Venjulega þarf að flytja varma inn í fast efni svo að það bráðni. Eru til efni sem storkna við aukinn hita?Já, reyndar. Rannsóknahópur við Fourier-háskólann í Grenoble hefur nýverið skrifað vísindagrein um efnablöndu með sérkennilega eiginleika. Í henni er alpha-cyclodextrine, sem inniheldur sameindahringi með sex glúkósasameindum, blandað við 4-methylpyridine og vatn. Þessi undarlega blanda er gegnsær vökvi við stofuhita. Þegar hún er hituð upp í 45-75°C, storknar blandan og verður hvít á lit. Rannsóknir hópsins sýna að efnið hefur orðið fyrir hamskiptum frá vökva í storku. Eðlisfræðin bak við þessa furðulegu storknun byggist á svokölluðum vetnistengjum. Slík tengi halda cyclodextrini saman, en það virðist brotna úr þeim viðjum við aukinn hita og hafa tækifæri til þess að bindast í fast efni. Þegar áfram er hitað upp fyrir um 95°C verður hið undarlega efni aftur vökvi! Heimild:
Eru til efni sem storkna við hitun?
Útgáfudagur
7.1.2005
Spyrjandi
Davíð Þór Þorsteinsson
Tilvísun
Þorsteinn I. Sigfússon. „Eru til efni sem storkna við hitun?“ Vísindavefurinn, 7. janúar 2005, sótt 14. desember 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=4706.
Þorsteinn I. Sigfússon. (2005, 7. janúar). Eru til efni sem storkna við hitun? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4706
Þorsteinn I. Sigfússon. „Eru til efni sem storkna við hitun?“ Vísindavefurinn. 7. jan. 2005. Vefsíða. 14. des. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4706>.