Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Sjálflýsandi armbönd og ‘annað þess háttar’ byggja á efnahvörfum sem leiða til útgeislunar frá orkuríkum sameindum eða frumeindum. Slíkt nefnist hvarfljómun (e. chemiluminescence).
Svonefnd útvermin (e. exothermic) efnahvörf valda orkumyndun jafnt sem nýmyndun efna. Dæmi um slík efnahvörf er til dæmis bruni þar sem orkan losnar öðru fremur á formi varmaorku sem við skynjum sem hita. Til er fjöldi útverminna efnahvarfa, þar sem orkan losnar hins vegar á formi ljósorku. Undanfari ljósorkulosunar í efnahvörfum er myndun efniseinda (sameinda eða frumeinda) á orkuríku formi. Slíkar eindir eru skammlífar og tapa orku sinni skjótt á formi ljósorku. Þetta nefnist hvarfljómun. Ýmis efnahvörf sem eiga sér stað við bruna eru einmitt dæmi um slíkt. Ljósorkan sem þá losnar birtist okkur sem logi.
Sjálflýsandi armbönd og náskyldir hlutir, svo sem glóstautar (e. glow sticks) eða lýsandi hálsmen byggja á hvarfljómun. Ljómunin er gjarnan mynduð með þeim hætti að vökvalausnum með hvarfefnum er blandað saman inni í plasthulsum. Til dæmis samanstendur glóstautur af vökvafylltum glersívalningi innan í vökvafylltri plasthulsu (sjá mynd). Þegar plasthulsan er beygð brotnar glersívalningurinn og lausnirnar tvær blandast. Efnin í lausnunum tveimur hvarfast þvínæst og hvarfljómunin verður sýnileg. Litur hvarfljómunarinnar er háður efnasamsetningu lausnanna.
Þegar efni í lausnunum tveimur (til dæmis A og B) hvarfast, myndast orkuríkar eindir (sameindir eða frumeindir; til dæmis C*). Þessar orkuríku eindir lifa einungis í örskamma stund og tapa umframorku sinni á formi ljósorku sem mannsaugað skynjar sem lit. Þetta má tákna almennt með eftirfarandi hætti:
A + B → C* + D C* → C + ljós
Meðal efna sem algengt er að nota í slíkri hvarfljómun eru peroxíð (efnatákn: H2O2) og ýmis lífræn litarefni. Viðkomandi efnahvörf losa úr læðingi orku úr efnatengjum peroxíðs og valda orkuörvun litarefnasameindanna, sem þvínæst ljóma. Litur ljómunarinnar ræðst þá af samsetningu litarefnasameindanna.
Heimildir og myndir:
Ágúst Kvaran. „Af hverju lýsa sjálflýsandi armbönd og þess háttar?“ Vísindavefurinn, 28. desember 2004, sótt 13. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4684.
Ágúst Kvaran. (2004, 28. desember). Af hverju lýsa sjálflýsandi armbönd og þess háttar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4684
Ágúst Kvaran. „Af hverju lýsa sjálflýsandi armbönd og þess háttar?“ Vísindavefurinn. 28. des. 2004. Vefsíða. 13. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4684>.