Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Á hvaða aldri má byrja að lyfta lóðum? Er hættulegt að byrja of snemma?

Þórarinn Sveinsson

Lyftingar og áhrif þeirra á líkamsvöxt ungmenna vekja greinilega áhuga unglingsdrengja og hafa Vísindavefnum borist nokkrar spurningar um það efni. Þær eru eftirfarandi:
  • Er hættulegt að byrja að lyfta áður en maður er búinn að ná fullum þroska? Ef svo er hversu hættulegt er það?
  • Hvað þarf maður að vera orðinn gamall til að hefja lyftingar fyrir alvöru og neyta kreatíns?
  • Ef maður er 14 ára má maður þá lyfta lóðum eða hefur það einhver áhrif á líkamann? Ef svo er hvenær má þá byrja að lyfta?
  • Er það satt að ef maður byrjar að lyfta þá hætti maður að stækka? Ef svo er hvers vegna?
  • Hvers vegna er aldurstakmark við að lyfta lóðum og er það skaðlegt ef maður er of ungur (svona 15 ára)?
  • Er það satt að maður hætti að stækka ef maður byrjar að lyfta áður en maður er orðinn fullvaxta?

Aðrir spyrjendur eru: Reynir Örn Reynisson, Hjalti Tryggvason, Sigurður Björn, Ólafur Sigurbergsson, Óskar Jónsson og Sigurjón Ásgeirsson.

Slæm íþróttameiðsl, áverkar eða álagsmeiðsl á meðan unglingar eru enn að vaxa geta haft áhrif á vöxt, sérstaklega ef beinbrot eða áverkar verða við svokallaðar vaxtarlínur en það eru þeir staðir á beinum þar sem lengdarvöxtur þeirra fer fram. Slík meiðsli geta stöðvað vöxt viðkomandi beina. Dæmi um slík meiðsl þekkjast til dæmis í íþróttum eins og bandaríska hafnarboltanum (kasthendi þess sem kastar boltanum) og tennis (högg á olnboga).

Þó aldrei sé algerlega hægt að útloka slys þá er - ef rétt er staðið að málum - hverfandi hætta á meiðslum hjá börnum og unglingum við að lyfta lóðum. Þetta undirstrikar líka að mjög mikilvægt er að standa rétt að því þegar börn og unglingar lyfta lóðum. Þau hafa ekki alltaf þroska eða getu til að framkvæma sömu æfingar og fullorðnir og geta orðið fyrir meiðslum við að reyna það. Mikilvægast er að byrja rólega á léttum þyngdum og læra rétta líkamsbeitingu, það er hvernig á að framkvæma hverja æfingu.

Það er einnig mikilvægt að samsetning æfinga sé rétt og æfingaáætlanir séu rétt upp byggðar. Nauðsynlegt er því að fólk með fagþekkingu (íþróttakennarar, sjúkraþjálfarar) kenni hverjum og einum æfingarnar og fylgist með þeim. Rétt er að vera á varðbergi gagnvart svokölluðum einkaþjálfurum vegna þess að menntun þeirra er mjög misjöfn og ekki víst að þeir hafi allir þekkingu á börnum og unglingum og því sem þau þurfa að varast.

Ef rétt er að lyftingunum staðið er ekkert sem bendir til þess að þær hafi neikvæð áhrif á vöxt og þroska. Þvert á móti geta þær haft jákvæð áhrif til dæmis á hreyfifærni og styrk vöðva, sina og beina. Hins vegar hefur það að lyfta lóðum ekki sömu áhrif á vöðvana fyrir og eftir kynþroska. Lyftingar fyrir kynþroska hafa eftir því sem flestar rannsóknir sýna ekki þau áhrif að vöðvarnir stækki eins og þeir vilja gera hjá karlmönnum eftir kynþroska. Ástæðan er líklega breytingar á hormónaframleiðslu líkamans við kynþroska. Lyftingar fyrir kynþroska hafa því fyrst og fremst áhrif á hreyfiþroska. Þær bæta meðal annars samhæfingu hreyfinga og hreyfifærni.

Ekkert einhlýtt svar er við því hversu gömul börn mega vera til að byrja að lyfta lóðum. Börn strax í vöggu byrja að lyfta pela og léttum leikföngum sem er gott fyrir hreyfiþroska þeirra. Þeir fræðimenn sem mest hafa rannsakað þetta mæla með því að börn yngri en 7 ára noti ekki þyngdir nema þá mjög léttar (og þá helst bolta eða léttar stangir án lóða). Áhersla skal heldur vera á að þau læri fyrst og fremst að framkvæma æfingar rétt án hjálpartækja. Jafnframt að æfingar standi stutt í einu og að hæfilegur tími líði á milli þeirra.

Frá 8 ára til 16 ára er mælt með því að það verði smá saman aukning í hlutfallslegri þyngd lóða og magni æfinganna, það er hversu oft og hve lengi er æft í hvert skipti. Þegar unglingar hafa náð 16 ára aldri á að vera óhætt að stunda lyftingar af fullum krafti þó með þeim fyrirvara sem að framan greinir: að byrjendur byrji hægt og læri að gera allar æfingar rétt undir leiðsögn fagaðila.

Mjög litlar rannsóknir eru til á áhrifum kreatíns á börn og unglinga. Hollusta kreatíns fyrir fullorðna er umdeild og efnið gagnast ekki nema þeim sem stunda lyftingar í mjög miklum mæli. Ekki er því hægt annað en að mæla gegn því að börn og unglingar undir 18 ára aldri neyti kreatíns.

Höfundur

Þórarinn Sveinsson

prófessor við námsbraut í sjúkraþjálfun við HÍ

Útgáfudagur

14.2.2005

Spyrjandi

Einar Örn Hannesson o.fl.

Tilvísun

Þórarinn Sveinsson. „Á hvaða aldri má byrja að lyfta lóðum? Er hættulegt að byrja of snemma?“ Vísindavefurinn, 14. febrúar 2005. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=4752.

Þórarinn Sveinsson. (2005, 14. febrúar). Á hvaða aldri má byrja að lyfta lóðum? Er hættulegt að byrja of snemma? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4752

Þórarinn Sveinsson. „Á hvaða aldri má byrja að lyfta lóðum? Er hættulegt að byrja of snemma?“ Vísindavefurinn. 14. feb. 2005. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4752>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Á hvaða aldri má byrja að lyfta lóðum? Er hættulegt að byrja of snemma?
Lyftingar og áhrif þeirra á líkamsvöxt ungmenna vekja greinilega áhuga unglingsdrengja og hafa Vísindavefnum borist nokkrar spurningar um það efni. Þær eru eftirfarandi:

  • Er hættulegt að byrja að lyfta áður en maður er búinn að ná fullum þroska? Ef svo er hversu hættulegt er það?
  • Hvað þarf maður að vera orðinn gamall til að hefja lyftingar fyrir alvöru og neyta kreatíns?
  • Ef maður er 14 ára má maður þá lyfta lóðum eða hefur það einhver áhrif á líkamann? Ef svo er hvenær má þá byrja að lyfta?
  • Er það satt að ef maður byrjar að lyfta þá hætti maður að stækka? Ef svo er hvers vegna?
  • Hvers vegna er aldurstakmark við að lyfta lóðum og er það skaðlegt ef maður er of ungur (svona 15 ára)?
  • Er það satt að maður hætti að stækka ef maður byrjar að lyfta áður en maður er orðinn fullvaxta?

Aðrir spyrjendur eru: Reynir Örn Reynisson, Hjalti Tryggvason, Sigurður Björn, Ólafur Sigurbergsson, Óskar Jónsson og Sigurjón Ásgeirsson.

Slæm íþróttameiðsl, áverkar eða álagsmeiðsl á meðan unglingar eru enn að vaxa geta haft áhrif á vöxt, sérstaklega ef beinbrot eða áverkar verða við svokallaðar vaxtarlínur en það eru þeir staðir á beinum þar sem lengdarvöxtur þeirra fer fram. Slík meiðsli geta stöðvað vöxt viðkomandi beina. Dæmi um slík meiðsl þekkjast til dæmis í íþróttum eins og bandaríska hafnarboltanum (kasthendi þess sem kastar boltanum) og tennis (högg á olnboga).

Þó aldrei sé algerlega hægt að útloka slys þá er - ef rétt er staðið að málum - hverfandi hætta á meiðslum hjá börnum og unglingum við að lyfta lóðum. Þetta undirstrikar líka að mjög mikilvægt er að standa rétt að því þegar börn og unglingar lyfta lóðum. Þau hafa ekki alltaf þroska eða getu til að framkvæma sömu æfingar og fullorðnir og geta orðið fyrir meiðslum við að reyna það. Mikilvægast er að byrja rólega á léttum þyngdum og læra rétta líkamsbeitingu, það er hvernig á að framkvæma hverja æfingu.

Það er einnig mikilvægt að samsetning æfinga sé rétt og æfingaáætlanir séu rétt upp byggðar. Nauðsynlegt er því að fólk með fagþekkingu (íþróttakennarar, sjúkraþjálfarar) kenni hverjum og einum æfingarnar og fylgist með þeim. Rétt er að vera á varðbergi gagnvart svokölluðum einkaþjálfurum vegna þess að menntun þeirra er mjög misjöfn og ekki víst að þeir hafi allir þekkingu á börnum og unglingum og því sem þau þurfa að varast.

Ef rétt er að lyftingunum staðið er ekkert sem bendir til þess að þær hafi neikvæð áhrif á vöxt og þroska. Þvert á móti geta þær haft jákvæð áhrif til dæmis á hreyfifærni og styrk vöðva, sina og beina. Hins vegar hefur það að lyfta lóðum ekki sömu áhrif á vöðvana fyrir og eftir kynþroska. Lyftingar fyrir kynþroska hafa eftir því sem flestar rannsóknir sýna ekki þau áhrif að vöðvarnir stækki eins og þeir vilja gera hjá karlmönnum eftir kynþroska. Ástæðan er líklega breytingar á hormónaframleiðslu líkamans við kynþroska. Lyftingar fyrir kynþroska hafa því fyrst og fremst áhrif á hreyfiþroska. Þær bæta meðal annars samhæfingu hreyfinga og hreyfifærni.

Ekkert einhlýtt svar er við því hversu gömul börn mega vera til að byrja að lyfta lóðum. Börn strax í vöggu byrja að lyfta pela og léttum leikföngum sem er gott fyrir hreyfiþroska þeirra. Þeir fræðimenn sem mest hafa rannsakað þetta mæla með því að börn yngri en 7 ára noti ekki þyngdir nema þá mjög léttar (og þá helst bolta eða léttar stangir án lóða). Áhersla skal heldur vera á að þau læri fyrst og fremst að framkvæma æfingar rétt án hjálpartækja. Jafnframt að æfingar standi stutt í einu og að hæfilegur tími líði á milli þeirra.

Frá 8 ára til 16 ára er mælt með því að það verði smá saman aukning í hlutfallslegri þyngd lóða og magni æfinganna, það er hversu oft og hve lengi er æft í hvert skipti. Þegar unglingar hafa náð 16 ára aldri á að vera óhætt að stunda lyftingar af fullum krafti þó með þeim fyrirvara sem að framan greinir: að byrjendur byrji hægt og læri að gera allar æfingar rétt undir leiðsögn fagaðila.

Mjög litlar rannsóknir eru til á áhrifum kreatíns á börn og unglinga. Hollusta kreatíns fyrir fullorðna er umdeild og efnið gagnast ekki nema þeim sem stunda lyftingar í mjög miklum mæli. Ekki er því hægt annað en að mæla gegn því að börn og unglingar undir 18 ára aldri neyti kreatíns....