Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:21 • Sest 14:40 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:54 • Síðdegis: 20:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:43 • Síðdegis: 14:13 í Reykjavík

Hvað getur þú sagt mér um stökkmýs?

Jón Már Halldórsson

Stökkmýs tilheyra ættbálki nagdýra (rodentia) og ætt stökkmúsa (Dipodidae) ásamt sprettmúsum (Zapodidae) og birkimús (Sicista betulina). Alls eru tegundir stökkmúsa 33 í 11 ættkvíslum og 5 undirættum.

Stökkmýs lifa í eyðimörkum og á hrjóstrugum steppum í Afríku, Asíu og austast í Evrópu. Þær búa oft saman í neðanjarðargöngum og nyrst á útbreiðslusvæði þeirra í Asíu leggjast þær gjarnan í dvala yfir veturinn.

Sennilega er eyðimerkurstökkmúsin (Jaculus jaculus) kunnasta tegund stökkmúsa. Heimkynni hennar eru víða í Norður-Afríku, þar á meðal á hrjóstrugu eyðimerkursvæði Sahara allt suður til Chadvatns og austur til Sómalíu. Einnig finnst hún í Austurlöndum nær, það er á Arabíuskaga, Sýrlandi og Írak. Kjörlendi hennar eru sandauðnir og grýttar steppur og kemur því ekki á óvart að feldurinn er gulur eða rauðgulur sem er ákjósanlegur felulitur gegn ránfuglum.

Eyðumerkurstökkmúsin er með langa afturfætur (um 6 cm á lengd) en framfæturnir eru afar stuttir og veikbyggðir enda notar hún þá ekki til gangs heldur aðeins til þess að halda á fæðu og einstaka sinnum til þess að styðja sig. Merkilegir hárbrúskar eru á milli tánna á afturfótunum sem sennilega hafa það hlutverk að koma í veg fyrir að dýrið sökkvi í sandinn. Rófan er afar löng og notar stökkmúsin hana sem jafnvægistæki þegar hún hoppar. Yst á rófunni er hvítur brúskur.Eyðimerkurstökkmús (Jaculus jaculus).

Eins og aðrar tegundir stökkmúsa er eyðimerkurstökkmúsin einungis á ferli að næturlagi. Yfir daginn heldur hún til í niðurgröfnu bæli sem er yfirleitt rúmgóð hola og nær allt að metra niður í jörðu með nokkrum útgöngum.

Eyðumerkurstökkmúsin fer víða í fæðuleit á nóttunni og er helsta fæða hennar ýmis konar fræ. Hún virðast ekki safna neinum forða þó náttúrufræðingar hafi fundið dálitlar birgðir í einhverjum afkimum í bælinu. Merkilegt er að þegar eyðimerkurstökkmúsin er heima hjá sér yfir daginn, eða þegar hún skreppur af bæ, þá lokar hún útgöngum úr bælinu með steinvölu eða einhverju öðru og sýnir mikla natni við það verk.

Ólíkt flestum öðrum stökkmúsum er eyðimerkurstökkmúsin einfari en stundum halda nokkur dýr til saman í holu, þó sjaldnast fleiri en fjögur.

Venjulega gýtur eyðimerkurstökkmúsin tvisvar á ári 3-5 ungum og er meðgöngutíminn 22-25 dagar. Eyðimerkurstökkmúsin er vinsælasta stökkmúsin í gæludýraverslunum víða í Evrópu og Norður-Ameríku ásamt skyldri tegund, Jaculus orientalis, sem á sér heimkynni austar í Asíu.

Önnur tegund stökkmúsa sem vert er að minnast á er hrossastökkmúsin (Allactaga major). Hún er með afar langar afturlappir en ólíkt eyðimerkurstökkmúsinni sem hefur fjórar tær er hrossastökkmúsin með 5 tær. Hrossastökkmúsin er meðal stærstu stökkmúsa. Skrokklengdin er á bilinu 18-26 cm en skottið er enn lengra eða á bilinu 26-35 cm.

Hrossastökkmúsin lifir vestar í Evrópu en aðrar stökkmýs en kjörlend hennar eru steppur og kjarrlendi Úkraínu og austur til Altaí-svæðisins í Rússlandi. Hrossastökkmúsin gerir sér bæli líkt og aðrar stökkmýs en leggst í dvala yfir veturinn, venjulega frá október til mars.

Helsta fæða hrossastökkmúsarinnar eru fræ og ýmis jurtafæða sem hún finnur neðanjarðar, til dæmis laukar, einnig liljur og túlipanar ásamt axi af húsapunti (Agropyron), kólfhirsi (Setaria italica) og sefgrösum (poa spp.) Helstu óvinir hennar eru ýmsar tegundir marða, refir, smáar kattategundir og uglur.Nokkrar tegundir asískra stökkmúsa. Númer 1 er hrossastökkmús (Allactaga major) og númer 8 er dvergstökkmús (Salpingotus crassicauda).

Síðasta tegundin sem fjallað verður um hér er dvergstökkmús (Salpingotus crassicauda). Hún er um margt ólík öðrum stökkmúsum, með aðeins 3 tær á afturfótunum og ristarbeinið er ekki samvaxið. Dvergstökkmúsin er aðeins um 4-5 cm á lengd og vegur um 6-7 g. Til samanburðar er þyngd hrossastökkmúsa á bilinu 300-450 g.

Heimkynni dvergstökkmúsarinnar eru steppusvæði Suður-Rússlands, Kasakstans og í vestanverðri Mongólíu og Kína þar sem fjaðurgras (Stripa pennata) og síberísk baunatré (Cargana spp.) vaxa. Dvergstökkmúsin er afar dugleg að grafa þrátt fyrir mjög smáan vöxt. Bæli hennar er oft djúpt í jörðu og gangarnir allt að 3 metrar á lengd.

Dvergstökkmýs eru ekki matvandar og á matseðli þeirra eru bæði ýmsar jurtir og hryggleysingjar (skordýr og köngulær) sem ekki hafa harða kítinskurn sér til varnar. Kítín er heiti á fjölsykru í skurn liðdýra og einnig í frumuveggjum sumra sveppa og þörunga. Stuttu eftir vetrardvala æxlast dýrin og gjóta tvívegis yfir sumartímann.

Heimildir og myndir:
 • Macdonald, David (ritstj.). (1995). The Encyclopedia of Mammals, Abindgon, Oxford.
 • „Jerboa.“ Encyclopædia Britannica á Encyclopædia Britannica Online (sótt 10. mars 2005).
 • Wilson D.E., Reeder D.M. (ritstj.) (1993). Mammal Species of the World: A Taxonomic and Geographic Reference. 2 ed. Smithsonian Institution Press, Washington D.C.
 • Happold D.C.D. (1984). „Small mammals“. Í riti; Cloudsley-Thompson J.L. (ritstj.). Sahara Desert. Key environments series. Pergamon Press, Oxford: bls. 251-276.
 • Animal Biodiversity in Jordan.
 • Wild Mongolia.

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

15.3.2005

Spyrjandi

Ólafur Jónsson, f. 1993

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvað getur þú sagt mér um stökkmýs?“ Vísindavefurinn, 15. mars 2005. Sótt 3. desember 2020. http://visindavefur.is/svar.php?id=4837.

Jón Már Halldórsson. (2005, 15. mars). Hvað getur þú sagt mér um stökkmýs? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4837

Jón Már Halldórsson. „Hvað getur þú sagt mér um stökkmýs?“ Vísindavefurinn. 15. mar. 2005. Vefsíða. 3. des. 2020. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4837>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getur þú sagt mér um stökkmýs?
Stökkmýs tilheyra ættbálki nagdýra (rodentia) og ætt stökkmúsa (Dipodidae) ásamt sprettmúsum (Zapodidae) og birkimús (Sicista betulina). Alls eru tegundir stökkmúsa 33 í 11 ættkvíslum og 5 undirættum.

Stökkmýs lifa í eyðimörkum og á hrjóstrugum steppum í Afríku, Asíu og austast í Evrópu. Þær búa oft saman í neðanjarðargöngum og nyrst á útbreiðslusvæði þeirra í Asíu leggjast þær gjarnan í dvala yfir veturinn.

Sennilega er eyðimerkurstökkmúsin (Jaculus jaculus) kunnasta tegund stökkmúsa. Heimkynni hennar eru víða í Norður-Afríku, þar á meðal á hrjóstrugu eyðimerkursvæði Sahara allt suður til Chadvatns og austur til Sómalíu. Einnig finnst hún í Austurlöndum nær, það er á Arabíuskaga, Sýrlandi og Írak. Kjörlendi hennar eru sandauðnir og grýttar steppur og kemur því ekki á óvart að feldurinn er gulur eða rauðgulur sem er ákjósanlegur felulitur gegn ránfuglum.

Eyðumerkurstökkmúsin er með langa afturfætur (um 6 cm á lengd) en framfæturnir eru afar stuttir og veikbyggðir enda notar hún þá ekki til gangs heldur aðeins til þess að halda á fæðu og einstaka sinnum til þess að styðja sig. Merkilegir hárbrúskar eru á milli tánna á afturfótunum sem sennilega hafa það hlutverk að koma í veg fyrir að dýrið sökkvi í sandinn. Rófan er afar löng og notar stökkmúsin hana sem jafnvægistæki þegar hún hoppar. Yst á rófunni er hvítur brúskur.Eyðimerkurstökkmús (Jaculus jaculus).

Eins og aðrar tegundir stökkmúsa er eyðimerkurstökkmúsin einungis á ferli að næturlagi. Yfir daginn heldur hún til í niðurgröfnu bæli sem er yfirleitt rúmgóð hola og nær allt að metra niður í jörðu með nokkrum útgöngum.

Eyðumerkurstökkmúsin fer víða í fæðuleit á nóttunni og er helsta fæða hennar ýmis konar fræ. Hún virðast ekki safna neinum forða þó náttúrufræðingar hafi fundið dálitlar birgðir í einhverjum afkimum í bælinu. Merkilegt er að þegar eyðimerkurstökkmúsin er heima hjá sér yfir daginn, eða þegar hún skreppur af bæ, þá lokar hún útgöngum úr bælinu með steinvölu eða einhverju öðru og sýnir mikla natni við það verk.

Ólíkt flestum öðrum stökkmúsum er eyðimerkurstökkmúsin einfari en stundum halda nokkur dýr til saman í holu, þó sjaldnast fleiri en fjögur.

Venjulega gýtur eyðimerkurstökkmúsin tvisvar á ári 3-5 ungum og er meðgöngutíminn 22-25 dagar. Eyðimerkurstökkmúsin er vinsælasta stökkmúsin í gæludýraverslunum víða í Evrópu og Norður-Ameríku ásamt skyldri tegund, Jaculus orientalis, sem á sér heimkynni austar í Asíu.

Önnur tegund stökkmúsa sem vert er að minnast á er hrossastökkmúsin (Allactaga major). Hún er með afar langar afturlappir en ólíkt eyðimerkurstökkmúsinni sem hefur fjórar tær er hrossastökkmúsin með 5 tær. Hrossastökkmúsin er meðal stærstu stökkmúsa. Skrokklengdin er á bilinu 18-26 cm en skottið er enn lengra eða á bilinu 26-35 cm.

Hrossastökkmúsin lifir vestar í Evrópu en aðrar stökkmýs en kjörlend hennar eru steppur og kjarrlendi Úkraínu og austur til Altaí-svæðisins í Rússlandi. Hrossastökkmúsin gerir sér bæli líkt og aðrar stökkmýs en leggst í dvala yfir veturinn, venjulega frá október til mars.

Helsta fæða hrossastökkmúsarinnar eru fræ og ýmis jurtafæða sem hún finnur neðanjarðar, til dæmis laukar, einnig liljur og túlipanar ásamt axi af húsapunti (Agropyron), kólfhirsi (Setaria italica) og sefgrösum (poa spp.) Helstu óvinir hennar eru ýmsar tegundir marða, refir, smáar kattategundir og uglur.Nokkrar tegundir asískra stökkmúsa. Númer 1 er hrossastökkmús (Allactaga major) og númer 8 er dvergstökkmús (Salpingotus crassicauda).

Síðasta tegundin sem fjallað verður um hér er dvergstökkmús (Salpingotus crassicauda). Hún er um margt ólík öðrum stökkmúsum, með aðeins 3 tær á afturfótunum og ristarbeinið er ekki samvaxið. Dvergstökkmúsin er aðeins um 4-5 cm á lengd og vegur um 6-7 g. Til samanburðar er þyngd hrossastökkmúsa á bilinu 300-450 g.

Heimkynni dvergstökkmúsarinnar eru steppusvæði Suður-Rússlands, Kasakstans og í vestanverðri Mongólíu og Kína þar sem fjaðurgras (Stripa pennata) og síberísk baunatré (Cargana spp.) vaxa. Dvergstökkmúsin er afar dugleg að grafa þrátt fyrir mjög smáan vöxt. Bæli hennar er oft djúpt í jörðu og gangarnir allt að 3 metrar á lengd.

Dvergstökkmýs eru ekki matvandar og á matseðli þeirra eru bæði ýmsar jurtir og hryggleysingjar (skordýr og köngulær) sem ekki hafa harða kítinskurn sér til varnar. Kítín er heiti á fjölsykru í skurn liðdýra og einnig í frumuveggjum sumra sveppa og þörunga. Stuttu eftir vetrardvala æxlast dýrin og gjóta tvívegis yfir sumartímann.

Heimildir og myndir:
 • Macdonald, David (ritstj.). (1995). The Encyclopedia of Mammals, Abindgon, Oxford.
 • „Jerboa.“ Encyclopædia Britannica á Encyclopædia Britannica Online (sótt 10. mars 2005).
 • Wilson D.E., Reeder D.M. (ritstj.) (1993). Mammal Species of the World: A Taxonomic and Geographic Reference. 2 ed. Smithsonian Institution Press, Washington D.C.
 • Happold D.C.D. (1984). „Small mammals“. Í riti; Cloudsley-Thompson J.L. (ritstj.). Sahara Desert. Key environments series. Pergamon Press, Oxford: bls. 251-276.
 • Animal Biodiversity in Jordan.
 • Wild Mongolia.
...