Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Vísindavefnum berast oft spurningar um ýmislegt sem viðkemur nanótækni. Margir eiga erfitt með að átta sig á stærð eða öllu heldur smæð hluta á nanóskala enda eru stærðir þar minni en við eigum að venjast úr daglega lífinu.
Oft fáum við einnig spurningar um það hversu smáar mælieiningar geta orðið og við eigum svör við því hver minnsta mælieiningin sé og einnig hvort til sé lágmarksstærð.
Inni í kassanum er merki Háskóla Íslands og til samanburðar er títuprjónsoddur.
Til þess að sýna stærðarhlutföll á nanóskala ákváðum við að smækka hlut og mynda hann við hliðina á einhverju sem allir þekkja. Á myndinni hér fyrir ofan "sést" merki Háskóla Íslands innan í litla svarta kassanum til hægri. Svarta flykkið við hliðina er ekkert annað en títuprjónsoddur. Myndin hér fyrir neðan er síðan stækkuð mynd af því sem er innan í kassanum. Hún er tekin með rafeindasmásjá og síðan lituð í myndvinnsluforriti.
Þvermál merkisins eftir smækkunina er um það bil 15µm og þykktin er 20nm. Ef við setjum þessar tölur í samhengi þá er þvermál merkisins um 1/5 af þvermáli mannshárs. Þykktin á merkinu er hins vegar ekki nema 1/5000 hluti af þykkt venjulegs ljósritunarpappírs.
Merki Háskóla Íslands smækkað með rafeindaprentun. Þvermál merkisins er þarna um 1/5 af þvermáli mannshárs og þykktin aðeins 1/5000 hluti af þykkt venjulegs ljósritunarpappírs.
Merkið var búið til á Iðntæknistofnun með rafeindalitógrafíu eða rafeindaprentun. Það er gert úr gulli á kísilflögu. Tækin sem voru notuð til þess eru sameign Háskóla Íslands, Iðntæknistofnunar og fleiri aðila. Kristján Leósson sá um að smækka merkið og mynda það.
Hægt er að lesa meira um nanótækni á Vísindavefnum. Í svari Snorra Ingvarssonar við spurningunni Eru til nanólegur? kemur meðal annars fram að orðið nanó er smækkunarforskeyti ættað úr grísku, en nanos merkir dvergur. Í raunvísindum er það notað til þess að tákna 10-9 hluta einhvers (0,000000001 hluti). Þannig er talað um nanósekúndur, 1 ns = 10-9 s og nanómetra, 1 nm = 10-9 m.
Snorri segir ennfremur að þegar talað eru um nanótækni sé yfirleitt átt við manngerða hluti þar sem einhver mikilvægur hluti umrædds tæknilegs fyrirbæris hefur að minnsta kosti tvo af eftirfarandi þremur eiginleikum: lengd, breidd eða hæð á stærðarbilinu 1-100 nm.
Við bendum einnig á svar Viðars Guðmundssonar við spurningunni Hvað er nanótækni?
Jón Gunnar Þorsteinsson og Kristján Leósson. „Hversu litlir eru hlutir á nanóskala?“ Vísindavefurinn, 7. apríl 2005, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4875.
Jón Gunnar Þorsteinsson og Kristján Leósson. (2005, 7. apríl). Hversu litlir eru hlutir á nanóskala? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4875
Jón Gunnar Þorsteinsson og Kristján Leósson. „Hversu litlir eru hlutir á nanóskala?“ Vísindavefurinn. 7. apr. 2005. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4875>.