Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun

Hver er uppruni orðanna tékki og tékkhefti og hvers vegna eru þessi orð notuð í viðskiptum?

Orðið tékki er fengið að láni annaðhvort beint úr ensku check eða úr dönsku. Framan af virðast orðmyndir og stafsetning vera á reiki. Hvorugkynsmyndin tékk var eitthvað notuð rétt fyrir og eftir aldamótin 1900 og þá jafnvel rituð check (með greini checkið). Elsta dæmi Orðabókar Háskólans um orðið tékki er úr blaðinu Fjallkonunni frá 1901:

2. frv. [frumvarp] til laga um „checka“ og aðrar ávísanir, er borga á við sýningu.

Þarna er orðið ritað eins og í ensku en innan gæsalappa sem bendir til að fastri ritmynd hafi ekki verið komin á. Nokkrum árum síðar eru til dæmi um ritmyndina tékki. Yngri mynd er tékkur sem þekkist allt frá fyrri hluta 20. aldar.

Enn eitt orð sem notað var allt frá aldamótunum 1900 er tékkávísun. Í ritinu Lagasafn handa alþýðu (1901 5:18) er skýrt hvað átt er við. Þar stendur:

Tjekk-ávísun skal svo gjöra, að hún greini: nafnið tjekk-ávísun eða check með berum orðum í sjálfum textanum; hve mikla peninga borga skuli; þann, er taka á við borguninni; nafn þess, er á að leysa til sín tjekk-ávísunina (greiðanda); hvar borgun skuli greiða; stað og dag, er tjekk-ávísun er útgefin, og undirskrifað nafn útgefanda.

Tékkar hafa verið það nýir að rétt hefur þótt að útskýra hvernig fylla skuli eyðublaðið út.

Yfir heftið með eyðublöðunum var bæði notað ávísanabók og tékkbók. Ávísanbók þekkist þegar í lok 19. aldar og þá sem þýðing á enska orðinu checkbook. Snemma á 20. öld fer að bera á orðinu tékkbók, stundum ritað check-bók. Ávísanahefti er farið að nota snemma á 20. öld en heldur yngra virðist orðið tékkhefti.

Orðið ávísun í svipaðri merkingu og notuð er nú þekkist að minnsta kosti frá miðri 19. öld. Það er þó mun eldra í málinu en notað í tvenns konar merkingu. Eldri merkingin er ‘tilvísun, ábending’ og á Orðabók Háskólans dæmi um hana frá 17. öld en yngri merkingin er ‘sérprentað blað, ígildi peninga’. Tékki og ávísun, tékkhefti og ávísanahefti eru nú notuð jöfnum höndum.

Útgáfudagur

17.2.2005

Spyrjandi

Auður Steinarsdóttir

Höfundur

Guðrún Kvaran

prófessor

Tilvísun

Guðrún Kvaran. „Hver er uppruni orðanna tékki og tékkhefti og hvers vegna eru þessi orð notuð í viðskiptum?“ Vísindavefurinn, 17. febrúar 2005. Sótt 21. janúar 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=4759.

Guðrún Kvaran. (2005, 17. febrúar). Hver er uppruni orðanna tékki og tékkhefti og hvers vegna eru þessi orð notuð í viðskiptum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4759

Guðrún Kvaran. „Hver er uppruni orðanna tékki og tékkhefti og hvers vegna eru þessi orð notuð í viðskiptum?“ Vísindavefurinn. 17. feb. 2005. Vefsíða. 21. jan. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4759>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Gísli Pálsson

1949

Gísli Pálsson er prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknir hans hafa spannað breitt svið, allt frá íslenskum fornbókmenntum til nútíma erfðafræði. Gísli hefur í ritum sínum fjallað um mörg viðfangsefni, oft á mörkum ólíkra fræðigreina, svo sem kvótakerfið, nafnahefðir og líftækni.