Sólin Sólin Rís 10:54 • sest 15:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:02 • Síðdegis: 20:23 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:45 • Síðdegis: 14:25 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:54 • sest 15:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:02 • Síðdegis: 20:23 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:45 • Síðdegis: 14:25 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er langafasta?

Sigurður Ægisson

Einn hluti kirkjuársins nefnist langafasta. Annað heiti yfir þennan tíma er sjöviknafasta. Með henni er verið að minna á þann tíma sem Jesús fastaði í eyðimörkinni, það er að segja dagana 40 eftir að hann var skírður í ánni Jórdan. Öll fastan miðar að dauða Jesú, og hinn ævaforni siður, að reyna að halda sig frá neyslu kjöts á þessu tímabili, helgaðist af því að ekki þótti sæma manninum að lifa í vellystingum á meðan frelsari heimsins píndist. Þetta er með öðrum orðum undirbúningstími, þar sem kristinn söfnuður íhugar af alvöru þá atburði sem leiddu til aftöku meistarans á föstudaginn langa fyrir bráðum 2000 árum. Til þess að undirstrika þetta breytist litur kirkjuársins á föstunni úr grænum í fjólublátt, sem er merki iðrunar og dapurleika.

Fram að siðbreytingunni, í byrjun nýaldar, var rómversk-kaþólska kirkjan eina trúfélag kristinna manna í Vestur-Evrópu og voru föstur stundaðar á vegum hennar á miðöldum, ekki síður en nú. Dæmi um það er víða að finna í gömlum íslenskum ritheimildum. Heiti föstudagsins kom inn í málið fyrir tilstilli Jóns biskups helga Ögmundssonar í byrjun 12. aldar, þegar lögð voru af hér dagaheiti tengd goðum fornnorræns átrúnaðar. Áður hét þetta frjádagur og var að talið er helgaður konu Óðins, Frigg, en suðurgermanir könnuðust við hana undir nöfnunum Friia og Frea.

Langafasta hefst samkvæmt venju á miðvikudegi í sjöundu viku fyrir páska, það er að segja á öskudag, sem getur verið á bilinu frá 4. febrúar til 10. mars. Nafnið á rætur í því að í kaþólskum sið var ösku dreift yfir höfuð iðrandi kirkjugesta þennan dag. Aska hefur löngum verið tákn hins óverðuga, eins og víða má sjá í Biblíunni og nægir þar að vitna í Mósebók: „Æ, ég hef dirfst að tala við Drottin, þótt ég sé duft eitt og aska.“ Í augum margra kristinna eru þetta sjö helgustu vikur ársins.

Íslensk kirkja heldur enn þennan föstutíma í heiðri, þótt ekki sé lagst í beinan meinlætalifnað. Í stað þess er pínu Jesú og dauða sérstaklega minnst. Sterk hefð var fyrir því á kaþólskum tíma að hugleiða efni píslarsögunnar. Hins vegar breyttist ýmislegt með tilkomu passíusálmanna, sem voru fyrst prentaðir árið 1666 og hafa komið oftar út en nokkurt annað rit á Íslandi.

Lestur passíusálmanna í Ríkisútvarpinu á Rás 1 hefur verið óaðskiljanlegur hluti föstunnar allt frá árinu 1944. Frumkvæði að því átti Magnús Jónsson, prófessor og þáverandi formaður útvarpsráðs. Fyrstur til að lesa passíusálmana þar var Sigurbjörn Einarsson, þá dósent við guðfræðideild Háskólans og síðar biskup Íslands. Útvarpslesturinn miðast reyndar við níuviknaföstu og lýkur að kvöldi laugardags fyrir páska.

Orðið „passía“ er komið úr latínu og merkir „þjáning“. Af því orði er heiti sálmanna dregið; í þeim er rakin píslarsaga meistarans. Því má kannski segja, að hin líkamlega fasta kaþólskra manna hafi vikið eða breyst með tilkomu evangelísk-lútherskrar kristni og orðið meira á andlegum nótum, með aðalfæðu í áðurnefndu snilldarverki Hallgríms Péturssonar frá 17. öld.

Á Vísindavefnum er að finna fleiri svör um páska eða efni sem tengist páskum, til dæmis:

Höfundur

guðfræðingur og þjóðfræðingur

Útgáfudagur

24.3.2005

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Sigurður Ægisson. „Hvað er langafasta?“ Vísindavefurinn, 24. mars 2005, sótt 4. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4855.

Sigurður Ægisson. (2005, 24. mars). Hvað er langafasta? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4855

Sigurður Ægisson. „Hvað er langafasta?“ Vísindavefurinn. 24. mar. 2005. Vefsíða. 4. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4855>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er langafasta?
Einn hluti kirkjuársins nefnist langafasta. Annað heiti yfir þennan tíma er sjöviknafasta. Með henni er verið að minna á þann tíma sem Jesús fastaði í eyðimörkinni, það er að segja dagana 40 eftir að hann var skírður í ánni Jórdan. Öll fastan miðar að dauða Jesú, og hinn ævaforni siður, að reyna að halda sig frá neyslu kjöts á þessu tímabili, helgaðist af því að ekki þótti sæma manninum að lifa í vellystingum á meðan frelsari heimsins píndist. Þetta er með öðrum orðum undirbúningstími, þar sem kristinn söfnuður íhugar af alvöru þá atburði sem leiddu til aftöku meistarans á föstudaginn langa fyrir bráðum 2000 árum. Til þess að undirstrika þetta breytist litur kirkjuársins á föstunni úr grænum í fjólublátt, sem er merki iðrunar og dapurleika.

Fram að siðbreytingunni, í byrjun nýaldar, var rómversk-kaþólska kirkjan eina trúfélag kristinna manna í Vestur-Evrópu og voru föstur stundaðar á vegum hennar á miðöldum, ekki síður en nú. Dæmi um það er víða að finna í gömlum íslenskum ritheimildum. Heiti föstudagsins kom inn í málið fyrir tilstilli Jóns biskups helga Ögmundssonar í byrjun 12. aldar, þegar lögð voru af hér dagaheiti tengd goðum fornnorræns átrúnaðar. Áður hét þetta frjádagur og var að talið er helgaður konu Óðins, Frigg, en suðurgermanir könnuðust við hana undir nöfnunum Friia og Frea.

Langafasta hefst samkvæmt venju á miðvikudegi í sjöundu viku fyrir páska, það er að segja á öskudag, sem getur verið á bilinu frá 4. febrúar til 10. mars. Nafnið á rætur í því að í kaþólskum sið var ösku dreift yfir höfuð iðrandi kirkjugesta þennan dag. Aska hefur löngum verið tákn hins óverðuga, eins og víða má sjá í Biblíunni og nægir þar að vitna í Mósebók: „Æ, ég hef dirfst að tala við Drottin, þótt ég sé duft eitt og aska.“ Í augum margra kristinna eru þetta sjö helgustu vikur ársins.

Íslensk kirkja heldur enn þennan föstutíma í heiðri, þótt ekki sé lagst í beinan meinlætalifnað. Í stað þess er pínu Jesú og dauða sérstaklega minnst. Sterk hefð var fyrir því á kaþólskum tíma að hugleiða efni píslarsögunnar. Hins vegar breyttist ýmislegt með tilkomu passíusálmanna, sem voru fyrst prentaðir árið 1666 og hafa komið oftar út en nokkurt annað rit á Íslandi.

Lestur passíusálmanna í Ríkisútvarpinu á Rás 1 hefur verið óaðskiljanlegur hluti föstunnar allt frá árinu 1944. Frumkvæði að því átti Magnús Jónsson, prófessor og þáverandi formaður útvarpsráðs. Fyrstur til að lesa passíusálmana þar var Sigurbjörn Einarsson, þá dósent við guðfræðideild Háskólans og síðar biskup Íslands. Útvarpslesturinn miðast reyndar við níuviknaföstu og lýkur að kvöldi laugardags fyrir páska.

Orðið „passía“ er komið úr latínu og merkir „þjáning“. Af því orði er heiti sálmanna dregið; í þeim er rakin píslarsaga meistarans. Því má kannski segja, að hin líkamlega fasta kaþólskra manna hafi vikið eða breyst með tilkomu evangelísk-lútherskrar kristni og orðið meira á andlegum nótum, með aðalfæðu í áðurnefndu snilldarverki Hallgríms Péturssonar frá 17. öld.

Á Vísindavefnum er að finna fleiri svör um páska eða efni sem tengist páskum, til dæmis:...