Klukk, klukk, skolli skellur í hverju horni. Aldrei skaltu mér ná, fyrr en í kvöld um sólarlag, þegar þú drepur hestinn þinn og þig sjálfan þar á.Síðan hlupu allir af stað og skolli á eftir.

Ásgeir Blöndal Magnússon (1989:479) tengir orðið klukk og sögnina að klukka í merkingunni ‘slá laust til einhvers og segja klukk í skollaleik’ helst sögninni að klukka sem notuð er þegar hrafninn krunkar á tiltekinn hátt’. Þegar þetta hljóð heyrist í hrafninum er sagt að hann sé með vatn í nefi og þykir það boða rigningu. Hljóðið klukk sem menn gefa frá sér í skollaleik hefur hugsanlega þótt minna á hljóðið í hrafninum. Sama sögn, klukke, er til í dönsku um gagg í hænum og er einnig hugsanlegt að klukk og klukka hafi borist þaðan sem tökuorð með leiknum. Heimildir:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Reykjavík, Orðabók Háskólans.
- Ólafur Davíðsson 1888–1892. Íslenzkar skemtanir. Í: Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur. II. Kaupmannahöfn, Hið íslenzka bókmentafélag.