Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er einhver hjátrú um fuglinn tjald?

Íslensk þjóðtrú hefur ekki margt af tjaldinum að segja, að því er virðist. Það helsta er af sunnanverðu landinu.

Í Árnessýslu þótti til dæmis öruggt rigningamerki ef þeir fuglar settust á tún með kvaki og hávaða. Jón Gíslason segir til að mynda þetta í bók sinni Úr farvegi aldanna, 2. bindi (1974, bls. 174):
Tjaldurinn kemur oft heim á nýslegin tún á sumrin, til að leita sér ætis, aðallega sækist hann í ánamaðka og skorkvikindi ýmiss konar. Á flestum bæjum er það talinn ánægjuauki að fá tjald í nýhirt tún, enda er hann sannur vinur fólksins, sannur vinur láglendisbóndans. Hann er veðurfarsfugl mikill og kann vel að sjá út veður næsta dags og jafnvel daga. Látbragð hans er mótað af nánu sambandi við náttúruna, eins og hjá fleiri votlendis- og mýrafuglum.

Tjaldur (Haematopus ostralegus).

Hvað Rangárvallasýslu varðar segir Þórður Tómasson orðrétt í Veðurfræði Eyfellings (1979, bls. 34): „Tjaldurinn spáði regni, þegar hann hópaði sig með nefið hallþeytt inn að hálsinum og blíaði ákaft. Regnlegt þótti, þegar hann vætlaði sig í tjörnum.“

Og Einar H. Einarsson segir í greininni „Sjö þættir um fugla“, sem birtist í héraðsriti Rangæinga, Goðasteini (1968, bls. 5):
Tjaldurinn var allgóður spáfugl. Ef hann blístraði mikið að morgni dags í björtu veðri, mátti búast við skúr, áður en sá dagur væri liðinn. Vænlegra var, ef hann tók upp á því að vera með háreysti undir háttumálin. Var þá von á þurrki daginn eftir.

Þetta virðist hafa átt við í Mýrdalnum líka og kannski annars staðar í Vestur-Skaftafellssýslu.

Önnur heiti fuglsins eru blóðfætla, stari (af atferli hans) og strandarskati.Tjaldsungi og egg.

Í Noregi er tjaldurinn fyrst og síðast óbrigðult tákn um að vorið sé í nánd. Séu fætur hans eldrauðir verður sumarið heitt, ef bleikir, þá kalt og votviðrasamt. Komi hann fyrir 12. mars veit það á gott, komi hann síðar verður kaldara frameftir en í meðalári. En margt fleira var af honum að læra. Væri maður einn á ferð þegar hann sá fyrsta tjaldinn, boðaði það dauða einhvers úr fjölskyldunni á því ári. Væri ógift par á rölti og sæi einn fugl, varð einhver bið á hjónabandi; sæi það tvo var öruggt með giftingu á árinu. Sæi það hins vegar þrjá á einu róli átti að vera fjölgunar von.

Ef tjaldur söng í þangfjörunni að morgunlagi gladdist sá maður er var á leið í fiskiróður; þetta var sumsé góðs viti.

Komi hann snemma árs til Christiansø (fyrir utan Bornholm) í Danmörku á að vora snemma.

Í Færeyjum, þar sem tjaldurinn er þjóðarfugl, er sagt að hann komi 12. mars og hlýindi í kjölfarið. Láti hann í sér heyra síðla dags er betra veður í nánd.

Tjaldurinn var áður fyrr alsvartur á búkinn, með rautt nef, að því er skosk þjóðtrú fullyrðir. En eftir að hafa aðstoðað Jesú eitt sinn á flótta undan rómverskum hermönnum, með því að fela hann í þarabreiðu, bauð meistarinn í þakklætisskyni, að tjaldar skyldu upp frá því bera krossins merki á hami sínum.

Í gelískri þjóðtrú er tjaldurinn sagður þjónn heilagrar Birgittu, eins af þremur verndardýrlingum Írlands, sem bar jafnan tvo slíka fugla á höndum sér. Er hann kallaður þar Brid-eun eða Bigein-Bride.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Helstu heimildir og myndir:

  • Jón Gíslason. 1974. Úr farvegi aldanna 2. bindi. Hafnarfjörður: Skuggsjá.
  • Þórður Tómasson. 1979. Veðurfræði Eyfellings: greinargerð um veður og veðurmál undir Eyjafjöllum. Reykjavík: Þjóðsaga.
  • Einar H. Einarsson. 1968. Sjö þættir um fugla. Goðasteinn, 7 (1): 3-17.
  • Myndir: Sigurður Ægisson.

Útgáfudagur

14.2.2011

Spyrjandi

Alma Bjarnadóttir

Höfundur

guðfræðingur og þjóðfræðingur

Tilvísun

Sigurður Ægisson. „Er einhver hjátrú um fuglinn tjald?“ Vísindavefurinn, 14. febrúar 2011. Sótt 26. janúar 2020. http://visindavefur.is/svar.php?id=49273.

Sigurður Ægisson. (2011, 14. febrúar). Er einhver hjátrú um fuglinn tjald? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=49273

Sigurður Ægisson. „Er einhver hjátrú um fuglinn tjald?“ Vísindavefurinn. 14. feb. 2011. Vefsíða. 26. jan. 2020. <http://visindavefur.is/svar.php?id=49273>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Guðrún Kvaran

1943

Guðrún Kvaran er málfræðingur og prófessor emeritus. Hún starfaði um áratuga skeið við Orðabók Háskólans og varð forstöðumaður hennar árið 2000. Guðrún hefur skrifað fjölda greina sem birst hafa innanlands og erlendis og flutt fjölmarga fyrirlestra um fræðasvið sín, en viðfangsefnin eru einkum íslenskur orðaforði í sögulegu ljósi, nafnfræði og orðabókafræði.