Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er munurinn á ameríska og evrópska vísundinum?

Flestir dýrafræðingar telja ameríska og evrópska vísundinn vera sitt hvora tegundina. Sá ameríski nefnist Bison bison en sá evrópski Bison bonasus. Tegundirnar eiga sameiginlegan forföður en hafa verið aðskildar í langan tíma.

Amerískir og evrópskir vísundar geta átt saman frjó afkvæmi og þess vegna telja sumir að rétt sé að skilgreina þá sem eina tegund. Ekki er þó víst að afkvæmi þeirra yrðu dugandi.

Höfuðlag ameríska og evrópska vísundsins er svipað og feldur þeirra er dökkbrúnn. Tegundirnar hafa báðar þétt, krullað hár á herðum, kringum háls og frameftir bringu. Makkinn er þó mun meira áberandi og tignalegri á þeim ameríska. Líkamsbygging þeirra er svipuð en þó má sjá talsverðan mun á sköpulagi dýranna. Evrópski vísundurinn er til dæmis aðeins minni og lappalengri en frændi hans frá Norður-Ameríku.


Evrópski vísundurinn

Sameiginlegur forfaðir tegundanna hefur sennilega lifað á Indlandi og þaðan breiðst norður eftir Mið-Asíu. Annar hópurinn fór austur eftir Síberíu og loks yfir landsvæði sem tengdi Síberíu við Alaska og hefur verið nefnt Beringia. Hin greinin fór í vesturátt, til Evrópu.

Báðar tegundirnar hafa verið í mikilli útrýmingarhættu síðastliðin hundrað ár. Vísindamönnum hefur tekist, með skipulögðum aðgerðum og stofnun verndarsvæða, að bjarga þeim úr mestri hættu. Reyndar var evrópska vísundinum útrýmt í náttúrunni snemma á síðustu öld en sem betur fer voru nokkur dýr eftir í dýragörðum.


Ameríski vísundurinn

Evrópskir vísundar eru nú um 3.200 talsins og fer þeim fjölgandi. Þeir hafa verið fluttir til svæða þar sem þeir lifðu áður, til dæmis í Rússlandi, Hvíta-Rússlandi og Litháen. Upprunalegar hjarðir eru í skógum í Póllandi, Kyrgistan og Úkraínu. Langflestir evrópsku vísundarnir lifa nú í Bialowieza skóglendinu í Póllandi. Skógurinn þar er ómetanlegur fyrir dýralíf í álfunni en þar búa 62 tegundir spendýra, þar á meðal úlfar og gaupur.

Ameríska vísundinum er skipt upp í tvær deilitegundir. Þær eru skógarvísundurinn (Bison bison athabascae) og sléttuvísindurinn (Bison bison bison). Þegar landnemar settust að í Ameríku á 19. öld var milljónum sléttuvísunda slátrað. Talið er að fyrir tíð Evrópumanna hafi fjöldi sléttuvísunda verið um 60 miljón dýr en árið 1890 þegar hann var friðaður voru einungis eftir um 1000 dýr. Með friðunaraðgerðum hefur tekist að bjarga tegundinni frá útdauða og telst stofninn vera í kringum 75 þúsund dýr. Skógarvísundarnir finnast einungis á skógarsvæðum Kanada og eru þeir aðeins um 3.500.

Myndir

Heimildir

  • Meagher, M. 1986. "Bison bison." Mammalian Species. The American Society of Mammalogists.
  • Pucek, Z. 1984. "What to do with the European bison, now saved from extinction?" Acta Zoologica Fennica, 172: 187-190.
  • American Park Network

Útgáfudagur

3.6.2004

Spyrjandi

Þórdís Þórsdóttir, f. 1987

Efnisorð

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hver er munurinn á ameríska og evrópska vísundinum?“ Vísindavefurinn, 3. júní 2004. Sótt 15. september 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=4317.

Jón Már Halldórsson. (2004, 3. júní). Hver er munurinn á ameríska og evrópska vísundinum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4317

Jón Már Halldórsson. „Hver er munurinn á ameríska og evrópska vísundinum?“ Vísindavefurinn. 3. jún. 2004. Vefsíða. 15. sep. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4317>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Gunnþórunn Guðmundsdóttir

1968

Gunnþórunn Guðmundsdóttir er prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Rannsóknarsvið hennar er einkum samtímabókmenntir frá ýmsum löndum og hefur hún rannsakað og kennt námskeið um sjálfsævisöguleg skrif af ýmsum toga.