Hvað gerist þegar maður rekur sig í „vitlausa beinið“? Af hverju er það svona vont?„Vitlausa beinið“ er í rauninni ekki bein heldur afar viðkvæmt svæði aftan í olnboganum þar sem upphandleggsbeinið (e. humerus ---> humor ---> nafnið funny bone á ensku) mætir öln (e. ulna) sem er stærra bein framhandleggs. Bæði þessi bein enda í nokkuð áberandi kúlum (leggjarhöfðum) í dæld í olnboganum. Ölnartaugin, en það er taug sem liggur niður hálsinn, í gegnum holhöndina, niður handlegginn og út í höndina, liggur mjög nálægt yfirborði húðarinnar á þessu svæði. Hún flytur hreyfiboð til lítilla vöðva í hendinni og skynboð frá framhandlegg, litla fingri og helmingi af baugfingri. Þegar maður rekur sig í eða fær högg á þetta viðkvæma svæði lendir taugin á beini og veldur það hinum þekktu óþægindum í framhandleggnum, litla fingri og baugfingri. Heimildir: Mynd:
- Wikimedia Commons - Medial humerus radius ulna articulated. (Sótt 8.6.2018).