Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:03 • Sest 14:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:54 • Síðdegis: 16:02 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:06 • Síðdegis: 22:16 í Reykjavík

Verða ruslatunnur í framtíðinni lítil svarthol?

Lárus Thorlacius og Þorsteinn Vilhjálmsson

Svarið er að við höfum ekki trú á þessu af ýmsum ástæðum. Svarthol eru ekki þægilegir nágrannar og athuganda sýnist ekki að hlutir falli nokkurn tímann inn fyrir sjónhvörfin. Við mundum því geta skynjað rafsegulgeislun frá ruslinu til eilífðarnóns eða jafnlengi og svartholið varir! Þyngdarkraftar frá svartholinu yrðu til óþæginda. Auk þess eru minni háttar svarthol eins konar tímasprengjur og geysileg orka losnar þegar þau springa.


Fjallað er nánar um svarthol almennt í svari Tryggva Þorgeirssonar og Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hvað er svarthol?

Eftir því sem við best vitum eru svarthol ekki beinlínis þægilegir nágrannar. Flest þeirra eru sem næst ósýnileg en jafnframt orka þau á mann með verulegum þyngdarkrafti. Og ef maður flækist of nálægt er voðinn vís. Hver mundi vilja hafa svona fyrirbæri í garðinum hjá sér?

Það er að vísu rétt að menn telja nú að lítil svarthol kunni að vera til, og þá merkir orðið "lítill" að upphaflegur massi hafi verið óverulegur. En engu að síður eru sjónhvörf kringum hvert svarthol. Þegar hlutur eins og ruslið frá okkur fellur í átt að svartholinu sýnist athuganda fyrir utan það hluturinn fara hægar og hægar þegar hann nálgast sjónhvörfin og hluturinn virðist aldrei fara inn fyrir þau. Ef við fengjum okkur svarthol fyrir ruslatunnu mætti því ætla að við hefðum ruslið fyrir augunum til eilífðarnóns. Svo er þó ekki þegar betur er að gáð því að þyngdarsvið svartholsins veldur svo miklu rauðviki í ljósinu frá ruslinu að það mundi birtast okkur sem útvarpsbylgjur.

Í fyrrnefndu svari um svarthol almennt er meðal annars fjallað um sjávarfallakrafta en þeir leitast við að slíta í sundur hluti í grennd við svartholið, til dæmis nálægt sjónhvörfum. Á því svæði eru þessir kraftar þeim mun meiri sem svartholið er minna. Ef við værum sjálf á þessu svæði eða féllum í átt að svartholinu mundum við slitna sundur og það gerist jafnvel enn fyrr við lítið svarthol en stórt.

Nú sýnist kannski einhverjum vera mótsögn í þessu, að annars vegar sé sagt að hlutirnir stöðvist en hins vegar að þeir falli og slitni sundur. En þetta er einmitt ekki mótsögn heldur skýrist það af grundvallarhugsun afstæðiskenningarinnar, að útlit hluta og atburðarása fer eftir því frá hvaða viðmiðunarkerfi er horft á það. Annars vegar horfum við á annan hlut falla inn að svartholinu en erum sjálf kyrr fyrir utan það, og hins vegar erum við að lýsa því sem við yrðum fyrir ef við féllum sjálf þarna inn. Viðmiðunarkerfið er þá ekki lengur kyrrt miðað við svartholið heldur í frjálsu falli inn að því.

Enn er því við að bæta að "lítil" svarthol eru mjög óstöðug þegar tekið er tillit til skammtafræðilegra áhrifa. Hinn frægi breski stjarneðlisfræðingur Stephen Hawking varð fyrstur til að athuga slík áhrif sérstaklega. Vegna þeirra blossa lítil svarthol upp í öflugri sprengingu. Meðalævi svarthols með massa á við Esjuna mun vera um ein míkrósekúnda. Það segir okkur í fyrsta lagi að stöðug ruslatunna af þessu tagi verður að hafa verulegan massa og óvíst er hversu vistlegt yrði í garðinum hjá manni með slíkan grip í einu horninu. Í öðru lagi væru veruleg óþægindi af því þegar gamlar tunnur spryngju í loft upp og losuðu massaorku sem svarar til heils fjalls á broti úr sekúndu.

Lesendum er bent á áhugaverða gagnvirka vefsíðu um svarthol: Space Telescope Science Institute: Black Holes: Gravity's Relentless Pull.

Höfundar

Lárus Thorlacius

prófessor í eðlisfræði við HÍ

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

25.5.2000

Spyrjandi

Friðrik Jósepsson

Tilvísun

Lárus Thorlacius og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Verða ruslatunnur í framtíðinni lítil svarthol?“ Vísindavefurinn, 25. maí 2000. Sótt 9. desember 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=464.

Lárus Thorlacius og Þorsteinn Vilhjálmsson. (2000, 25. maí). Verða ruslatunnur í framtíðinni lítil svarthol? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=464

Lárus Thorlacius og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Verða ruslatunnur í framtíðinni lítil svarthol?“ Vísindavefurinn. 25. maí. 2000. Vefsíða. 9. des. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=464>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Verða ruslatunnur í framtíðinni lítil svarthol?
Svarið er að við höfum ekki trú á þessu af ýmsum ástæðum. Svarthol eru ekki þægilegir nágrannar og athuganda sýnist ekki að hlutir falli nokkurn tímann inn fyrir sjónhvörfin. Við mundum því geta skynjað rafsegulgeislun frá ruslinu til eilífðarnóns eða jafnlengi og svartholið varir! Þyngdarkraftar frá svartholinu yrðu til óþæginda. Auk þess eru minni háttar svarthol eins konar tímasprengjur og geysileg orka losnar þegar þau springa.


Fjallað er nánar um svarthol almennt í svari Tryggva Þorgeirssonar og Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hvað er svarthol?

Eftir því sem við best vitum eru svarthol ekki beinlínis þægilegir nágrannar. Flest þeirra eru sem næst ósýnileg en jafnframt orka þau á mann með verulegum þyngdarkrafti. Og ef maður flækist of nálægt er voðinn vís. Hver mundi vilja hafa svona fyrirbæri í garðinum hjá sér?

Það er að vísu rétt að menn telja nú að lítil svarthol kunni að vera til, og þá merkir orðið "lítill" að upphaflegur massi hafi verið óverulegur. En engu að síður eru sjónhvörf kringum hvert svarthol. Þegar hlutur eins og ruslið frá okkur fellur í átt að svartholinu sýnist athuganda fyrir utan það hluturinn fara hægar og hægar þegar hann nálgast sjónhvörfin og hluturinn virðist aldrei fara inn fyrir þau. Ef við fengjum okkur svarthol fyrir ruslatunnu mætti því ætla að við hefðum ruslið fyrir augunum til eilífðarnóns. Svo er þó ekki þegar betur er að gáð því að þyngdarsvið svartholsins veldur svo miklu rauðviki í ljósinu frá ruslinu að það mundi birtast okkur sem útvarpsbylgjur.

Í fyrrnefndu svari um svarthol almennt er meðal annars fjallað um sjávarfallakrafta en þeir leitast við að slíta í sundur hluti í grennd við svartholið, til dæmis nálægt sjónhvörfum. Á því svæði eru þessir kraftar þeim mun meiri sem svartholið er minna. Ef við værum sjálf á þessu svæði eða féllum í átt að svartholinu mundum við slitna sundur og það gerist jafnvel enn fyrr við lítið svarthol en stórt.

Nú sýnist kannski einhverjum vera mótsögn í þessu, að annars vegar sé sagt að hlutirnir stöðvist en hins vegar að þeir falli og slitni sundur. En þetta er einmitt ekki mótsögn heldur skýrist það af grundvallarhugsun afstæðiskenningarinnar, að útlit hluta og atburðarása fer eftir því frá hvaða viðmiðunarkerfi er horft á það. Annars vegar horfum við á annan hlut falla inn að svartholinu en erum sjálf kyrr fyrir utan það, og hins vegar erum við að lýsa því sem við yrðum fyrir ef við féllum sjálf þarna inn. Viðmiðunarkerfið er þá ekki lengur kyrrt miðað við svartholið heldur í frjálsu falli inn að því.

Enn er því við að bæta að "lítil" svarthol eru mjög óstöðug þegar tekið er tillit til skammtafræðilegra áhrifa. Hinn frægi breski stjarneðlisfræðingur Stephen Hawking varð fyrstur til að athuga slík áhrif sérstaklega. Vegna þeirra blossa lítil svarthol upp í öflugri sprengingu. Meðalævi svarthols með massa á við Esjuna mun vera um ein míkrósekúnda. Það segir okkur í fyrsta lagi að stöðug ruslatunna af þessu tagi verður að hafa verulegan massa og óvíst er hversu vistlegt yrði í garðinum hjá manni með slíkan grip í einu horninu. Í öðru lagi væru veruleg óþægindi af því þegar gamlar tunnur spryngju í loft upp og losuðu massaorku sem svarar til heils fjalls á broti úr sekúndu.

Lesendum er bent á áhugaverða gagnvirka vefsíðu um svarthol: Space Telescope Science Institute: Black Holes: Gravity's Relentless Pull....