Sólin Sólin Rís 03:29 • sest 23:24 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 03:35 • Sest 09:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:38 • Síðdegis: 23:07 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:33 • Síðdegis: 16:38 í Reykjavík

Hvernig verða óshólmar til?

Jón Eiríksson

Óshólmar eru hluti af óseyrum, en þær myndast í náttúrunni þegar straumvatn fellur til hafs eða stöðuvatns. Óseyrar eru oft kvíslóttar og vogskornar, þannig að fram kemur fjöldi óshólma eða landeyja. Í hverri óseyri takast á uppbyggjandi starf árinnar sem flytur set að óseyrinni og niðurrif öldugangs og sjávarfalla, sem leitast við að flytja setið meðfram strönd eða eftir hafsbotninum.

Fyrir myndun óshólma eru tvær meginástæður, önnur felst í framþróun sjálfs árfarvegarins, en hin tengist ferlum við ströndina.

Af framburðarstarfi árinnar leiðir að farvegur hennar leitast við að lengjast til hafs eða stöðuvatns. Þannig mundi ósinn færast utar og utar, og óseyrin stækka til hafs, ef áin væri ótrufluð af ágangi sjávar. Vegna þess að hæð áróssins ákvarðast af sjávarmáli verður ysti hluti farvegarins smám saman mjög flatur og nærri láréttur. Þetta dregur úr straumhraða í farveginum, áin missir smám saman máttinn og framburður hennar stöðvast og fellur til botns. Að endingu getur farvegurinn ekki lengur annað afrennsli frá landi og þá leitar rennslið til hliðar innar á óseyrinni og ný kvísl streymir til hafs á nýjum stað. Síendurteknir bakkabrestir af þessu tagi leiða til þess að óseyrin verður kvíslótt og hólmarnir á milli kallast óshólmar.

Brim og stríðir öldustraumar meðfram ströndum geta stíflað árósa eða sveigt þá með landi. Þannig geta ósarnir orðið breytilegir og skilið eftir sandhólma eða slitrótt rif. Eyjar af þessu tagi kallast venjulega einnig óshólmar. Þar sem munur flóðs og fjöru er mikill verður bakflæði í árósum, og vatnið streymir inn til lands eftir árfarvegum eða vöðlum á hverju flóði. Þetta eykur líkurnar á því að óseyrarnar verði kvíslóttar, því að framburðurinn kemst ekki greiða leið til hafs eða stöðuvatns. Milli vaðlanna eru þá óshólmar og eyrar, sem eru oft og tíðum grasi vaxnar, en einkennast einnig af smádýralífi sem þrífst í söltu eða hálfsöltu vatni. Þess konar umhverfi er kallað sjávarfitjar og gróðurinn fitjungur.

Á neðsta hluta Markarfljótsaura eru svonefndar Landeyjar, þar sem fljótið kvíslast þegar nær dregur sjó (sjá mynd hér að neðan). Þótt mörg stórfljót falli til hafs á Suðurlandi er strandlengjan fyrst og fremst mótuð af ægi en árósarnir eru breytilegir í tímans rás því hafaldan hrekur þá víða til undan veðri og vindum. Á Vesturlandi ber meira á óshólmum og eyrum sem tengjast sjávaföllum inn eftir óseyrum, en á Norður- og Austurlandi eru flestar óseyrar innanvert í fjörðum og kvíslóttar árnar afmarka sjálfar hólma og eyrar.


Höfundur

jarðfræðingur við Raunvísindastofnun

Útgáfudagur

6.5.2004

Spyrjandi

Stefán Þór Helgason, f. 1989

Tilvísun

Jón Eiríksson. „Hvernig verða óshólmar til?“ Vísindavefurinn, 6. maí 2004. Sótt 29. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=4234.

Jón Eiríksson. (2004, 6. maí). Hvernig verða óshólmar til? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4234

Jón Eiríksson. „Hvernig verða óshólmar til?“ Vísindavefurinn. 6. maí. 2004. Vefsíða. 29. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4234>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig verða óshólmar til?
Óshólmar eru hluti af óseyrum, en þær myndast í náttúrunni þegar straumvatn fellur til hafs eða stöðuvatns. Óseyrar eru oft kvíslóttar og vogskornar, þannig að fram kemur fjöldi óshólma eða landeyja. Í hverri óseyri takast á uppbyggjandi starf árinnar sem flytur set að óseyrinni og niðurrif öldugangs og sjávarfalla, sem leitast við að flytja setið meðfram strönd eða eftir hafsbotninum.

Fyrir myndun óshólma eru tvær meginástæður, önnur felst í framþróun sjálfs árfarvegarins, en hin tengist ferlum við ströndina.

Af framburðarstarfi árinnar leiðir að farvegur hennar leitast við að lengjast til hafs eða stöðuvatns. Þannig mundi ósinn færast utar og utar, og óseyrin stækka til hafs, ef áin væri ótrufluð af ágangi sjávar. Vegna þess að hæð áróssins ákvarðast af sjávarmáli verður ysti hluti farvegarins smám saman mjög flatur og nærri láréttur. Þetta dregur úr straumhraða í farveginum, áin missir smám saman máttinn og framburður hennar stöðvast og fellur til botns. Að endingu getur farvegurinn ekki lengur annað afrennsli frá landi og þá leitar rennslið til hliðar innar á óseyrinni og ný kvísl streymir til hafs á nýjum stað. Síendurteknir bakkabrestir af þessu tagi leiða til þess að óseyrin verður kvíslótt og hólmarnir á milli kallast óshólmar.

Brim og stríðir öldustraumar meðfram ströndum geta stíflað árósa eða sveigt þá með landi. Þannig geta ósarnir orðið breytilegir og skilið eftir sandhólma eða slitrótt rif. Eyjar af þessu tagi kallast venjulega einnig óshólmar. Þar sem munur flóðs og fjöru er mikill verður bakflæði í árósum, og vatnið streymir inn til lands eftir árfarvegum eða vöðlum á hverju flóði. Þetta eykur líkurnar á því að óseyrarnar verði kvíslóttar, því að framburðurinn kemst ekki greiða leið til hafs eða stöðuvatns. Milli vaðlanna eru þá óshólmar og eyrar, sem eru oft og tíðum grasi vaxnar, en einkennast einnig af smádýralífi sem þrífst í söltu eða hálfsöltu vatni. Þess konar umhverfi er kallað sjávarfitjar og gróðurinn fitjungur.

Á neðsta hluta Markarfljótsaura eru svonefndar Landeyjar, þar sem fljótið kvíslast þegar nær dregur sjó (sjá mynd hér að neðan). Þótt mörg stórfljót falli til hafs á Suðurlandi er strandlengjan fyrst og fremst mótuð af ægi en árósarnir eru breytilegir í tímans rás því hafaldan hrekur þá víða til undan veðri og vindum. Á Vesturlandi ber meira á óshólmum og eyrum sem tengjast sjávaföllum inn eftir óseyrum, en á Norður- og Austurlandi eru flestar óseyrar innanvert í fjörðum og kvíslóttar árnar afmarka sjálfar hólma og eyrar.


...