Skýin sem við sjáum á himninum eru einfaldlega safn örsmárra vatnsdropa. Þau myndast þegar vatnsgufa í andrúmsloftinu kólnar. Við það þéttist hún og skýin verða til.
Þegar loft streymir upp á við lækkar bæði þrýstingur og hiti þess. Uppstreymi verður til dæmis þegar vindur lendir á fjöllum en þá þvingast loftið upp á við. Þegar það gerist kólnar loftið, vatnsgufan þéttist og ský myndast.
En skýin eru ekki bara á himninum. Stundum eru þau alveg við jörðina og þá köllum við þau þoku. Þokan tengist auðvitað ekki uppstreymi heldur oftast kólnun vegna snertingar loftsins við kalt yfirborð jarðarinnar, til dæmis á fjöllum.
Tilviljanakenndar hreyfingar skýjadropanna leiða stundum til þess að þeir rekast hver á annan. Við það fækkar dropunum og þeir stækka. Þegar þeir eru orðnir nógu stórir falla þeir loks til jarðar, annað hvort sem rigning eða snjókoma.
Frekara lesefni:- Af hverju myndast ský og af hverju falla þau ekki til jarðar? eftir Harald Ólafsson
- Eru til margar gerðir skýja? eftir Sigrúnu Karlsdóttur
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.