Sólin Sólin Rís 03:46 • sest 23:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:11 • Síðdegis: 18:32 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:13 • Síðdegis: 12:17 í Reykjavík

Hefur það svipuð áhrif á ungviði mismunandi dýrategunda að alast upp án eldri einstaklinga sömu tegundar?

Jón Már Halldórsson

Þar sem reynsla og félagslegt uppeldi skiptir máli hjá fjölmörgum tegundum fugla og spendýra hefur það óneitanlega mikil áhrif á félagsmótun og jafnvel hæfni einstaklinga hvort þeir alast upp meðal eldri einstaklinga eða ekki. Það er þó erfitt að átta sig á hvort ungviði ólíkra dýrategunda verði fyrir svipuðum áhrifum ef það elst upp án fullorðinna einstaklinga, eins og spyrjandi vill fá að vita. Hér á eftir er dæmi um það hvernig líklega megi rekja óæskilega hegðun ungra fílatarfa til þess að eldri tarfar voru ekki til staðar.

Fyrir nokkrum árum kom upp sjaldgæft vandamál á verndarsvæðum og þjóðgörðum víða í Afríku, svo sem í Kruger-þjóðgarðinum í Suður–Afríku. Fílar á „táningsaldri“ áttu það til að ganga berserksgang, rífa niður tré og leggja nashyrninga í einelti. Þetta var orðið svo mikið vandamál að aðgerða var þörf.

Talið er að ástæðu þessarar hegðunar „unglinganna“ megi rekja til þess að undanfarna tvo áratugi hafa stjórnendur þjóðgarða og verndarsvæða víða í sunnanverðri Afríku þurft að grisja sístækkandi fílahjarðir svæðanna. Meðal annars hefur dýrum verið komið fyrir á nýjum svæðum auk þess sem fella hefur þurft gamla tarfa og kýr.Við fyrstu sýn virðast þessar aðgerðir rökréttar en þegar nánar er að gáð var hugmyndin ekki svo góð. Segja má að félagsleg vandamál hafi hrannast upp hjá þeim hjörðum sem voru án eldri dýra þar sem félagslegt skipulag fílahjarðanna riðlaðist.

Að mati dýrafræðinga sem fylgdust með atferli „ólátabelgjanna“ er orsök hegðunarvandamálanna sennilega hormónatengd og má rekja hana til svokallaðrar musth-hegðunar (e. musth behavior). Slík hegðun meðal fíla lýsir sér í mjög mikilli árásarhneigð og eru þeir þá tilbúnir að berjast við aðra tarfa um réttinn til að eðla sig við kýrnar í hjörðinni. Þeir ráðast á allt sem fyrir þeim verður hvort sem það eru önnur dýr, tré eða mannabústaði.

Tarfar ganga í gegnum nokkur slík tímabil á ári og er testósteron framleiðslan í algjöru hámarki á meðan þau standa yfir. Úr getnaðarlimnum seytlar þvag og úr kirtlum milli augna og eyrna seytlar seigfljótandi vökvi.

Í hjörðum afrískra fíla sem í eru bæði ungir og gamlir fílar byrja einstaklingar að ganga í gegnum þetta ástand við 25 ára aldur en indverskir fílar aðeins fyrr. Í hjörðum þar sem einungis eru ungir fílar hefst musth-hegðun hins vegar fyrr og stendur hvert tímabil lengur yfir. Vísindamenn telja að ástæðan fyrir þessum mun sé sú, að í hjörðum þar sem aldursdreifing sé eðlileg eigi sér stað einhvers konar lífeðlisfræðileg bæling eldri og þroskaðri tarfa hjarðarinnar gagnvart þeim yngri.

Sambærileg vandamál hafa komið fram meðal afrískra buffala. Einnig hafa komið upp skyld vandamál meðal annarra grasbíta og prímata sem lifa í fastmótuðum hópum eins og rannsóknir prímatafræðingsins Jane Goddall hafa til dæmis sýnt fram á. En óneitanlega skortir mjög á þekkingu náttúrufræðinga á þessu tiltekna atriði meðal villtra dýra.

Heimildir og myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

16.12.2004

Spyrjandi

Guðrún Hafberg, f. 1986

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hefur það svipuð áhrif á ungviði mismunandi dýrategunda að alast upp án eldri einstaklinga sömu tegundar?“ Vísindavefurinn, 16. desember 2004. Sótt 23. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=4666.

Jón Már Halldórsson. (2004, 16. desember). Hefur það svipuð áhrif á ungviði mismunandi dýrategunda að alast upp án eldri einstaklinga sömu tegundar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4666

Jón Már Halldórsson. „Hefur það svipuð áhrif á ungviði mismunandi dýrategunda að alast upp án eldri einstaklinga sömu tegundar?“ Vísindavefurinn. 16. des. 2004. Vefsíða. 23. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4666>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hefur það svipuð áhrif á ungviði mismunandi dýrategunda að alast upp án eldri einstaklinga sömu tegundar?
Þar sem reynsla og félagslegt uppeldi skiptir máli hjá fjölmörgum tegundum fugla og spendýra hefur það óneitanlega mikil áhrif á félagsmótun og jafnvel hæfni einstaklinga hvort þeir alast upp meðal eldri einstaklinga eða ekki. Það er þó erfitt að átta sig á hvort ungviði ólíkra dýrategunda verði fyrir svipuðum áhrifum ef það elst upp án fullorðinna einstaklinga, eins og spyrjandi vill fá að vita. Hér á eftir er dæmi um það hvernig líklega megi rekja óæskilega hegðun ungra fílatarfa til þess að eldri tarfar voru ekki til staðar.

Fyrir nokkrum árum kom upp sjaldgæft vandamál á verndarsvæðum og þjóðgörðum víða í Afríku, svo sem í Kruger-þjóðgarðinum í Suður–Afríku. Fílar á „táningsaldri“ áttu það til að ganga berserksgang, rífa niður tré og leggja nashyrninga í einelti. Þetta var orðið svo mikið vandamál að aðgerða var þörf.

Talið er að ástæðu þessarar hegðunar „unglinganna“ megi rekja til þess að undanfarna tvo áratugi hafa stjórnendur þjóðgarða og verndarsvæða víða í sunnanverðri Afríku þurft að grisja sístækkandi fílahjarðir svæðanna. Meðal annars hefur dýrum verið komið fyrir á nýjum svæðum auk þess sem fella hefur þurft gamla tarfa og kýr.Við fyrstu sýn virðast þessar aðgerðir rökréttar en þegar nánar er að gáð var hugmyndin ekki svo góð. Segja má að félagsleg vandamál hafi hrannast upp hjá þeim hjörðum sem voru án eldri dýra þar sem félagslegt skipulag fílahjarðanna riðlaðist.

Að mati dýrafræðinga sem fylgdust með atferli „ólátabelgjanna“ er orsök hegðunarvandamálanna sennilega hormónatengd og má rekja hana til svokallaðrar musth-hegðunar (e. musth behavior). Slík hegðun meðal fíla lýsir sér í mjög mikilli árásarhneigð og eru þeir þá tilbúnir að berjast við aðra tarfa um réttinn til að eðla sig við kýrnar í hjörðinni. Þeir ráðast á allt sem fyrir þeim verður hvort sem það eru önnur dýr, tré eða mannabústaði.

Tarfar ganga í gegnum nokkur slík tímabil á ári og er testósteron framleiðslan í algjöru hámarki á meðan þau standa yfir. Úr getnaðarlimnum seytlar þvag og úr kirtlum milli augna og eyrna seytlar seigfljótandi vökvi.

Í hjörðum afrískra fíla sem í eru bæði ungir og gamlir fílar byrja einstaklingar að ganga í gegnum þetta ástand við 25 ára aldur en indverskir fílar aðeins fyrr. Í hjörðum þar sem einungis eru ungir fílar hefst musth-hegðun hins vegar fyrr og stendur hvert tímabil lengur yfir. Vísindamenn telja að ástæðan fyrir þessum mun sé sú, að í hjörðum þar sem aldursdreifing sé eðlileg eigi sér stað einhvers konar lífeðlisfræðileg bæling eldri og þroskaðri tarfa hjarðarinnar gagnvart þeim yngri.

Sambærileg vandamál hafa komið fram meðal afrískra buffala. Einnig hafa komið upp skyld vandamál meðal annarra grasbíta og prímata sem lifa í fastmótuðum hópum eins og rannsóknir prímatafræðingsins Jane Goddall hafa til dæmis sýnt fram á. En óneitanlega skortir mjög á þekkingu náttúrufræðinga á þessu tiltekna atriði meðal villtra dýra.

Heimildir og myndir:...