Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Stutta svarið er já: Hlutir kólna þeim mun hraðar sem meiri munur er á upphaflegum hita þeirra og hitanum (kuldanum) í umhverfinu.
Bjórflaska eða flaska með öðrum vökva kólnar talsvert örar ef hún er sett í frysti en í kæliskáp. Dæmigerður hiti í frystikistu er um það bil -18°C eða 18 stiga frost en í kæliskápum er hitinn oft um 5°C eða 5 stig. Eigandi bjórflöskunnar ætti hins vegar að gæta að því að vatnið sem er í bjórnum í flöskunni getur frosið í frystikistunni. Þá þenst það út um leið en flaskan dregst saman heldur en hitt, þannig að hún springur og brotnar. Þetta getur líka gerst til dæmis ef bjórflöskur gleymast í bíl í frosti. Ef bjórinn er í áldós dregst hún saman við kólnunina enn frekar en flaskan og er þá líklegt að dósin gefi sig undan átakinu þó að hún brotni að vísu ekki.
En þess má líka geta að bjór í dós kólnar hraðar en bjór í flösku vegna þess að glerið í flöskunni er einangrari og flytur varma treglega en málmurinn í dósinni er leiðari og leiðir varmann vel. Ef bjórinn er kaldari en umhverfið hitnar hann eða volgnar líka hraðar ef hann er í dós en í flösku.
Þó að ís myndist í bjór í kulda þarf til þess nokkru meiri kulda eða meira frost en til þess að hreint vatn breytist í ís. Þessi frostmarkslækkun er þeim mun meiri sem vínandi eða alkóhól er meira í vökvanum. Þess vegna er óhætt að setja vínanda með 40% styrk, til dæmis brennd vín, í frysti með 18 stiga frosti. Þó má ekki mikið út af bera með styrk vökvans eða kuldann í frystinum til þess að krap fari að myndast í flöskunni.
Enn er þess að geta að bjór í dós eða flösku kólnar örar ef hann er látinn liggja í 5 stiga heitu vatni en í jafnheitu lofti, til dæmis í kæliskáp. Þetta gildir þó einkum ef nokkurt rennsli er í vatninu og stafar af því að vatnið ber eða leiðir varmann mun örar burt frá ílátinu en loftið sem er einangrandi. Þessi munur er hliðstæður því sem rakið er í svari okkar við spurningunni Hvernig stendur á því að við brennum okkur á 80-100°C heitu vatni en getum setið í jafnheitu gufubaði án þess að brenna okkur?
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Kólna drykkir hraðar eftir því sem þeir eru í kaldara rými, eins og ef maður lætur bjór í frysti í staðinn fyrir ísskáp?“ Vísindavefurinn, 14. september 2004, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4510.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2004, 14. september). Kólna drykkir hraðar eftir því sem þeir eru í kaldara rými, eins og ef maður lætur bjór í frysti í staðinn fyrir ísskáp? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4510
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Kólna drykkir hraðar eftir því sem þeir eru í kaldara rými, eins og ef maður lætur bjór í frysti í staðinn fyrir ísskáp?“ Vísindavefurinn. 14. sep. 2004. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4510>.