Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:16 • Sest 01:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:14 • Síðdegis: 12:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:10 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:16 • Sest 01:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:14 • Síðdegis: 12:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:10 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig verka brúnkukrem?

Bárður Sigurgeirsson

Vísindavefnum hafa borist nokkrar spurningar um brúnkukrem enda hefur notkun slíkra krema aukist verulega síðustu misserin. Hér er einnig að finna svar við spurningunum:
  • Eru brúnkukrem (sólbrúnka án sólar) á einhvern hátt skaðleg húðinni?
  • Hvernig verkar brúnkukrem? Er það bara litarefni sem klessist á húðina eða örvar það litafrumurnar? Er það hættulegt?
  • Hafa verið gerðar rannsóknir á því hvort brúnkukrem hafi skaðleg áhrif á húðina?

Aðrir spyrjendur eru: Steinunn Snorradóttir, Ósk Atladóttir, Hildur Guðjónsdóttir, Þuríður Eiríksdóttir, Ragnhildur Jónsdóttir, Auður Blöndal og Valborg Guðmundsdóttir.

Flest brúnkukrem innihalda efnið dihydroxyacetone (DHA), en einnig eru til efni sem innihalda svokölluð „bronzers“ sem eru vatnsleysanleg litarefni. Þau síðarnefndu hafa mjög tímabundna virkni og það er hægt að þvo þau í burtu með vatni og sápu.

Þau brúnkukrem sem innihalda DHA verka þannig að DHA gengur í efnasamband við ákveðnar amínósýrur sem er að finna í ríkum mæli í efstu lögum húðarinnar. Við efnahvarfið myndast brún litarefni sem kölluð hafa verið „melanoidin“. Breytingar á lit húðarinnar koma fyrst fram um 1 klukkustund eftir að efnið er borið á og ná hámarki eftir 8-24 klukkustundir. Liturinn dofnar síðan og hverfur á 5-7 dögum.



Flest brúnkuefni innihalda 3-5% DHA, oft með ýmsum öðrum efnum. Til dæmis innihalda sum kremin önnur litarefni („bronzers“) og jafnvel sólvarnarefni. Benda má á að brúni liturinn sem myndast þegar DHA gengur í efnasamband við amínósýrur í húðinni myndar ekki vörn gegn geislum sólarinnar á sama hátt og náttúrulegur brúnn litur.

Einnig er áberandi að brúni liturinn sem myndast af brúnkukremum er venjulega sterkari þar sem húðin er þykk til dæmis á lófum, iljum, hnjám og olnbogum. Þess vegna er oftast mælt með því að þessi svæði, auk hársins, séu varin þegar brúnkukrem er notað. Liturinn verður einnig oft mjög ójafn hjá einstaklingum sem hafa einhverja húðsjúkdóma, eins og til dæmis exem.

Ýmsar aðferðir eru notaðar til þess að koma efninu á húðina. Í flestum apótekum er hægt að kaupa brúnkukrem sem einstaklingar bera á sig sjálfir. Þau geta verið vandmeðfarin og ef illa tekst til getur húðliturinn orðið býsna ójafn. Margir komast þó mjög vel upp á lagið með að nota slík krem og ná jöfnum og góðum lit. Margar snyrtistofur bjóða upp á þjónustu þar sem efnin eru borin á húðina af snyrtifræðingi eða þeim er úðað á húðina í svokölluðum brúnkuklefa eftir að ákveðin svæði hafa verið hulin. Slík úðun tekur venjulega minna en eina mínútu.



Vegna þess hve notkun þessara efna er mikil í Bandaríkjunum hefur lyfjaeftirlitið þar gefið út almennar ráðleggingar til þess að draga úr líkum á því að DHA komist inn í líkamann. Ráðlagt er að augun séu varin og lokuð og að einstaklingurinn haldi niðri í sér andanum á meðan úðunin fer fram. Einnig ættu ófrískar konur og einstaklingar með asma eða ofnæmi að sneiða hjá slíkri úðun.

Lítið hefur verið gert af rannsóknum til að meta öryggi DHA, en nú þegar notkun efnisins hefur aukist mjög mikið er nauðsynlegt að framkvæmdar verið langtímarannsóknir á öryggi þess. Enn sem komið er virðist þó ekkert benda til þess að efnið sé skaðlegt og er það því mikilvægur valkostur fyrir þá sem vilja hafa brúnan húðlit.

Hinn valkosturinn, ljósaböð eða sólböð, hefur í för með sér aukna hættu á húðkrabbameinum. Auk þess geta útfjólubláir geislar valdið sólbruna og öldrun húðarinnar. Faraldsfræðilegar rannsóknir hafa sýnt að hætta á flöguþekjukrabbameinum tengist heildargeislamagni, en sortuæxli og grunnfrumkrabbamein hafa verið tengd við óreglulega sólun. Sortuæxli hafa einnig verið tengd sólbrunum og sólböðum í æsku.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir eru margir tilbúnir að greiða hátt verð fyrir brúnan húðlit og fyrir þessa einstaklinga er líklegt að notkun brúnkrema í stað ljósa- og sólbaða dragi úr hættu á húðkrabbameinum.

Skoðið einnig svör við spurningunum Eru meiri líkur á að fá húðkrabbamein í ljósabekkjum en í sól? eftir sama höfund og Hvað er sortuæxli og hvað gerir það? eftir Helgu Ögmundsdóttur.

Að lokum skal bent á heimasíðuna cutis.is þar sem er að finna frekari fróðleik um húðhirðu og húðsjúkdóma. Þar er til dæmis fjallað um húðkrabbamein, sólböð og ljósabekkjanotkun.

Mynd: The Pensacola News Journal

Höfundur

húðsjúkdómalæknir

Útgáfudagur

21.10.2004

Spyrjandi

Örn Gunnarsson

Tilvísun

Bárður Sigurgeirsson. „Hvernig verka brúnkukrem?“ Vísindavefurinn, 21. október 2004, sótt 9. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4569.

Bárður Sigurgeirsson. (2004, 21. október). Hvernig verka brúnkukrem? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4569

Bárður Sigurgeirsson. „Hvernig verka brúnkukrem?“ Vísindavefurinn. 21. okt. 2004. Vefsíða. 9. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4569>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig verka brúnkukrem?
Vísindavefnum hafa borist nokkrar spurningar um brúnkukrem enda hefur notkun slíkra krema aukist verulega síðustu misserin. Hér er einnig að finna svar við spurningunum:

  • Eru brúnkukrem (sólbrúnka án sólar) á einhvern hátt skaðleg húðinni?
  • Hvernig verkar brúnkukrem? Er það bara litarefni sem klessist á húðina eða örvar það litafrumurnar? Er það hættulegt?
  • Hafa verið gerðar rannsóknir á því hvort brúnkukrem hafi skaðleg áhrif á húðina?

Aðrir spyrjendur eru: Steinunn Snorradóttir, Ósk Atladóttir, Hildur Guðjónsdóttir, Þuríður Eiríksdóttir, Ragnhildur Jónsdóttir, Auður Blöndal og Valborg Guðmundsdóttir.

Flest brúnkukrem innihalda efnið dihydroxyacetone (DHA), en einnig eru til efni sem innihalda svokölluð „bronzers“ sem eru vatnsleysanleg litarefni. Þau síðarnefndu hafa mjög tímabundna virkni og það er hægt að þvo þau í burtu með vatni og sápu.

Þau brúnkukrem sem innihalda DHA verka þannig að DHA gengur í efnasamband við ákveðnar amínósýrur sem er að finna í ríkum mæli í efstu lögum húðarinnar. Við efnahvarfið myndast brún litarefni sem kölluð hafa verið „melanoidin“. Breytingar á lit húðarinnar koma fyrst fram um 1 klukkustund eftir að efnið er borið á og ná hámarki eftir 8-24 klukkustundir. Liturinn dofnar síðan og hverfur á 5-7 dögum.



Flest brúnkuefni innihalda 3-5% DHA, oft með ýmsum öðrum efnum. Til dæmis innihalda sum kremin önnur litarefni („bronzers“) og jafnvel sólvarnarefni. Benda má á að brúni liturinn sem myndast þegar DHA gengur í efnasamband við amínósýrur í húðinni myndar ekki vörn gegn geislum sólarinnar á sama hátt og náttúrulegur brúnn litur.

Einnig er áberandi að brúni liturinn sem myndast af brúnkukremum er venjulega sterkari þar sem húðin er þykk til dæmis á lófum, iljum, hnjám og olnbogum. Þess vegna er oftast mælt með því að þessi svæði, auk hársins, séu varin þegar brúnkukrem er notað. Liturinn verður einnig oft mjög ójafn hjá einstaklingum sem hafa einhverja húðsjúkdóma, eins og til dæmis exem.

Ýmsar aðferðir eru notaðar til þess að koma efninu á húðina. Í flestum apótekum er hægt að kaupa brúnkukrem sem einstaklingar bera á sig sjálfir. Þau geta verið vandmeðfarin og ef illa tekst til getur húðliturinn orðið býsna ójafn. Margir komast þó mjög vel upp á lagið með að nota slík krem og ná jöfnum og góðum lit. Margar snyrtistofur bjóða upp á þjónustu þar sem efnin eru borin á húðina af snyrtifræðingi eða þeim er úðað á húðina í svokölluðum brúnkuklefa eftir að ákveðin svæði hafa verið hulin. Slík úðun tekur venjulega minna en eina mínútu.



Vegna þess hve notkun þessara efna er mikil í Bandaríkjunum hefur lyfjaeftirlitið þar gefið út almennar ráðleggingar til þess að draga úr líkum á því að DHA komist inn í líkamann. Ráðlagt er að augun séu varin og lokuð og að einstaklingurinn haldi niðri í sér andanum á meðan úðunin fer fram. Einnig ættu ófrískar konur og einstaklingar með asma eða ofnæmi að sneiða hjá slíkri úðun.

Lítið hefur verið gert af rannsóknum til að meta öryggi DHA, en nú þegar notkun efnisins hefur aukist mjög mikið er nauðsynlegt að framkvæmdar verið langtímarannsóknir á öryggi þess. Enn sem komið er virðist þó ekkert benda til þess að efnið sé skaðlegt og er það því mikilvægur valkostur fyrir þá sem vilja hafa brúnan húðlit.

Hinn valkosturinn, ljósaböð eða sólböð, hefur í för með sér aukna hættu á húðkrabbameinum. Auk þess geta útfjólubláir geislar valdið sólbruna og öldrun húðarinnar. Faraldsfræðilegar rannsóknir hafa sýnt að hætta á flöguþekjukrabbameinum tengist heildargeislamagni, en sortuæxli og grunnfrumkrabbamein hafa verið tengd við óreglulega sólun. Sortuæxli hafa einnig verið tengd sólbrunum og sólböðum í æsku.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir eru margir tilbúnir að greiða hátt verð fyrir brúnan húðlit og fyrir þessa einstaklinga er líklegt að notkun brúnkrema í stað ljósa- og sólbaða dragi úr hættu á húðkrabbameinum.

Skoðið einnig svör við spurningunum Eru meiri líkur á að fá húðkrabbamein í ljósabekkjum en í sól? eftir sama höfund og Hvað er sortuæxli og hvað gerir það? eftir Helgu Ögmundsdóttur.

Að lokum skal bent á heimasíðuna cutis.is þar sem er að finna frekari fróðleik um húðhirðu og húðsjúkdóma. Þar er til dæmis fjallað um húðkrabbamein, sólböð og ljósabekkjanotkun.

Mynd: The Pensacola News Journal...