

Á latínu er ekki rætt um hina hinstu heldur hina nýjustu (de novissimis) atburði. Það undirstrikar að ekki er reiknað með endalokum allra hluta heldur endurnýjun þeirra. Inntak þessara fræða kemur fram í báðum helstu trúarjátningum kirkjunnar. Í lok Postullegu trúarjátningarinnar segir þannig: „Ég trúi á ... fyrirgefningu syndannna, upprisu holdsins (mannsins í nýrri þýðingu) og eilíft líf.“ Í lok Níkeujátningarinnar segir aftur á móti: „Ég ... vænti upprisu dauðra og lífs hinnar komandi aldar.“

Hvernig er dómsdegi spáð í kristinni trú?

Á málfari Nýja testamentisins er dómsdagsspáin sett fram almennt með þeim hætti að upp muni renna lokadægur þessa heims, hinn efsti dagur eða dómsdagur. Þá muni Kristur stíga aftur niður til jarðarinnar, ekki í gervi líðandi þjóns eins og áður fyrr, heldur sem allsherjardómari er dæmi menn eftir verkum þeirra.

Benda má á ýmsa ritningarstaði í þessu sambandi. Matteusarguðspjalli lýkur til dæmis á orðunum: „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Matt. 28: 20) Þarna er greinilega reiknað með endalokum tímanna. Dómsstefið kemur hins vegar skýrt fram í 25. kap. (v. 33-46) sama guðspjalls þar sem rætt er um að hafrarnir (hinir illu) verði skyldir fá sauðunum (hinum góðu) og hvorum um sig goldið að makleikum.

Það rit Nýja testamentisins sem öllum öðrum fremur fjallar þó um þessa hluti er þó Opinberunarbók Jóhannesar, síðasta rit Nýja testamentisins sem lýsir á nákvæman en táknrænan hátt hvernig þessi heimur muni líða undir lok og nýr heimur, Guðs ríki, ganga í garð. Lengst af hefur verið litið svo á að hér sé um hreina framtíðarsýn að ræða.

Þó eru ýmsir ritningarstaðir sem láta annan skilning í ljós eins og þann að ríki Guðs sé þegar orðið að veruleika og hinir síðustu dagar því upp runnir. Er þá vísað til þess ástands sem Kristur kom á hér í heimi með fæðingu sinni, lífi, starfi, boðun, dauða og upprisu. Er þá gjarna vísað til þess að um innri veruleika sé að ræða (sjá til dæmis Lúk. 17.21). Þá má benda á orð Jesú í Matteusarguðspjalli (12: 28) þar sem hann segir að svo fremi sem hann berjist gegn hinu illa i Guð nafni sé „guðsríki komið yfir“ áheyrendur sína og mannkyn allt.

Hugmyndir manna um dómsdag eru samslungnar hugmyndum okkar um dauðann. Margir líta svo á að þegar á dauðastundinni mæti einstaklingurinn dómara sínum og framtíð hans ráðist þá af gjörðum hans í lífinu. Aðrir líta svo á að eftir dauðann „sofi“ allir þar til þeir mæta dómara sínum sameiginlega á efsta degi eða dómsdeginum. Með kenningunni um hreinsunareldinn lítur kaþólska kirkjan með vissum hætti svo á að hvort tveggja þetta eigi sér stað. Þá má benda á að í Gamla testamentisinu merkir sál lífvera almennt en ekki einhver sérstakur andlegur þáttur hennar. Því má líta svo á að enginn veruþáttur mannsins lifi af dauðann heldur deyi maður allur en rísi síðan upp til nýs lífs í Guði og þá á dómsdegi, samanber orð trúarjátninganna.

Í upphafi væntu menn að Kristur mundi snúa aftur til jarðarinnar að skömmum tíma liðnum og setja dóm sinn. Þeir sneru því baki við veraldlegu lífi, til dæmis vinnu, og væntu guðsríkisins. Síðar varð ljóst að nýrrar túlkunar væri þörf. Á ýmsum tímum hafa þó komið fram einstaklingar eða vakningarhópar sem spáð hafa fyrir um dómsdag – annað tveggja í náinni framtíð eða að einhverjum tíma liðnum, sem oft er tiltekinn nákvæmlega. Á síðari öldum er upphaf Aðventistakirkjunnar dæmi um slíka vakningu þótt áherslur hennar hafi breyst síðan.

Veit páfinn hvenær dómsdagur kemur?

Fullyrða má að páfi veit ekki hvenær né hvernig dómsdagur muni verða og ber að gjalda varhug við öllum sem nefna séstakar tímasetningar í því efni eða telja sig hafa glögga vitneskju um hvað muni bíða okkar í framtíðinni. Textar Biblíunnar um þessi efni eru allt of óljósir til að sagt verði fyrir um það með nokkurri vissu.

Á nútímamáli má ef til vill segja að „eskatólógían“ feli í sér þá staðhæfingu að eitt sinn muni sérhver einstaklingur gerður ábyrgur fyrir lífi sínu og breytni. Hin siðræna afleiðing þess er síðan sú að hverjum og einum beri að lifa þannig á hverjum tíma að hann eða hún geti mætt þessum „dómi“ með hreinni samvisku. Þessi vitneskja ætti raunar að nægja okkur og draga úr gildi spurninganna um hvernig eða hvenær dómsdagur muni verða.

Víddirnar „hér“ og „nú“ eru þær sem máli skipta varðandi samband okkar við Guð, sem og hamingju og heill í jarðnesku lífi. Það „innihald“, hugsanir, orð og gjörðir, mun síðan fylgja okkur inn í hina óræðu framtíð....